Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Seðlabankinn hækkar vexti um 0,75 prósentur eins og vænst var

Hækkun stýrivaxta um 0,75 prósentur var í samræmi við væntingar og skiljanleg í ljósi versnandi verðbólguhorfa og áframhaldandi efnahagsbata. Seðlabankinn spáir myndarlegum hagvexti og hjaðnandi atvinnuleysi í ár en verðbólguspá bankans er hins vegar talsvert svartsýnni en fyrri spá. Útlit er fyrir áframhaldandi hækkun vaxta á komandi fjórðungum.


Seðlabankinn tilkynnti í morgun að peningastefnunefnd bankans hefði ákveðið að hækka stýrivexti um 0,75 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því 2,75%. Hafa vextirnir ekki verið hærri síðan í byrjun mars 2020. Hækkunin var í takti við birtar spár, þar á meðal okkar. Stýrivextir hafa nú samtals hækkað um 2,0 prósentur í fimm skrefum frá því vaxtahækkunarferli bankans hófst í maí síðastliðnum. Þar áður höfðu þeir verið um og undir 1% frá því COVID-19 faraldurinn skall á af fullum þunga á fyrri helmingi ársins 2020.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar kemur fram að hagvöxtur sé myndarlegur og framleiðsluslaki í hagkerfinu sem myndaðist í kjölfar faraldursins sé líklega horfinn þótt óvissa sé enn mikil. Þá hafi verðbólguhorfur versnað og verðbólguvæntingar hækkað á suma mælikvarða undanfarið. Framsýn leiðsögn nefndarinnar er óbreytt frá síðasta fundi og hljóðar svo:

Peningastefnunefnd ítrekar að hún mun beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að tryggja að verðbólga hjaðni aftur í markmið innan ásættanlegs tíma.

Tónninn hjá peningastefnunefnd er því allharður líkt og verið hefur undanfarið.

Allgóðar efnahagshorfur í nýrri spá

Ný hagspá var birt í Peningamálum samhliða stýrivaxtaákvörðuninni. Seðlabankinn telur að hagvöxtur verði lítið eitt minni í ár en spáð var í nóvember, einna helst vegna neikvæðra áhrifa fjölgunar smita á fyrsta ársfjórðungi. Bankinn spáði um 1,5 milljónum ferðamanna á þessu ári í nóvemberspánni en vegna verri horfa á fyrsta ársfjórðungi telja þau í þessari spá að ferðamenn verði heldur færri. Hagvaxtarspá bankans fer því úr 5,1% í 4,8% í ár. Það er svipaður vöxtur og í nýlegri þjóðhagsspá okkar þar sem við spáum 4,7% vexti á árinu. Seðlabankinn dregur einnig úr vextinum á næsta ári úr 2,6% í 2,1%. Við spáum hins vegar 3,2% vexti árið 2023.

Seðlabankinn spáir því einnig að atvinnuleysi verði að meðaltali 4,9% á yfirstandandi ári samanborið við 5,1% í nóvemberspánni. Í Peningamálum kemur fram að ráðningaráform fyrirtækja séu mikil og störf virðast í meira mæli mönnuð með aðfluttu vinnuafli og aukinni atvinnuþátttöku. Við erum sömu skoðunar en teljum þó að  atvinnuleysi muni hjaðna hraðar en þau í Seðlabankanum. Í þjóðhagsspá okkar gerum við ráð fyrir að atvinnuleysi verði 4,5% að meðaltali í ár. Í desember síðastliðnum mældist skráð atvinnuleysi 4,9% og útlit fyrir að það muni hjaðna nokkuð á árinu þegar okkar stærsta útflutningsgrein, ferðaþjónustan, nær vopnum sínum á ný.

Samkvæmt nýlegri könnun Gallup fyrir Seðlabankann og SA telja nær 40% stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins vera skort á starfsfólki. Við erum því þeirrar skoðunar að atvinnuleysi muni hjaðna hraðar en spá Seðlabankans gerir ráð fyrir og samkvæmt spá okkar mun atvinnuleysi verða á svipuðum stað þegar lengra líður á árið og fyrir faraldur.

Svartsýn verðbólguspá og óvissan upp á við

Seðlabankinn spáir nú talsvert meiri verðbólgu á næstu misserum en í spánni í nóvember. Ástæður fyrir verri verðbólguhorfum eru að sögn bankans kröftugri efnahagsbati innanlands, meiri verðhækkanir á íbúðamarkaði auk þrálátari verðbólgu erlendis en áður var gert ráð fyrir. Bankinn spáir því að verðbólga verði 5,8% á fyrsta fjórðungi þessa árs, 5,6% á öðrum ársfjórðungi og verði ekki komin niður fyrir 4% fyrr en í byrjun næsta árs. Athygli vekur að verðbólga kemst ekki í markmið á spátímanum og stendur í 2,7% í lok spátímans í ársbyrjun 2025. Á kynningarfundi Seðlabankans eftir vaxtaákvörðunina kom fram að óvissan væri vissulega mikil og að óvissan væri frekar á þann veg að verðbólga yrði enn meiri á spátímanum. Einnig kom þar fram að þrátt fyrir dvínandi áhrif verðhækkana á fasteignamarkaði og hækkunar á erlendum vörum og aðföngum væri vaxandi launakostnaður umtalsverður verðbólguvaldur allan spátímann og ætti stóran þátt í því hversu hægt verðbólga hjaðnaði að markmiði þegar lengra liði á hann.

Aðhaldið aukið eftir vel heppnuð faraldursviðbrögð

Á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina sögðu stjórnendur Seðlabankans aðspurðir að þrátt fyrir vaxtahækkun undanfarna fjórðunga væri peningastefnan enn að veita hvata með lágu raunvaxtastigi. Peningastefnunefndin vildi ekki auka aðhaldið of hratt því til staðar væru önnur tæki sem beðið er eftir að virki að fullu. Er þar átt við þjóðhagsvarúðartæki á borð við lægra hámarks veðhlutfall á ný íbúðalán og hámark á greiðslubyrði slíkra lána. Þá horfði nefndin einnig til þess að stuðla að því að fjárfesting fyrirtækja kæmist á aukinn skrið.

Þá benti Seðlabankafólk á að peningastefnan hefði styrkst á þessum tveimur árum. Hér á landi hefði til að mynda í raun byggst upp nýtt húsnæðislánakerfi þar sem áhrif vaxtabreytinga kæmu talsvert sterkar fram en áður. Harðari aðgerðir fjármálastöðugleikanefndar á húsnæðismarkaði bættust svo við öflugari miðlun peningastefnunnar að mati bankans.

Aðspurð um áhrif vaxtahækkunar á skuldsett heimili svöruðu stjórnendur bankans því til að peningastefnan gæti ekki einbeitt sér að ákveðnum hópum. Heimilin væru að bregðast við sjálf, til að mynda með því að kjósa fremur fasta vexti en fljótandi. Breytingar á íbúðalánamarkaði hefðu aukið möguleika heimilanna á að velja lánaform og bregðast við breytingum þótt vitaskuld hefðu ekki allir færi á að gera þessar breytingar.

Þá var bent á að þegar útflutningsgeirinn hvarf á einni nóttu var tilgangur með lækkun stýrivaxta meðal annars að hvetja áfram einkaneyslu. Lækkun vaxta hefði skilað sér til heimilanna auk þess sem gripið var til þess ráðs að verja gengi krónunnar til að viðhalda kaupmætti í landinu. Fyrir vikið hefði kaupmáttur almennings aukist í gegnum faraldurinn. Nú væri komið að því að draga úr þessum hvata. Eftirspurnarhvetjandi aðgerðir frá stjórnvöldum væru hins vegar til þess fallnar að vega á móti auknu aðhaldi peningamála, kæmu slíkar aðgerðir til framkvæmda. Kölluðu stjórnendur bankans eftir því að meiri samstaða yrði um að hemja eftirspurn og draga úr verðbólguþrýstingi af þeim sökum.

Loks hafnaði Seðlabankafólk fullyrðingum um að gerð hefðu verið mistök með mikilli lækkun vaxta í upphafi faraldursins. Bentu þau á að tekist hefði að lágmarka neikvæð áhrif hans á heimili og fyrirtæki í landinu og staða heimila, fyrirtækja, fjármálakerfisins og hins opinbera væri almennt sterk þrátt fyrir þungt högg á stærstu útflutningsgreinina og margháttaða truflun á annarri efnahagsstarfsemi. Útlit væri fyrir að áhrif faraldursins yrðu mun skammvinnari en óttast var og langvarandi skaði yrði lítill.

Við getum tekið undir þetta mat Seðlabankafólks enda kemur fram í þjóðhagsspá okkar að hagstjórnarviðbrögð stjórnvalda, og þar með talið Seðlabankans, hafi átt stóran þátt í að milda högg faraldursins á íslenska hagkerfið.

Frekari vaxtahækkun í kortunum

Sem fyrr gerum við ráð fyrir að vaxtahækkunarferli Seðlabankans muni halda áfram á komandi misserum eftir því sem efnahagurinn braggast og áhrif faraldursins dvína. Hjaðnandi verðbólga ætti hins vegar að draga úr þörfinni fyrir hraða vaxtahækkun þegar frá líður.

Við teljum að vextir verði hækkaðir um a.m.k. 0,25 prósentur á hverjum fjórðungi það sem eftir lifir árs. Samkvæmt því verða stýrivextirnir 3,5% í árslok. Verði verðbólgan enn þrálátari en við væntum gæti hækkunin orðið hraðari. Eftir það gerum við ráð fyrir hægari hækkun vaxta og sem fyrr áætlum við að vaxtahækkunarferlinu ljúki í 4,0% þegar frá líður, að því gefnu að glíman við verðbólgudrauginn falli á endanum með Seðlabankanum og að verðbólga verði komin í ásættanlegan takt þegar fram í sækir.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband

Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband