Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Seðlabankinn rífur í handbremsuna

Stórt vaxtahækkunarskref, tvöföldun bindiskyldu og harður tónn um aukið peningalegt aðhald er til marks um mikla áherslu peningastefnunefndar á að ná sem fyrst tökum á verðbólgu og verðbólguvæntingum. Ný hagspá bankans teiknar upp meiri þenslu og þrálátari verðbólgu en fyrri spá, en líta má á hana sem víti til varnaðar sem stjórnendur bankans eru að bregðast við. Líklegt er að stýrivextir muni hækka frekar á seinni helmingi ársins.


Seðlabankinn tilkynnti í morgun þá ákvörðun peningastefnunefndar bankans að hækka stýrivexti um 1,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því 8,75% og hafa þar með hækkað um 8 prósentur undanfarin tvö ár. Svo háir hafa vextirnir ekki verið frá því snemma árs 2010. Hækkunin var meiri en almennt hafði verið spáð. Greiningarfólk allra viðskiptabankanna, og við þar á meðal, spáði 1 prósentu vaxtahækkun. Auk þess ákvað nefndin að hækka fasta bindiskyldu innlánsstofnana úr 1% í 2%.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar í morgun kemur fram að efnahagsumsvif hafa verið kröftug það sem af er ári og horfur á mun meiri hagvexti í ár en áður var spáð. Undirliggjandi verðbólga heldur áfram að aukast og miklar verðhækkanir mælast í sífellt stærri hluta neyslukörfunnar.  Útlit er fyrir að verðbólguþrýstingur verði töluvert meiri í ár og á næsta ári en áður var gert ráð fyrir. Verðbólguvæntingar til lengri tíma hafa jafnframt hækkað og eru vel yfir markmiði. Aukin hætta er því á að verðbólga reynist þrálát.

Spá meiri hagvexti og þenslu á næstunni

Ný hagspá var birt í Peningamálum samhliða stýrivaxtaákvörðuninni. Bankinn áætlar að hagvöxtur á fyrsta fjórðungi þessa árs hafi verið töluvert meiri en áður var gert ráð fyrir og útlit fyrir að hann verði meiri á árinu í heild. Seðlabankinn spáir 4,8% hagvexti á yfirstandandi ári í stað 2,6% sem bankinn spáði í febrúar. Helstu ástæður meiri hagvaxtar í spá bankans fyrir árið er enn meiri vöxtur innlendrar eftirspurnar og betri horfur í ferðaþjónustu. Hagvaxtarhorfur næstu tvö árin breytast hins vegar lítið frá síðustu spá.

Spá Seðlabankans fyrir þetta ár er talsvert bjartsýnni en aðrar spá eins og sést á myndinni hér að ofan. Við spáum 3,4% hagvexti en spá okkar er frá því febrúarbyrjun.

Spá Seðlabankans fyrir atvinnuleysi lækkar lítillega fyrir þetta ár. Töluverð spenna er enn á vinnumarkaði og mikilli eftirspurn eftir vinnuafli er mætt með sögulegri fjölgun erlends vinnuafls. Bankinn spáir 3,7% atvinnuleysi á þessu ári en útlit fyrir fyrir meira atvinnuleysi næstu tvö ár þegar spennan á vinnumarkaði minnkar.

Verðbólga enn og aftur þrálátari

Undirliggjandi verðbólga hefur haldið áfram að aukast og hafa flestir mælikvarðar hækkað talsvert frá byrjun árs. Verðbólga er því á breiðum grunni sem er mikið áhyggjuefni. Horfur eru á því að verðbólga verði meiri í ár og á næsta ári en Seðlabankinn spáði áður. Útlit er fyrir meiri spennu í þjóðarbúinu en gengi krónu og hjöðnun alþjóðlegrar verðbólgu vegur á móti. Samkvæmt spá Seðlabankans mun verðbólga mælast 8,8% að meðaltali á þessu ári, 5% á næsta ári og 3,4% árið 2025. Verðbólga mun því ekki vera við markmið Seðlabankans fyrr en um mitt ár 2026 samkvæmt spá bankans.

Nýjasta verðbólguspá Seðlabankans er í takti við nýjustu verðbólguspá okkar. Við gerum ráð fyrir að verðbólga verði 8,7% að jafnaði á þessu ári. En eins og sést á myndinni var spáin okkar í febrúar talsvert bjartsýnni þar sem við gerðum ráð fyrir 7,6% verðbólgu að meðaltali á árinu í febrúarbyrjun.

Mikilvægt að slá á verðbólgu fyrir veturinn

Á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina spurðum við hvort líta mætti á nýja hagspá bankans sem sviðsmynd sem nefndin væri að bregðast við með hertu aðhaldi nú. Samsinnti Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri þeirri túlkun og sagði bankann þurfa að bregðast þannig við að spá um áframhaldandi þenslu og þráláta verðbólgu næði ekki fram að ganga.

Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri peningastefnu tók í sama streng og sagði mikilvægt að ná árangri í baráttunni við verðbólgu áður en næsta lota kjaraviðræðna færi á fullan skrið á lokafjórðungi ársins.

Þá viðruðu þau Ásgeir og Rannveig eftir sem áður áhyggjur af því að stuðningur annarra sem að hagstjórn koma væri ónógur. Þau vísuðu meðal annars til greinar í nýbirtum Peningamálum þar sem metin voru áhrif af auknu aðhaldi í ríkisfjármálum sem næmi samtals ríflega 100 ma.kr. yfir næstu tvö ár. þar var niðurstaðan sú að talsvert lægri stýrivexti þyrfti til að ná tökum á verðbólgu ef slíkt yrði gert. Eins lýstu þau vonbrigðum með þá afstöðu margra innan verkalýðshreyfingarinnar að ekki væri sérstakt orsakasamhengi milli mikilla nafnlaunahækkana og hærra vaxtastigs. Sögðu þau að ef aðilar vinnumarkaðar neituðu að taka ábyrgð þyrfti Seðlabankinn að beita stýrivöxtum fastar en ella. 

Frekari hækkun vaxta líkleg á seinni helmingi ársins

Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er mikið breytt frá síðustu vaxtaákvörðun og er óhætt að segja að þar er sleginn harður tónn.

Hún hljóðar svo (feitletrun er okkar):

„ ... er nauðsynlegt að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar. Einkum er mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags, sérstaklega þegar litið er til mikillar spennu í þjóðarbúinu og hversu stutt er í næstu kjarasamningalotu. Horfur eru því á að hækka þurfi vexti enn meira til að tryggja betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og koma verðbólgu í markmið.“

Ljóst er að þessi harða þrenna peningastefnunefndarinnar (stórt vaxtahækkunarskref, aukin bindiskylda og afdráttarlaus framsýn leiðsögn) er til marks um einbeittan vilja nefndarfólks til þess að ná sem fyrst tökum á verðbólgu og verðbólguvæntingum. Kom fram í máli seðlabankastjóra í morgun að vel kæmi til greina að auka bindiskyldu frekar sem hluta að hertu aðhaldi á komandi fjórðungum.

Óvenju langt er í næstu vaxtaákvörðun Seðlabankans, en hún er fyrirhuguð þann 23. ágúst næstkomandi. Trúlega á það sinn þátt í því hversu fast var lagst á aðhaldsárarnar að þessu sinni. Taki verðbólga að hjaðna á komandi mánuðum líkt og við gerum ráð fyrir verður vonandi ekki þörf á mikilli frekari hækkun stýrivaxta á seinni árshelmingi. Þó eru að okkar mati meiri líkur en minni á því að vextir verði hækkaðir á ný í ágúst og hugsanlega eitthvað til viðbótar á lokafjórðungi ársins. Verði verðbólgan lífseigari en við væntum þýðir það að sama skapi horfur á hærri stýrivöxtum um næstu áramót.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband

Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband