Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Samstaða í peningastefnunefnd um vaxtahækkun í febrúar

Meðlimir peningastefnunefndar Seðlabankans voru sammála um að hækka stýrivexti um 0,75 prósentur í febrúarbyrjun. Útlit er fyrir frekari hækkun vaxta á komandi fjórðungum.


Allir meðlimir peningastefnunefndar Seðlabankans studdu tillögu seðlabankastjóra um 0,75 prósentu hækkun stýrivaxta þann 9. febrúar sl. samkvæmt nýbirtri fundargerð af fundi nefndarinnar í aðdraganda vaxtaákvörðunarinnar. Er það annað skiptið í röð þar sem allir nefndarmenn eru sammála um vaxtaákvörðun. Framan af vaxtahækkunarferlinu sem byrjaði í maí í fyrra voru skoðanir skiptar innan nefndarinnar þar sem minnihluti nefndarmanna var á því að hækka vexti hraðar en ákveðið var.

Við töldum mögulegt að einhverjir nefndarmeðlimir hefðu kosið að taka smærra vaxtahækkunarskref í febrúar, t.d. með hliðsjón af mögulegum áhrifum á skuldsett heimili og viðkvæma fyrirtækjageira. Ljóst er að áhyggjur af versnandi verðbólguhorfum og hættu á minni trúverðugleika peningastefnunnar vógu þyngst í ákvarðanatöku nefndarinnar.

Vaxtahækkun á bilinu 0,50 – 1,00 prósentur var rædd á fundum nefndarinnar í aðdraganda vaxtaákvörðunarinnar 9. febrúar.

Helstu rök með smærra vaxtahækkunarskrefi voru að mati nefndarmanna:

  • Aukningar verðbólgu var þegar vænst við síðustu vaxtahækkun í nóvember sl. þótt verðbólga hefði aukist heldur meira en gert var ráð fyrir þá.
  • Hluti verðhækkana er tengdur afleiðingum faraldursins, utan áhrifasviðs peningastefnunnar, og áhrif slíkra hækkana líklega að fjara út á næstu misserum.
  • Stærri hluti heimila er með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum og áhrif vaxtahækkana munu því koma hraðar fram en áður.
  • Áhrifin af beitingu þjóðhagsvarúðartækja á síðasta ári eiga enn eftir að koma fram að fullu.

Helstu rök nefndarmanna með stærra hækkunarskrefi:

  • Verðbólguhorfur hafa versnað töluvert og útlit er fyrir að verðbólga myndi hjaðna hægar í markmið en áður var talið.
  • Langtímaverðbólguvæntingar hafa hækkað frá nóvemberfundi nefndarinnar
  • Áhyggjur af mögulegum annarrar umferðar áhrifum af verðhækkun innlendrar vöru og launahækkunum sem gætu birst í meiri og almennari verðhækkun á vörum og þjónustu
  • Verðbólga er orðin nokkuð almenn þar sem undirliggjandi verðbólga hefði einnig aukist og verið þrálát
  • Eðlilegt er að nú þegar efnahagsbati er hafinn, framleiðsluslaki líklega horfinn og útlit fyrir að atvinnuleysi haldi áfram að minnka verði stigið fastar til jarðar til að bregðast við þrálátri aukningu verðbólgu, versnandi verðbólguhorfum og hækkun verðbólguvæntinga.
  • Raunvextir hafa lækkað töluvert milli funda nefndarinnar og nauðsynlegt er að hækka vexti nokkuð til að auka aðhaldsstig peningastefnunnar.

Við nefndum í viðbrögðum okkar  við vaxtaákvörðuninni að líklega yrði framhald á vaxtahækkunarferli Seðlabankans á komandi misserum og að vextir yrðu líkast til hækkaðir um a.m.k. 0,25 prósentur á hverjum fjórðungi það sem eftir lifir árs. Fundargerðin breytir ekki þeirri skoðun okkar.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband