Seðlabankinn: Óbreyttir vextir en mildari tónn

Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um óbreytta stýrivexti í dag var í samræmi við væntingar og tónninn í yfirlýsingu nefndarinnar var mun mildari en í nóvember í fyrra. Að mati bankans hafa verðbólguhorfur batnað nokkuð og útlit er fyrir að hraðar dragi úr spennu í hagkerfinu en áður var talið. Vaxtahækkunarferli bankans er líklega lokið og þótt trúlega bíði vaxtalækkun fram á vor er ekki útilokað að vextir gætu lækkað fyrir lok mars.


Seðlabankinn tilkynnti í morgun þá ákvörðun peningastefnunefndar bankans að halda stýrivöxtum óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því óbreyttir í 9,25% eins og þeir hafa verið frá því í ágústlok í fyrra. Ákvörðunin var í samræmi við birtar spár og almennar væntingar á markaði.

Það helsta úr yfirlýsingu peningastefnunefndar:

  • Áhrif peningastefnunnar koma æ skýrar fram.
  • Raunvextir hafa hækkað og verðbólga hjaðnað nokkuð frá nóvemberfundi nefndarinnar.
  • Undirliggjandi verðbólga hefur einnig minnkað.
  • Vísbendingar eru um að hraðar dragi úr vexti efnahagsumsvifa en áður var talið.
  • Samkvæmt nýrri spá Seðlabankans fer spennan í þjóðarbúinu minnkandi og snýst í slaka undir lok ársins.
  • Verðbólguhorfur hafa því batnað.
  • Langtímaverðbólguvæntingar hafa þó lítið breyst og haldist nokkuð yfir markmiði.
  • Þótt hægt hafi á vinnumarkaði er spenna þar enn til staðar.
  • Verðbólga gæti því áfram reynst þrálát.
  • Þá er einnig óvissa um niðurstöður kjarasamninga og mögulegar aðgerðir í ríkisfjármálum tengdar þeim og vegna jarðhræringa á Reykjanesi.

Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er mikið breytt frá harða tóninum í nóvember, býsna stutt og hlutlaus.

Hún hljóðar svo:

Mótun peningastefnunnar á næstunni mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa.

Að okkar mati endurspeglar þessi breytti tónn að Seðlabankafólk er að taka fullt tillit bæði til batnandi verðbólguhorfa og nýlegra merkja um minnkandi spennu í hagkerfinu.

Minni verðbólga og hægari vöxtur í kortunum á komandi fjórðungum

Uppfærð hagspá var birt í Peningamálum samhliða stýrivaxatákvörðuninni og spáir Seðlabankinn hægari hagvexti á þessu ári en áður. Gerir hann ráð fyrir að hagvöxtur verði 1,9% í stað 2,6% í nóvemberspá bankans. Það er sama spá um hagvöxt og í spá okkar sem birtist í síðustu viku. Helsta ástæða fyrir breyttri spá er hægari vöxtur innlendrar eftirspurnar, sér í lagi einkaneyslunnar. Næstu tvö árin breytast horfurnar um hagvöxt frekar lítið að mati bankans. Hagvöxtur helst óbreyttur á næsta ári í 2,9% og eykst svo lítillega 2026 þegar bankinn spáir 2,7% í stað 2,5% sem hann spáði í nóvember.

Dregur úr spennu á vinnumarkaði

Enn er talsverð spenna á vinnumarkaði þó dregið hafi úr henni að undanförnu. Seðlabankinn spáir því að áfram dragi úr spennu á vinnumarkaði og býst við að atvinnuleysi verði 4,8% í ár en dragi svo úr því á spátímanum og það verði um 3,8% undir lok hans.

Seðlabankinn notast við vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar en Greining Íslandsbanka skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun. Í vinnumarkaðskönnuninni á atvinnuleysi það til að mælast aðeins hærra en skráð atvinnuleysi. Það gæti skýrt þann mun að mestu sem er á spá Seðlabankans og Greiningu Íslandsbanka. Við í Greiningu gerum ráð fyrir að atvinnuleysi aukist á árinu og verði um 4% á spátímanum.

Bjartari verðbólguhorfur

Seðlabankinn gerir ráð fyrir hraðari hjöðnun verðbólgunnar nú en í nóvemberspánni. Bankinn spáir 5,0% verðbólgu að meðaltali á þessu ári í stað 5,7% í nóvember. Helsta ástæða er að hægt hefur hraðar á innlendri eftirspurn undanfarið og búist er við að slaki myndist í þjóðarbúskapnum í lok þessa árs. Á móti telur bankinn að horfur séu á heldur meiri launakostnaðar á spátímanum. Spáin hljóðar svo upp á 3,3% verðbólgu að meðaltali á næsta ári og 2,7% árið 2026. Bankinn sér fram á að verðbólga verði komin við markmið á seinni hluta árs 2026 og er það í fyrsta sinn í langan tíma sem bankinn spáir verðbólgu í markmið á spátímabilinu.

Á kynningarfundi í kjölfar vaxtaákvörðunarinnar kom meðal annars fram að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri telur möguleg áhrif aðgerða til handa Grindvíkingum á íbúðamarkað og verðbólguhorfur ekki líklegt til að kollvarpa sýn bankans á efnahagsþróunina. Hann tók einnig fram að miklu skipti hvernig fjármögnun bæði á stuðningi við Grindvíkinga og aðkomu stjórnvalda kjarasamningum yrði framkvæmd.

Aðspurðir sögðu stjórnendur Seðlabankans að breytt mælingaraðferð á reiknaðri húsaleigu í vísitölu neysluverðs (VNV) gæti orðið til þess að draga úr skammtímasveiflum í verðbólgumælingum og að líklega yrði til bóta að með henni hverfa bein áhrif af vaxtaþróun úr mælingum á VNV.

Í því sambandi má benda á að í Peningamálum er vikið að þessum áhrifum:

„Fyrirhuguð breyting Hagstofunnar á mælingu á húsnæðislið vísitölu neysluverðs gæti valdið því að verðbólga hjaðni hraðar en gert er ráð fyrir þegar líða tekur á þetta ár.“

Þá sögðu stjórnendur bankans aðspurðir að mótbyr í ferðaþjónustu gæti hreyft nálina hvað varðar horfur um útflutningsvöxt, vinnumarkað og fasteignamarkað. Í spá bankans er gert ráð fyrir að um 2,3 milljónir ferðamanna komi til landsins í ár, heldur færri en í okkar nýjustu þjóðhagsspá.

Hvenær lækka vextirnir?

Ekki er hægt að slá því föstu að vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé lokið fyrir fullt og allt. Horfur hafa þó breyst nokkuð undanfarnar vikur og mánuði. Verðbólga hefur hjaðnað talsvert, verðbólguvæntingar lækkað á suma mælikvarða, skýrari merki eru um samdrátt í innlendri eftirspurn og enn eru líkur á kjarasamningi sem samræmst gæti allhraðri hjöðnun verðbólgu.

Líkt og kom fram í nýlega birtri þjóðhagsspá okkar teljum við þó mestar líkur á að vaxtahækkunarferlinu sé lokið og vaxtalækkun sé í kortunum fljótlega. Með hliðsjón af yfirlýsingu peningastefnunefndar í morgun, Peningamálum og orðum stjórnenda bankans á kynningarfundi í kjölfarið teljum við líklegast að stýrivextir verði óbreyttir fram á vor. Þó gæti hagfelld niðurstaða kjarasamninga og trúverðugar mótvægisaðgerðir á móti auknum fjárútlátum ríkissjóðs bæði þeirra vegna og Grindavíkur orðið til þessa að vaxtalækkunarferli hæfist á næsta vaxtaákvörðunarfundi, þann 20. mars næstkomandi. Það verður þó hægfara fyrst í stað og stýrivextir áfram háir á komandi fjórðungum. Við spáum því að stýrivextir verði komnir í 8,0% í árslok 2024, í 6% að tveimur árum liðnum og í 5% undir lok spátímans. Á sama tíma munu langtímavextir væntanlega lækka hægt og bítandi.

Ekki má þó mikið út af bregða svo enn frekari bið verði ekki á vaxtalækkun og ekki er hægt að útiloka frekari vaxtahækkun á næstu fjórðungum. Gangi svartsýna verðbólgusviðsmyndin í nýlegri þjóðhagsspá okkar til að mynda eftir gætu stýrivextir orðið ríflega 1 prósentu hærri að jafnaði á spátímanum. Að sama skapi myndu lægri vextir fylgja bjartsýnu sviðsmyndinni og gæti þeir orðið ríflega prósentu lægri að jafnaði á spátímanum en í grunnspánni.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband

Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband