Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Samfélagsvitund vaknar

Stór vinnustaður eins og Íslandsbanki getur komist hjá því að versla við fyrirtæki sem stunda ekki heilbrigða viðskiptahætti.


Það eru ekki mörg ár síðan ég heyrði fyrst af fyrirtækjum sem legðu áherslu á samfélagslega ábyrgð í rekstri sínum. Mörgum finnst ennþá óskýrt hvað felst í slíkri ábyrgð. Sjálfri fannst mér þetta hálf froðukennt og einskorðaði þetta helst við greiðslur til góðgerðafélaga, annað tal um samfélagið í rekstri væri innantómt tal. Það var því sérstaklega ánægjulegt þegar forstjóri Pepsi, Indra Nooyi, sótti Ísland heim og ræddi eingöngu um samfélagslega ábyrgð út frá rekstri félagsins. Því það er það sem þetta snýst í raun og veru um.

Ábyrgð stjórnenda snýst raunverulega um að reka fyrirtæki á heilbrigðan hátt og reka þau vel þannig að þau standi styrkum fótum um langa hríð. Gjaldþrot fyrirtækja hefur áhrif á marga þætti í samfélaginu og því er það ábyrgðarhlutur að vandað sé til verka og fyrirtæki séu byggð á traustum grunni.

En hvernig getur stór banki verið samfélagslega ábyrgur? Íslandsbanki, fyrirtæki með um 900 starfsmenn og um þriðjungsmarkaðshlutdeild í bankaþjónustu á Íslandi, getur haft mikil áhrif á nærumhverfið sitt. Til að svo sé þarf þó að verða hugarfarsbreyting sem hefur einmitt átt sér stað hratt á undanförnum árum hjá Íslandsbanka. Í okkar daglegu störfum finnum við fyrir sífellt auknum kröfum frá viðskiptavinum, fjárfestum og starfsfólki um að stunda viðskipti sem skaða ekki umhverfi, samfélag og fólk. Bankinn gefur árlega út efni sem uppfyllir kröfur Global Compact og GRI G4 þar sem farið yfir þau verkefni sem snúa að samfélagsábyrgð.

Stór vinnustaður eins og Íslandsbanki getur komist hjá því að versla við fyrirtæki sem stunda ekki heilbrigða viðskiptahætti, sleppt því að fjárfesta í verkefnum sem eru umhverfinu skaðleg eða ákveðið að vera pappírslaus og draga úr prentun. Þetta skiptir allt miklu máli og hefur áhrif á hugarfar og hegðun starfsfólksins og upplifun viðskiptavina okkar á þjónustunni. Áhrifin eru þó ekki einföld því þetta getur þýtt í sumum tilfellum að við veljum dýrari valkostinn en það er ákvörðun sem við trúum að borgi sig sé horft til langtíma hags bankans. Þetta er einfaldlega meðvituð ákvörðun um að vera ábyrgt fyrirtæki sem trúir því að sé litið til lengri tíma sé grundvallaratriði heilbrigðar uppbyggingar að haga rekstri með samfélagslega ábyrgum hætti.

Það er vissulega líka gefandi þegar fyrirtæki styðja við góðgerðarfélög og hafa sameiginlega hag af því. Við erum stolt af því að standa að baki Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka þar sem ekki er bara hlaupið vasklega heldur heldur líka hlaupið til góðs. Í ár söfnuðust tæplega 100 milljónir til góðra mála í gegnum Hlaupastyrk, stuðningsverkefni Reykjavíkurmaraþonsins. Í aðdraganda hlaups leggur Íslandsbanki mikla áherslu á að hjálpa þeim tæplega 170 góðgerðafélögum sem taka þátt þannig að þau nái sem mestum árangri í söfnun til góðra verka með áheitum á vaska hlaupara.

Hjálparhönd bankafólksins

Íslandsbanki leggur áherslu á að gefa starfsfólki færi á að rétta góðum málefnum Hjálparhönd í ár. Góðgerðarfélögum skortir oft fjármagn en við höfum fundið fyrir því að þau skorta ekki síður fleiri verkfúsar hendur.

Nú hafa yfir 250 starfsmenn Íslandsbanka varið einum vinnudegi eða fleirum í fjölbreyttum verkefnum fyrir góðgerðarfélög. Sum félög hafa þurft að aðstoð við markaðsmál, ársreikningagerð eða lögfræðiaðstoð en önnur hafa fengið aðstoð við að mála, tína rusl eða laga hjól. Þessar hjálpandi hendur hafa verið dýrmætar fyrir félögin og í staðinn veitt starfsfólki bankans innsýn inn í starfsemi þessara félaga, áskoranir þeirra og árangur. Hjálparhönd eflir samfélagsvitund og samheldni starfsfólks bankans.

Á Veraldarvakt

Við erum líka stolt af því að nýlega gerðust tveir starfsmenn bankans hluti af Veraldarvakt Rauða krossins. Innan tíðar verða þessir starfsmenn því reiðubúnir að veita aðstoð á sviði fjármála og upplýsingatækni á stríðshrjáðum svæðum. Hinir vösku Íslandsbankastarfsmenn munu um leið miðla upplýsingum til samstarfsfélaga heima fyrir og veita þeim innsýn inn í heim sem við fæst þekkjum vel á meðan þeir hafa jákvæð áhrif með aðstoð sinni. Á endanum er það jú það sem við stefnum öll að og þetta snýst um, að hafa jákvæð áhrif á samfélagið og veröldina alla – ef við getum.

Höfundur


Edda Hermannsdóttir

Forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs Íslandsbanka


Senda tölvupóst