Samstaða skilar árangri
Með sameinuðu átaki Krabbameinsfélagsins, Íslandsbanka og viðskiptavina hans verður mun auðveldara fyrir konur að nýta boð í brjóstaskimun.
Kannanir Krabbameinsfélagsins hafa leitt í ljós að aðalástæðan fyrir lítilli þátttöku kvenna í brjóstaskimunum er að það ferst fyrir hjá þeim að panta tíma. Tímapantanir hafa hingað til verið með gamaldags fyrirkomulagi, símtali eða tölvupósti sem getur tekið langan tíma. Með nýrri stafrænni bókunarlausn er gert ráð fyrir að gjörbreyting verði á.
Í vikunni afhenti Krabbameinsfélagið Landspítala styrk til kaupa á nýrri stafrænni bókunarlausn fyrir brjóstaskimanir. Styrkurinn er afrakstur samstarfs félagsins og Íslandsbanka og 42 fyrirtækja sem eru í viðskiptum við bankann. Afhendingin markar stórt skref í áralangri baráttu Krabbameinsfélagsins fyrir að bæta þátttöku kvenna í brjóstaskimun.
Krabbameinsfélagið hefur um árabil talað fyrir því að bókunarkerfið verði nútímavætt og fært rök fyrir að það sé nauðsynleg forsenda þess þátttaka kvenna aukist. Við vitum að það er mjög mikið í húfi, fyrir okkur, konurnar í landinu og okkar fjölskyldur. Við hjá Krabbameinsfélaginu erum alveg ótrúlega ánægð með að sjá hvað viðtökur viðskiptavina Íslandsbanka voru góðar og auðvitað var stuðningur bankans sem lagði krónu á móti krónu viðskiptavinanna ómetanlegur. Svo má ekki gleyma þátttöku starfsfólks Íslandsbanka sem lagðist á árarnar við söfnunina. Það er gott dagsverk að geta átt þátt í að bjarga mannslífum til framtíðar, segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.
Við erum afar stolt að því taka þátt í þessu mikilvæga verkefni og vera þannig hreyfiafl til góðra verka. Við erum einnig afar þakklát viðskiptavinum okkar fyrir þeirra framlag - saman náðum við markmiðum okkar. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið að konur hafi greiðan og góðan aðgang að brjóstaskimun og með því að nútímavæða bókunarkerfið verður það að veruleika.
Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka.