Talsverðar sveiflur hafa verið á gengi krónu undanfarna þrjá mánuði. Krónan veiktist þannig linnulítið gagnvart evru allan ágústmánuð, styrktist snögglega eftir tilkynningu Seðlabankans um regluleg gjaldeyrisinngrip 9. september og veiktist svo jafnt og þétt á nýjan leik fram undir nýliðin mánaðamót. Á sama tíma seldi Seðlabankinn 480 milljónir evra inn á gjaldeyrismarkaðinn, jafnvirði tæplega 79 ma.kr. á meðalgengi tímabilsins, í því skyni að styðja við markaðinn og draga úr falli krónu. Hverju sætir þetta og er það skynsamleg stefna hjá bankanum að selja sem nemur 8% af gjaldeyrisforða sínum á tímabilinu?
Seðlabankinn selur metfjárhæðir úr forðanum
Gjaldeyrissala Seðlabankans undanfarið hefur slegið fyrri met en krónan hefur þó átt á brattann að sækja á sama tíma. Ástæðan er að stórum sala erlendra aðila á ríkisskuldabréfum í stórum stíl síðustu mánuði. Þrátt fyrir mikla gjaldeyrissölu er gjaldeyrisforði bankans enn stór og þrýstingur á krónuna verður líklega minni þegar frá líður.
Nýlegar tölur Seðlabankans um veltu á gjaldeyrismarkaði sýna að í októbermánuði seldi bankinn alls 231 m. evra á millibankamarkaði. Af þeirri fjárhæð voru 66 m.evra í formi reglulegrar daglegrar sölu á gjaldeyrismarkaði. Bróðurparturinn, 165 m.evra, var þó í formi óreglulegra inngripa sem að langstærstum hluta áttu sér stað á síðasta þriðjungi mánaðarins. Þar af seldi bankinn 45 m.evra með þessum hætti á síðasta viðskiptadegi mánaðarins, þann 30. október. Þessi mikla gjaldeyrissala bankans kemur á hæla ríflega 150 m. evra sölu í september og nærri 100 m. evra sölu í ágúst síðastliðnum. Samtals hefur því Seðlabankinn selt nærri hálfan milljarð evra úr gjaldeyrisforðanum á millibankamarkaði frá ágústbyrjun.
Gífurleg gjaldeyrissala frá ágústbyrjun
Gjaldeyrissala bankans undanfarna mánuði er af allt annarri stærðargráðu en sést hefur undanfarinn áratug. Á fyrstu sjö mánuðum ársins nam til að mynda hrein gjaldeyrissala Seðlabankans 119 m. evra og síðustu tvö árin á undan nam salan í heild 91 m. evra. Árin þar á undan hafði bankinn svo safnað háum fjárhæðum í gjaldeyrissarpinn og var sérlega virkur í gjaldeyriskaupum á styrkingartímabilinu 2015-2017.
Þótt hallað hafi undan fæti í utanríkisviðskiptum eftir að COVID-19 faraldurinn gaus upp skýrir gjaldeyrisflæði vegna utanríkisviðskipta varla þennan mikla þrýsting á krónuna undanfarna mánuði. Lítilsháttar halli hefur vissulega verið á vöru- og þjónustuviðskiptum síðustu mánuðina en okkur telst þó til að slíkur halli hafi aðeins numið í námunda við 6 ma.kr. á þriðja fjórðungi ársins og líklega var hallinn lítill sem enginn í október miðað við fyrirliggjandi bráðabirgðatölur um vöruskipti (0,4 ma.kr. halli).
Samkomulag milli lífeyrissjóða og Seðlabankans um að þeir fyrrnefndu héldu tímabundið að sér höndum um gjaldeyriskaup rann út í september og var ekki endurnýjað. Kunna aukin kaup þeirra að hafa átt einhvern þátt í þrýstingi á krónuna.
Bláhvalur hverfur úr landhelgi
Stærsti áhrifaþátturinn á mikinn útflæðisþrýsting á krónu síðustu mánuðina kemur hins vegar úr annarri átt. Í Fjármálastöðugleika, sem Seðlabankinn birti undir lok september sl., er um það fjallað að hrein nýfjárfesting fyrir erlent fjármagn hafi verið neikvæð um 12 ma.kr. í júní-ágúst. Er hér fyrst og fremst um að ræða sölu erlendra aðila á ríkisbréfum. Samkvæmt nýlegum fréttaflutningi hefur svo enn bætt í þessa ríkisbréfasölu í september og október. Séu heimildir blaðsins á rökum reistar hleypur salan í þessum mánuðum á tugum milljarða.
Eign erlendra aðila á ríkisbréfum í krónum hefur minnkað mikið undanfarin 2 ár. Eins og sést á myndinni nam hún 111 mö.kr. í lok árs 2018 en gæti, miðað við framangreindar fréttir, verið komin niður fyrir 1/3 af þeirri tölu. Er það sérstök staða í ljósi þess að gengi krónu og ávöxtunarkrafa ríkisbréfa ætti að gera eign slíkra bréfa að áhugaverðum kosti fyrir ýmsa erlenda aðila sem standa frammi fyrir því að fá litla eða enga ávöxtun á ríkistryggð skuldabréf.
Rökrétt að beita forðanum...
Í ljósi þess hversu háar fjárhæðir hafa að líkindum farið um gjaldeyrismarkað undanfarna 3 mánuði vegna framangreindrar eignasölu er rökrétt að Seðlabankinn bregðist við með umsvifamikilli gjaldeyrissölu. Gjaldeyrisforði bankans nam ríflega 6 mö. evra í ársbyrjun, jafnvirði ríflega 970 ma.kr. á núverandi gengi. Ástæðan fyrir slíkum risaforða er einmitt að hluta sú að vega gegn kvikum eignum erlendra aðila í krónum og takmarka hættu á óhóflegu gengisfalli krónu ef slíkar eignir eru losaðar í miklum mæli á stuttum tíma. Leiða má að því líkur að bankinn, sem hefur betri upplýsingar en nokkur annar aðili um fjárfestingar erlendra aðila, hafi kosið að vega upp að stórum hluta þau áhrif sem ella hefðu orðið ef slík fjárhæð hefði farið um okkar örsmáa gjaldeyrismarkað á haustmánuðum.
Í sem stystu máli: Veiking krónu og mikil gjaldeyrissala Seðlabankans undanfarið er ekki fyrst og fremst til marks um að undirliggjandi gjaldeyrisflæði sé að skapa viðvarandi þrýsting á krónuna heldur virðist hér að miklu leyti um tímabundin áhrif að ræða. Eftir sem áður hefur Seðlabankann yfir að ráða miklum gjaldeyrisforða á sama tíma og kvikar eignir erlendra aðila eru orðnar býsna smáar í samanburði við forðann. Gjaldeyrisforðinn nam 5,8 mö. evra í septemberlok og reiknast okkur til að enn séu ríflega 5,5 ma. evra í þeim sarpinum þrátt fyrir mikla sölu í októbermánuði. Þar af eru tæplega 4 ma. evra sem skuldsettir eru í krónum en u.þ.b. 1,6 ma. evra standa á móti gjaldeyrisskuld við ríkissjóð.
...og enn svigrúm til frekari inngripa
Forvitnilegt verður að fylgjast með gengi krónu næstu vikurnar, nú þegar margt bendir til að mesti kúfurinn af eignasölu erlendra aðila sé yfirstaðinn. Líklegt er að áfram verði nokkuð á brattann að sækja fyrir krónuna á meðan ferðaþjónusta liggur niðri og Kórónufaraldurinn geisar. Seðlabankinn mun hins vegar halda áfram uppteknum hætti við inngrip, regluleg sem óregluleg, á meðan þetta ástand varir. Bankinn lýsti sig reiðubúinn í september að selja allt að 240 m. evra í reglulegum viðskiptum fram til áramóta. Átti hann enn ríflega helming þeirrar fjárhæðar óseldan um mánaðamót, eða jafnvirði u.þ.b. 21 ma.kr. Á móti kemur að líklega verður lítilsháttar halli á vöru- og þjónustuviðskiptum fram til áramóta og lífeyrissjóðir gætu keypt allnokkrar fjárhæðir í gjaldeyri í því skyni að auka vægi erlendra eigna í söfnum sínum.
Þegar frá líður eru hins vegar meiri líkur en minni á styrkingu krónunnar að okkar mati. Núverandi gengi og vaxtastig innanlands hlýtur að teljast nokkuð áhugavert fyrir erlenda fjárfesta þótt framangreindir seljendur hafi sprungið á því limminu. Þá mun gjaldeyrisflæði vegna utanríkisviðskipta líkast til fljótt verða hagfelldara þegar ferðageta- og vilji eykst á nýjan leik. Hvenær flæðið snýst með þessum hætti er hins vegar illmögulegt að segja til um og veltur vitaskuld að stærstum hluta á framgangi faraldursins sem hingað til hefur reynst langvinnari bölvaldur en vonast var til í fyrstu.
Gjaldeyrisforðinn er enn töluvert yfir varúðarviðmiðum og áhættan sem honum er m.a. ætlað að verjast hefur minnkað nokkuð í bili. Það virðist því skynsamlegt fyrir Seðlabankann að beita gjaldeyrisforðanum áfram í vetur i því skyni að afstýra óhóflegri veikingu krónu, styðja við verðbólguvæntingar og minnka skammtíma óvissu. Dragist núverandi ástand hins vegar á langinn kemur á endanum að því að bankinn þarf að gerast aðhaldssamari á forðann.