Seðlabankinn: óbreyttir vextir en opnað á vaxtalækkun eftir sumarið

Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um óbreytta stýrivexti í dag var í samræmi við væntingar en tónninn í yfirlýsingu nefndarinnar þó nokkuð mildari en í mars síðastliðnum. Við teljum eftir sem áður að vaxtalækkunarferli Seðlabankans hefjist á seinni hluta þessa árs og teljum peningastefnunefndina hafa gefið þeim væntingum undir fótinn í framsýnu leiðsögninni.


Seðlabankinn tilkynnti í morgun ákvörðun peningastefnu bankans um að halda stýrivöxtum óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því óbreyttir í 9,25% líkt og þeir hafa verið frá því í ágústlok í fyrra. Ákvörðunin var í samræmi við birtar spár og almennar væntingar á markaði.

Það helsta úr yfirlýsingu peningastefnunefndar:

  • Verðbólga hefur hjaðnað frá síðasta fundi
  • Verðbólga án húsnæðisliðar hefur hjaðnað hraðar og undirliggjandi verðbólga komin undir 5%
  • Hægt hefur á innlendri eftirspurn enda peningalegt taumhald þétt
  • Horfur á að það dragi úr hagvexti í ár
  • Spenna í þjóðarbúskapnum meiri en áður var talið
  • Spenna á vinnumarkaði enn til staðar sem gæti ýtt undir launaskrið
  • Verðbólguvæntingar hafa lækkað á suma mælikvarða en eru enn yfir markmiði

Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er aðeins breytt frá síðasta fundi og tónninn mildari að okkar mati.

Hún hljóðar svo:

Peningastefnunefnd telur auknar líkur á því að núverandi aðhaldsstig sé hæfilegt til þess að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma. Mótun peningastefnunnar mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Að okkar mati er framsýna leiðsögnin merki um að nefndin sjái fyrir sér að lækka stýrivexti þegar/ef verðbólga og verðbólguvæntingar hjaðna frá núverandi gildum og halda þannig raunstýrivaxtastiginu á svipuðum slóðum og nú. Hér má nefna að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina að nefndin hefði möguleika til að lækka vexti hratt þegar þar að kæmi og að mögulega væri betra að „byrja ekki með aumingjalegar vaxtalækkanir á röngum tíma, myndarlegar lækkanir á réttum tíma væri betri“.

Horfur á minni hagvexti í ár og á næsta ári

Uppfærð hagspá Seðlabankans birtist í Peningamálum sem birt voru samhliða vaxtaákvörðuninni. Þar spáir bankinn hægari hagvexti á þessu og næsta ári en í síðustu spá sem birtist í febrúarbyrjun. Hljóðar spáin upp á 1,1% hagvöxt í ár í stað 1,9%, 2,3% á næsta ári  í stað 2,9% og 2,9% árið 2026 í stað 2,7%. Að kreppuárinu 2020 undanskildu verður hagvöxturinn í ár sá hægasti í tólf ár.

Minni hagvöxtur í ár en í fyrri spá skýrist bæði af hægari vexti innlendrar eftirspurnar, sér í lagi einkaneyslu og fjárfestingar, en einnig af minni vexti útflutnings. Þar gætir bæði áhrifa af loðnubresti en einnig heldur lakari horfum um ferðaþjónustuárið en áður var vænst. Minni vöxtur næsta ár skýrist svo alfarið af minni vexti neyslu og fjárfestingar en áður var spáð.

Dregur hægt og sígandi úr spennu á vinnumarkaði

Fram kemur að útlit er fyrir hægari fjölgun starfa en verið hefur. Spennu á vinnumarkaði gætir þó enn sem gæti ýtt undir launaskrið. Seðlabankinn spáir því að spennan minnki jafnt og þétt og atvinnuleysi verði 4,8% að jafnaði á þessu ári, 4,9% og 4,2% árin 2025 og 2026. Bankinn telur að ástand atvinnumála í Grindavík geti haft áhrif til aukningar atvinnuleysis næstu misseri. Þar að auki eru horfur á að áfram dragi úr fólksfjölgun á spátímanum og að spenna á vinnumarkaði snúist í slaka seint ár þessu ári. 

Þá gerir Seðlabankinn ráð fyrir að áhrif kjarasamningsbundinnar hækkunar launa verði ríflega 4% á ári á spátímanum, sem er í mun betra samræmi við verðbólgumarkmið bankans með tilliti til framleiðnivaxtar en kjarasamningar undanfarinna ára hafa verið. Bankinn gerir hins vegar ráð fyrir allnokkru launaskriði til viðbótar og áætlar hann að launakostnaður á framleidda einingu (s.s. þegar búið er að taka tillit til framleiðnivaxtar) aukist um 6,5% í ár, 3,9% á næsta ári og 4,0% árið 2026. Til samanburðar jókst launakostnaður á þennan kvarða um 7,8% í fyrra og 7,3% árið 2022.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri tók fram á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina að nýlegir kjarasamningar væru gott innlegg í baráttuna við verðbólga, hætta á víxlverkum launa og verðlags væri því farin frá í bili. Hins vegar væru endurskoðunarákvæði í samningunum sem kæmu til kasta um mitt næsta ár og því mikilvægt að ná verðbólgu umtalsvert niður fyrir þann tíma.

Verðbólguhorfur heldur lakari en áður

Uppfærð verðbólguspá Seðlabankans gerir ráð fyrir 5,9% verðbólgu á þessu ári að jafnaði, 3,9% á næsta ári og 2,8% árið 2026. Uppfærð spá gerir því ráð fyrir hægari hjöðnun verðbólgunnar en spáin í febrúar.

Á milli þeirra vaxtaákvörðunarfunda hefur þó ýmislegt borið á. Sér í lagi mældist verðbólga nokkru meiri á fyrsta þriðjungi ársins en Seðlabankinn hafði gert ráð fyrir, sem litar spár hans fyrir komandi fjórðunga. Þá sýna nýlega endurskoðaðar hagvaxtartölur Hagstofu að hagvöxtur var talsvert meiri undanfarin ár en fyrri tölur höfðu sýnt, sem endurspeglast meðal annars í því mati Seðlabankans að framleiðsluspenna í hagkerfinu sé heldur meiri um þessar mundir en áður var talið. Loks virðist meiri seigla vera í íbúðamarkaði en vænst var, og bein og óbein áhrif þess koma trúlega fram að einhverju marki í verðbólguspá bankans.

Seðlabankinn spurði í könnun meðal markaðsaðila, sem gerð var í aðdraganda vaxtaákvörðunarinnar, hver líkleg áhrif af breytingu á útreikningi reiknaðrar húsaleigu yrðu. Töldu ríflega 2/3 svarenda að verðbólga yrði líklega meiri en ella á komandi fjórðungum. Seðlabankinn er þó ekki sjálfur á þeirri skoðun og telur óvissuna um áhrif breytinganna samhverfa hvað verðbólguhorfur varðar. Virtist það raunar koma seðlabankastjóra á óvart að aðilar á markaði byggjust flestir við meiri verðbólgu vegna þessa en ella. Voru stjórnendur bankans á einu máli um að til lengri tíma væri líklegt að breytingin myndi draga úr sveiflum í verðbólgu og gera þennan tiltekna undirþátt skiljanlegri fyrir almenning. Erum við þar sammála Seðlabankanum.

Við teljum vissulega ákveðna hættu á að leiguverð muni hækka hraðar en íbúðaverð næstu misserin í ljósi þess að hlutfall íbúðaverðs og leiguverðs hefur hækkað umtalsvert frá því íbúðamarkaður fór á flug í faraldrinum. Þar þarf þó að hafa fleiri þætti í huga á borð við mismunandi áhrif raunvaxta á markaðina tvo sem og ólíka verðsetningu. Síðast en ekki síst má benda á að ýmsir stjórnmálamenn hafa viðrað hugmyndir um einhvers konar hömlur á hækkun leiguverðs. Þótt slík handstýring gæti reynst skammgóður vermir eins og reynsla annarra landa sýnir gæti hún leitt til þess að það leiguverð sem Hagstofan mælir hækki hægar en leigumarkaðurinn í heild. Erum við því á svipaðri skoðun og Seðlabankinn um að það sé ekki hægt að slá því föstu að breyting aðferðafræðinnar muni hafa umtalsvert neikvæð áhrif á verðbólguþróun komandi missera.

Vaxtalækkun bíður haustsins

Nú fer í hönd býsna myndarlegt sumarfrí hjá peningastefnunefnd Seðlabankans en næsta vaxtaákvörðun bankans er dagsett 21. ágúst næstkomandi, eftir 15 vikur. Efnahags- og verðbólguþróunin í sumar mun þá ráða úrslitum um hvort nefndin fagnar sumarlokum með vaxtalækkun eða hvort frekari bið verður eftir vaxtalækkunarferlinu.

Við gerum ráð fyrir að stýrivextir verði lækkaðir um samtals hálfa prósentu á seinni helmingi þessa árs og standi í 8,75% um næstu áramót. Á næsta ári gætu svo vextirnir lækkað umtalsvert ef spár okkar um kaldara hagkerfi og hjaðnandi verðbólgu ganga eftir. Við gerum ráð fyrir að stýrivextir verði komnir niður í 6 – 6,5% í árslok 2025.

Fróðlegt er að bera spá okkar saman við nýbirta væntingakönnun Seðlabankans meðal markaðsaðila. Samkvæmt henni hafa væntingar um vaxtalækkunarferli að jafnaði hliðrast fram í tímann miðað við undanfarnar kannanir sem gerðu ráð fyrir vaxtalækkunarferli frá og með yfirstandandi vori. Miðað við miðgildi svara í könnuninni gera aðilar á fjármálamörkuðum ráð fyrir því að vaxtalækkunarferli Seðlabankans hefjist á þriðja ársfjórðungi, stýrivextir verði komnir niður í 8,5% um áramótin og í 7,25% á vordögum 2025.

Eins og sjá má af myndinni eru markaðsaðilar eilítið bjartsýnni en við á lækkun vaxta næstu fjórðungana en öllu svartsýnni þegar skyggnst er lengra fram á veg. Það þarf svo varla að taka fram að óvissa eykst hratt þegar lengra er spáð í hlutfalli við aukna óvissu um bæði efnahags- og verðbólguhorfur þegar fram í sækir.

Eftir yfirlýsingu og kynningarfund morgunsins teljum við spá okkar um vaxtalækkun á þriðja ársfjórðungi standa styrkari fótum og má greina á skilaboðum Seðlabankafólks að jafnvel sé möguleiki á nokkuð myndarlegri lækkun vaxta þegar skilyrði skapast til.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa sambanbd
Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur


Hafa samband