Eftir tímabil umtalsverðrar sölu á gjaldeyri úr forða sínum hefur Seðlabankinn nú að nýju hafist handa við að safna í forðann. Í júnímánuði námu gjaldeyriskaup bankans a.m.k. 115 m. evra en þegar þetta er ritað vantar einungis gögn fyrir lokadag mánaðarins. Eins og sjá má af myndinni fór langstærsti hluti kaupanna fram á tímabilinu 16. – 22. júní. Líklegt má telja að þau tengist innflæði erlendra fjárfesta vegna kaupa á innlendum verðbréfum og hefur Seðlabankinn með þessum hætti væntanlega viljað afstýra því að styrkingarspírall myndaðist á gjaldeyrismarkaði.
Seðlabankinn snýr við blaðinu á gjaldeyrismarkaði
Seðlabankinn hefur að nýju tekið til við gjaldeyriskaup á markaði eftir umsvifamikla gjaldeyrissölu á faraldurstímanum. Þótt bankinn hafi selt nærri milljarð evra úr forðanum til að styðja við gjaldeyrismarkað og gengi krónu undanfarna fjórðunga er forðinn enn myndarlegur. Líklega mun Seðlabankinn kaupa drjúgar upphæðir í gjaldeyrisforðann á komandi misserum.
Regla eða óregla á inngripum?
Júní var annar mánuðurinn frá miðju síðasta ári þar sem Seðlabankinn var kaupandi á gjaldeyrismarkaði. Í maí keypti bankinn 15 m. evra á markaði. Í millitíðinni hafði bankinn hins vegar selt rétt tæpan milljarð evra úr gjaldeyrisforða sínum inn á gjaldeyrismarkað. Sú sala fór fram með tvennum hætti:
- Óregluleg inngrip, þar sem bankinn brást við tímabundnu flæði á markaði í því skyni að dýpka hann tímabundið og draga úr skammtíma sveiflum í gengi krónu. Í einhverjum mæli voru slík viðskipti einnig gerð að höfðu samráði við einstaka aðila eins og Seðlabankastjóri tíundaði á kynningarfundi bankans síðasta haust.
- Regluleg gjaldeyrissala. Í september tilkynnti bankinn að hann hygðist selja daglega evrur á gjaldeyrismarkaði auka dýpt markaðarins og bæta verðmyndun. Frá miðjum september fram til marsloka seldi bankinn 3 m. evra á hverum viðskiptadegi, í apríl var salan minnkuð í 3 m. evra þrisvar í viku og henni var loks hætt í apríllok.
Mest urðu inngripin í októbermánuði þegar þau námu 234 m. evra. Á þeim tíma var stærsti þáverandi eigandi ríkisbréfa í krónum að ljúka við að losa alla stöðu sína og seldi Seðlabankinn í rauninni óbeint þessum aðila stóran hluta þess gjaldeyris sem til þurfti. Í kjölfarið dró jafnt og þétt úr gjaldeyrissölu bankans. Frá ársbyrjun var reglulega salan langstærsti hluti gjaldeyrissölu bankans og frá apríllokum hefur hann ekki selt gjaldeyri á markaði.
Þegar hæst hóaði var Seðlabankinn mjög umsvifamikill á gjaldeyrismarkaði og námu viðskipti hans tæplega 54% heildarviðskipta á lokafjórðungi síðasta árs. Jafnt og þétt dró svo úr hlutdeild bankans framan af yfirstandandi ári þangað til í júní, en þá námu þau nærri 44% heildarviðskipta.
Vert er að nefna að þessi afskipti bankans af gjaldeyrismarkaði virðast hafa lukkast býsna vel að okkar mati. Líklega hefði krónan tekið ansi snarpa dýfu á haustdögum í fyrra ef ekki hefði verið fyrir inngripin. Trúlega hefði slíkt orðið til þess að auka enn á óvissu meðal almennings og fyrirtækja og ýta verðbólgu meira upp en orðið er með tilheyrandi búsifjum. Lægra gengi hafði líka færri kosti fyrir útflutningsgreinar á þessum tíma en hefði verið í eðlilegra árferði þar sem stærsta útflutningsgreinin lá í dvala og aðrar greinar glímdu við ýmiskonar skorður.
Fordæmi fyrir stórtækum gjaldeyrisviðskiptum
Eins og sjá má á myndinni eru fordæmi fyrir þessu miklu umsvifum síðustu árin. Til að mynda var hlutdeild Seðlabankans í veltu á millibankamarkaði u.þ.b. 54% árið 2016. Hér ber að halda því til haga að millibankamarkaður endurspeglar aðeins hluta gjaldeyrisviðskipta í fjármálakerfinu. Hver viðskiptabanki fyrir sig leitast jafnan við að para saman viðskipti sinna viðskiptavina með gjaldeyri og krónur á hverjum tíma. Er það fyrst þegar verulegur munur er á spurn og framboði á gjaldeyri sem hann leitar út á millibankamarkaðinn með viðskipti sín.
Þótt einhverjum þyki eflaust nóg um gjaldeyrissölu Seðlabankans frá því faraldurinn skall á hafði bankinn af nógu að taka eftir mikla forðasöfnun árin á undan. Samtals keypti bankinn ríflega 6,3 ma. evra á árunum 2014-2018. Í ársbyrjun 2020 var heildar gjaldeyrisforði Seðlabankans jafnvirði 6,1 ma. evra og hreinn forði, að frádregnum gjaldeyrisskuldum Seðlabankans og ríkissjóðs, nam 4,7 ma. evra.
Í lok maí sl. var heildarforðinn 5,7 ma. evra og hreinn forði 3,3 ma. evra. Seðlabankinn hefur því einungis ráðstafað fremur litlum hluta forða síns til þess að styðja við gjaldeyrismarkað og halda aftur af gengisfalli krónu á faraldurstímanum. Nú þegar vonandi dregur að lokum faraldursins, ferðamönnum er tekið að fjölga og fjárfesting erlendra aðila í innlendum verðbréfum líklegri til að aukast en hitt teljum við líklegt að umsvif Seðlabankans á kauphlið gjaldeyrismarkaðar eigi eftir að verða talsverð á komandi misserum.
Safnað í sarpinn á ný?
Í þjóðhagsspá okkar í maí fjölluðum við um forðastýringu Seðlabankans og leiddum að því líkur að undanfarinn áratug hefðu gjaldeyrisviðskipti hans mildað bæði styrkingarhrinu krónunnar í kring um miðbik áratugarins og veikingarskeiðið sem ríkt hefur síðustu ár. Í spánni var einnig gert ráð fyrir að gengi krónu myndi styrkjast fram til ársloka 2023. Það sækir því að okkar mati í svipað far og var um miðjan síðasta áratug þar sem umfangsmikil forðakaup bankans fóru saman við styrkingu krónunnar. Vonandi verður þó hlutdeild bankans á gjaldeyrismarkaði hóflegri en var á þeim tíma. Nýlega breyttur reglurammi um afleiðuviðskipti með krónu og aðra gjaldmiðla, þar sem slík viðskipti eru nú heimil upp að vissu marki án þess að þau þurfi að tengjast gjaldeyrisvörnum, ætti að hjálpa til við þá þróun.