Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Seðlabankinn herðir á hækkunartakti stýrivaxta

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 0,5 prósentu á síðasta vaxtaákvörðunarfundi ársins. Stærra hækkunarskref og harðari tónn endurspegla bæði bjartari efnahagshorfur og tvísýnari verðbólguhorfur í mati peningastefnunefndar. Bankinn spáir nú hraðari efnahagsbata en á móti meiri verðbólgu á komandi misserum en í síðustu spá sinni.


Seðlabankinn tilkynnti í morgun þá ákvörðun peningastefnunefndarinnar að stýrivextir bankans yrðu hækkaðir um 0,5 prósentur. Spá okkar, líkt og aðrar opinberar spár, gerði ráð fyrir 0,25 prósentu hækkun en þó töldum við alls ekki útilokað að stærra skref yrði stigið nú. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því 2,0%. Hafa vextirnir ekki verið hærri síðan í mars 2020. Þetta er fjórða vaxtahækkun Seðlabankans í ár og hafa vextir hækkað um 1,25 prósentur frá maíbyrjun. Þar áður höfðu þeir verið um og undir 1% frá því COVID-19 faraldurinn skall á af fullum þunga á fyrri helmingi síðasta árs.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar kemur fram að hagvaxtarhorfur eru svipaðar og áður fyrir yfirstandandi ár en að horfur fyrir vöxt á næsta ári hafi batnað talsvert þótt óvissa sé enn mikil, ekki síst vegna framvindu farsóttarinnar. Þá hafi framlag innlends kostnaðarþrýstings, hækkunar húsnæðisverðs og launa skýrt stóran hluta verðbólgunnar undanfarið þótt áhrif innfluttra hækkana hefi einnig aukist. Undirliggjandi verðbólga er hins vegar minni og hefur hjaðnað undanfarið

Verðbólguhorfur hafa versnað frá ágústspá vegna ofangreindra þátta og hraðari bata í hagkerfinu. Horfur á að verðbólga haldi áfram að aukast næstu mánuði en hjaðni síðan enda haldist kjölfesta verðbólguvæntinga við markmið.

Heldur er hert á framsýnni leiðsögn nefndarinnar en hún hljómar svo:

Peningastefnunefnd ítrekar að hún mun beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að tryggja að verðbólga hjaðni aftur í markmið innan ásættanlegs tíma.

Þarna hefur verið bætt við „..ítrekar að hún..“ frá fyrri yfirlýsingum og því verið að hnykkja á þessu takmarki nefndarmanna. Kom fram á kynningarfundi Seðlabankans að þessi breyting væri engin tilviljun heldur endurspeglaði hún einbeittan vilja nefndarmanna til þess að beita vaxtatækinu eins og auðvitað birtist í hækkuninni nú.

Bjartari hagvaxtarhorfur á næsta ári

Ný hagspá var birt í Peningamálum samhliða stýrivaxtaákvörðuninni. Hagvaxtarhorfur fyrir 2021 eru svipaðar og í fyrri spá (3,9%) þar sem bjartari horfur síðari hluta ársins vega upp lakari bata á fyrra hluta ársins en bankinn gerði áður ráð fyrir. Hagvaxtarspá næsta árs hækkaði hins vegar úr 3,9% í 5,1% vegna bjartari horfa í útflutningi. Bankinn telur að útlit sé fyrir að bati í ferðaþjónustu verði hraðari og vöruútflutningur verði meiri vegna aukins loðnukvóta og áætlar að loðnukvótinn auki hagvöxtinn á næsta ári um 0,7%. Óvissa um framgang farsóttarinnar er þó enn mikil og mun þróun efnahagsmála markast af framgangi hennar. Hagvaxtaspá Seðlabankans er nokkuð svipuð og nýjasta sviðsmynd Greiningar sem birt var eftir fréttir um betri loðnuvertíð á næsta ári. Helsti munurinn er að við gerum ráð fyrir örlítið minni vexti á næsta ári sem aftur á móti endurspeglast í öllu meiri vexti á árinu 2023.

Þá spáir bankinn minna atvinnuleysi en í síðustu spá og hljóðar spáin upp á 7,7% skráð atvinnuleysi á þessu ári í stað 8,1% frá fyrri spá. Skráð atvinnuleysi í október mældist 4,9% og ef það helst á þeim stað út árið mun atvinnuleysi vera 7,7% líkt og Seðlabankinn spáir. Bankinn spáir 5,2% skráðu atvinnuleysi á næsta ári sem er athyglisvert í ljósi þess hvar atvinnuleysi stendur nú. Þrátt fyrir það telur Seðlabankinn að slakinn í þjóðarbúinu sé að hverfa eða jafnvel horfinn og að útlit sé fyrir að atvinnuleysi haldi áfram að minnka til lengri tíma og verði í kringum 4% í lok spátímans sem er nálægt jafnvægi á vinnumarkaði.

Verðbólguhorfur hafa versnað

Verðbólguspá bankans hefur hækkað frá spánni í haust og hafa verðbólguhorfur því versnað nokkuð að þeirra mati. Útlit er fyrir að verðbólga haldist yfir 4% lengur en áður var talið og verði ekki komin niður fyrir 3% fyrr en á síðasta fjórðungi næsta árs. Verri verðbólguhorfur stafa af meiri innfluttri verðbólgu og lakari upphafsstöðu en gert var ráð fyrir í ágúst. Bankinn spáir 4,7% verðbólgu á síðasta fjórðungi þessa árs og þar með að verðbólga mælist 4,4% yfir árið. Svo spáir bankinn 3,5% verðbólgu að jafnaði á næsta ári og 2,9% að jafnaði bæði árin 2023 og 2024. Athyglisvert er að samkvæmt þessari spá virðist verðbólgan ekki vera við 2,5% markmið Seðlabankans á spátímabilinu en oftast hefur verðbólga endað við markmið bankans í langtímaspám hans.

Okkur þykir spáfólk Seðlabankans heldur bjartsýnt varðandi verðbólgu á næsta ári. V, við spáum ívið meiri verðbólgu og þá sérstaklega á næsta ári þegar hún verður að jafnaði 4,2% samkvæmt okkar spá. Við erum þó sammála þeirri spá bankans að verðbólga verði nærri markmiði þegar komið er fram á árið 2023.

Fram kom í svörum forsvarsfólks Seðlabankans við spurningum okkar að þau hafa talsverðar áhyggjur af launaþróun komandi missera og áhrifum hennar á verðbólguþrýsting. Orðuðu þau það svo að hagkerfið væri að fá á sig launahækkanir sem ekki væru studdar með aukinni framleiðslu og vísuðu þar m.a. til hagvaxtaraukans sem kemur væntanlega til framkvæmda á 2. fjórðungi næsta árs. Hagvaxtaraukanum var ætlað að veita launafólki hlutdeild í vaxandi landsframleiðslu en vitaskuld sáu samningsaðilar ekki fyrir þróun síðustu missera þar sem djúpum samdrætti fylgir hagvöxtur sem fyrst og fremst endurspeglar bata fremur en viðbótarvöxt.

Þá minntu þau á að hlutverk Seðlabankans væri að viðhalda verðgildi peninga á landinu og þar með kaupmætti launa. Óskandi væri að aðilar vinnumarkaðsins treystu þeim í því. Ef ytri aðstæður versna kæmi það fram í launum þjóðarinnar. Hvað varðar samtal væri Seðlabankinn sjálfstæður. Allar upphrópanir um að bregðast ætti við aðgerðum bankans með hækkun launa væru eins og verstu öfugmælavísur að mati bankastjórans Ásgeirs Jónssonar.

Þá ræddu stjórnendur bankans þróun á fasteignamarkaði og benti á að hún væri að hluta merki um það hversu vel tókst til við að halda uppi tekjum og lífskjörum almennings í landinu í gegn um Kórónukreppuna. Aukið innflutt vinnuafl og fleiri þættir á eftirspurnarhlið endurspegluðu efnahagsbatann en veldu um leið þrýstingi á íbúðaverð. Þau gerðu ráð fyrir að vextirnir bíti hraðar og til viðbótar hefðu þjóðhagsvarúðartæki bankans væntanlega áhrif á húsnæðisverð og eftirspurn en hversu mikið vitum við ekki. Þetta væri allt að spila saman og það skipti máli.  

Áframhaldandi hækkunarferli í kortunum

Hækkunarferli stýrivaxta Seðlabankans endurspeglar bæði efnahagsbatann og viðbrögð við versnandi verðbólguhorfum að mati okkar. Líklegt er að ferlinu sé hvergi nærri lokið og gerum við sem fyrr ráð fyrir því að vextir verði hækkaðir á hverjum vaxtaákvörðunarfundi á fyrri helmingi næsta árs og í kjölfarið fylgi heldur hægari vaxtahækkun þar til vextirnir ná 3,5% um mitt ár 2023.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband

Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband