Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Seðlabankinn hækkar vexti um 0,5 prósentur

Seðlabankinn hækkaði vexti í fjórtánda sinn í röð í morgun. Yfirlýsing peningastefnunefndar Seðlabankans er nokkuð breytt frá síðustu ákvörðun og nokkuð hlutlaus. Trúlega er bankinn á lokametrunum í stýrivaxtahækkunarferlinu og gæti þessi hækkun jafnvel verið sú síðasta.


Seðlabankinn tilkynnti í morgun um þá ákvörðun peningastefnunefndar bankans að hækka stýrivexti um 0,50 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því 9,25% og hafa þar með hækkað um 8,5 prósentur síðustu rúm tvö ár. Svo háir hafa vextir ekki verið frá því í lok árs 2009. Spár voru á bilinu 0,25 – 0,50 prósenta hækkun og við í Greiningu Íslandsbanka spáðum 0,25 prósenta hækkun.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar í morgun kemur fram að framlag húsnæðisliðarins til verðbólgu hafi minnkað, dregið hafi úr alþjóðlegum verðhækkunum og gengi krónunnar hafi hækkað. Innlendar verðhækkanir hafi hins vegar reynst þrálátar og séu enn á breiðum grunni. Töluverð spenna sé áfram á vinnumarkaði og í þjóðarbúinu í heild þótt vísbendingar séu um að tekið sé að hægja á vexti efnahagsumsvifa. Verðbólguhorfur til skemmri tíma hafi batnað en verðbólguvæntingar til lengri tíma séu vel yfir markmiði. Enn sé hætta á að verðbólga reynist þrálát.

Spá minni hagvexti á næstunni

Uppfærð hagspá var birt í Peningamálum samhliða stýrivaxtaákvörðuninni. Seðlabankinn spáir minni hagvexti í ár og gerir ráð fyrir að hann verði 3,5% á yfirstandandi ári í stað 4,8% sem bankinn spáði í maí. Helsta ástæðan er hraðari viðsnúningur í innlendri eftirspurn en áður var gert ráð fyrir.  Hagvaxtarhorfur næstu tvö árin breytast hins vegar ekkert frá síðustu spá.

Eins og sést á myndinni hér að ofan var spá Seðlabankans í maí talsvert bjartsýnni fyrir þetta ár en aðrar spár. Uppfærða spáin þeirra rímar betur við spár annarra greiningaraðila. Við spáum 3,1% hagvexti í ár en spá okkar er frá því í maí.

Spá Seðlabankans fyrir atvinnuleysi lækkar fyrir þetta ár. Enn eru skýrar vísbendingar um töluverða spennu á vinnumarkaði. Bankinn spáir 3,3% atvinnuleysi í ár í stað 3,7% í maíspánni og gerir bankinn svo ráð fyrir að atvinnuleysi þokist smám saman upp á við á næsta ári þegar spennan á vinnumarkaði minnkar.

Verðbólguhorfur til skemmri tíma hafa batnað en til lengri tíma hafa þær lítið breyst frá því í maí. Seðlabankinn uppfærði verðbólguspá sína úr 8,8% í 8,6% fyrir þetta ár og nefnir sterkara gengi krónunnar en áður var gert ráð fyrir og hægari umsvif í hagkerfinu sem helstu ástæður þess. Bankinn spáir því að verðbólga hjaðni hægt og fari ekki undir 4% fyrr en í lok næsta árs. Uppfærð verðbólguspá Seðlabankans er í takti við spá Greiningar frá því í ágúst, en við þó heldur bjartsýnni á verðbólguhorfur 2023.

Framsýna leiðsögnin talsvert breytt – síðasta vaxtahækkunin í bili?

Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er mikið breytt frá síðustu ákvörðun. Hún er nokkuð hlutlaus og hljóðar svona: „..Vísbendingar eru um að áhrif vaxtahækkana undanfarin misseri séu að koma skýrar fram og mun peningastefnan á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.“

Til samanburðar var framsýna leiðsögnin í maí svohljóðandi: „..Horfur eru því á að hækka þurfi vexti enn meira til að tryggja betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og koma verðbólgu í markmið.“

Nefndin er því talsvert hlutlausari en hún var í maí. Varðandi framhaldið sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundinum í morgun að þau þurfi að sjá hvað næstu mánuðir beri í skauti sér. Það er því hugsanlegt að vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé lokið að sinni en einnig má ekki útiloka 25 punkta hækkun annað hvort í október eða nóvember næstkomandi.

Næsta vaxtaákvörðun er þann 4. október og fyrir þá ákvörðun verður komin aðeins skýrari mynd á stöðuna í hagkerfinu. Til að mynda verða þjóðhagsreikningar fyrir annan ársfjórðung birtir núna í lok ágúst auk þess sem verðbólgutölur fyrir ágúst og september munu liggja fyrir í næstu ákvörðun nefndarinnar í október.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband