Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Samgöngur lífæð samfélagsins í Vestmannaeyjum

Meginþorri ferðalaga til Vestmannaeyja eiga sér stað með Herjólfi. Siglingar frá Landeyjahöfn til Vestmannaeyja hófust árið 2010 og varð mikil fjölgun farþega í kjölfarið. Strax árið 2010 jókst fjöldi farþega um rúmlega helming, eða 66% og varð áfram nokkuð hröð aukning farþega árin þar á eftir.


Meginþorri ferðalaga til Vestmannaeyja eiga sér stað með Herjólfi. Siglingar frá Landeyjahöfn til Vestmannaeyja hófust árið 2010 og varð mikil fjölgun farþega í kjölfarið. Strax árið 2010 jókst fjöldi farþega um rúmlega helming, eða 66% og varð áfram nokkuð hröð aukning farþega árin þar á eftir. Á síðastliðnu ári ferðuðust til að mynda 339 þúsund farþegar með Herjólfi eða næstum þrefalt fleiri farþegar en árið 2009. Árið 2017 er metár í sögu farþegaflutninga með Herjólfi en þá flutti Herjólfur um 344 þúsund farþega.

Landeyjahöfn verið til vandræða en nú horfir til betri vega

Þrátt fyrir að siglingar frá Landeyjahöfn hafi reynst samfélaginu í Vestmannaeyjum mikil búbót hafa siglingar þaðan ekki gengið vandræðalaust fyrir sig. Höfnin er grunn og hefur reynst nauðsynlegt að stunda reglubundna dýpkun svo að unnt sé að sigla Herjólfi um höfnina. Þær aðgerðir hafa oft á tíðum ekki dugað til og við slíkar aðstæður hefur Herjólfur þurft að sigla frá Þorlákshöfn. Nýr Herjólfur, sem nú hefur hafið siglingar, ristir grynnra en sá gamli og hentar því aðstæðum við Landeyjarhöfn betur. Þessari breytingu ætti að fylgja tíðari siglingar frá Landeyjarhöfn sem mun án efa reynast öllu samfélaginu í Vestmannaeyjum til góðs. Metárið 2017 var sérstaklega gott og hefur Herjólfur aldrei siglt eins margar ferðir til Vestmannaeyja líkt og það ár. Unnt var að sigla frá Landeyjahöfn í 81% tilfella, sem er næst hæsta hlutfallið frá því að siglingar til Landeyjahafnar hófust, sem er helsta ástæða þess að árið 2017 tókst eins vel til og raun ber vitni. Árið 2019 fór illa af stað og hófust siglingar úr Landeyjarhöfn ekki fyrr en í byrjun maí vegna vandamála við að koma dýpi við innsiglingu innan tilskilins lágmarks. Hins vegar gengu siglingar vel síðastliðinn júní og voru farþegar rúmlega 62 þúsund sem er met fyrir júnímánuð og rúmlega 5 þúsund farþegum yfir fyrra meti sem átti sér stað í júní árið 2017.

Hægt að laða fleiri ferðamenn til Eyja

Á tímabilinu 2010-2018 fjölgaði öllum farþegum með Herjólfi, óháð þjóðerni, um 127 þúsund eða 60%. Á sama tíma fjölgaði erlendum ferðamönnum hingað til lands um tæplega 1,9 milljón sem nemur ríflega fimmföldun. Ekki liggur fyrir þjóðernaskipting farþega með Herjólfi og því ekki hægt að slá því föstu hvort erlendir ferðamenn séu að drífa áfram fjölgun farþega með Herjólfi yfir áðurgreint tímabil. Ljóst er þó að fjölgun farþega með Herjólfi er mun hægari en fjölgun ferðamanna og má draga þá ályktun að Vestmannaeyjar hafi farið varhluta af uppgangi ferðaþjónustunnar að talsverðu leyti. Samgöngur vega þungt í þessum efnum og hafa íbúar Vestmannaeyja talað um að ferðaþjónusta sveitarfélagsins detti nánast alfarið niður þegar ekki er siglt frá Landeyjarhöfn. Þá gefur augaleið að flestir ferðamenn munu ekki hafa svigrúm til að heimsækja hvern krók og kima landsins á meðan dvöl þeirra stendur yfir. Ferðamaðurinn ferðast oftast um suðvesturhorn landsins en síður til annarra landsvæða. Þannig er innbyrðis samkeppni ferðaþjónustuaðila á Íslandi hörð og þarf að gefa ferðamanninum sterkan hvata ef takast á að laða hann frá suðvesturhorni landsins í ríkari mæli. Þarna felast mikil tækifæri fyrir Vestmannaeyjar litið fram á við og eru umbætur í samgöngum líklega sá áhrifaþáttur sem þyngst vegur í þessum efnum.

Mikil árstíðasveifla í komum farþega

Rúmlega helmingur allra farþega Herjólfs á ársgrundvelli ferðast til Vestmannaeyja á tímabilinu júní-ágúst enda skilyrði til siglinga betri og mikið um eftirsóknarverða viðburði á áðurgreindu tímabili. Þegar horft er til síðastliðinna fimm ára ferðast flestir með Herjólfi í júlí og ágúst. Virðast því vinsælir viðburðir sem haldnir eru í Vestmannaeyjum á sumrin trekkja vel að. Þá er háönn ferðaþjónustunnar einnig á áðurgreindu tímabili og má því gera ráð fyrir að ferðamannastraumur til Eyja sé einnig í hæstu hæðum. Nýjum Herjólfi mun eflaust fylgja aukin tíðni ferða utan háannatíma og þannig stuðla að því að draga úr árstíðasveiflu í komum farþega til Vestmannaeyja.

Skemmtiferðaskip mikilvæg tekjuuppspretta

Mikil fjölgun hefur orðið á komum skemmtiferðaskipa til Vestmannaeyja. Ferðamenn sem hingað koma með skemmtiferðaskipum gista og njóta veitinga og annarrar þjónustu að mestu leyti í skipinu og skilja því eftir sig minni verðmæti alla jafna en ferðamenn sem hingað koma með öðrum ferðamáta. Engu að síður leita farþegar skemmtiferðaskipa talsvert í söfn og aðra afþreyingu og þá eru komur skipanna einnig talsverð búbót fyrir hafnarsjóð sveitarfélagsins.

Útlit er fyrir að tæplega 90 skip muni sigla til hafnar við Vestmannaeyjar á árinu sem er hátt í fimmföldun frá árinu 2010 þegar skipin voru 19 talsins. Þessu samhliða fylgja auknar beinar tekjur í hafnarsjóð en áætlað er að tekjur hafnarsjóðs muni nema tæpum 60 milljónum króna á þessu ári. Þessar tekjur geta nýst sveitarfélaginu við að veita íbúum þess betri þjónustu.

Margföld kortavelta á stórviðburðum í Eyjum

Kortavelta* á sumrin er almennt hærri en á öðrum tímum ársins og sér í lagi yfir fjölmenna og vinsæla viðburði sem eiga sér stað í Vestmannaeyjum. Sjómannadagurinn og TM-mótið (Pæjumótið) eru tveir viðburðir sem báðir eiga sér stað á fyrri hluta júnímánaðar. Neysla á þessum viðburðum virðist hafa verið með mesta móti á síðastliðnu ári en þá var dagleg kortavelta rúmlega tvisvar sinnum meiri en hún reyndist að meðaltali allt árið. Í lok júní hefst Orkumótið (Pollamótið) og þá er Goslokahátíð og golfmót (Volcano Open) í byrjun júlí og tvöfaldast kortavelta einnig yfir þessa viðburði. Að áðurgreindum hátíðum loknum dettur kortavelta svo niður í meðaltalið. Veltan rís svo aftur í aðdraganda og framyfir þjóðhjátíð og nær hæstu hæðum yfir hátíðina. Eftir þjóðhátíð dettur velta í Vestmannaeyjum hins vegar mikið niður og raunar niður fyrir meðalkortaveltu á ársgrundvelli.

Hátt í fimmföld kortavelta á þjóðhátíð

Kortavelta í Vestmannaeyjum margfaldast yfir þjóðhátíð og nær neyslugleðin hámarki á Eyjunni á meðan hátíðin stendur yfir á hverju ári. Kortaveltutölur frá árinu 2014 benda til þess að neyslugleðin á þjóðhátíð hafi verið sérlega mikil árið 2017, en yfir hátíðina tæplega fimmfaldaðist dagleg kortavelta í Vestmannaeyjum. Aftur á móti þá virðist neyslugleðin árið 2015 hafa verið verið af skornari skammti og hefur neysluaukning á þjóðhátíð aldrei verið eins lítil frá árinu 2014. Veðurfar spilar stórt hlutverk í neyslugleði þjóðhátíðargesta enda var veðrið með besta móti árið 2017 en heldur síðra árið 2015.

*Horft er til kortaveltu í Vestmannaeyjum hjá fyrirtækjum í veitingageiranum, tjaldgistingu og annarri gistiþjónustu, afþreyingu, bílaleigum og annarri þjónustu tengdri farþegaflutningum og í áfengissölu. Kortavelta er ein af mörgum greiðsluleiðum og mælikvarðinn því einungis notaður til nálgunar á neyslu.

Höfundur


Elvar Orri Hreinsson

Sérfræðingur í Greiningu


Hafa samband