Stigið á neyslubremsuna á nýju ári
Talsverðar sveiflur eru á kortaveltunni á milli einstakra mánaða og er því gagnlegt að taka saman ársfjórðungslega þróun. Á þann kvarða óx innlend kortavelta íslenskra heimila um 1,1% á fyrsta fjórðungi þessa árs en kortavelta erlendis um 0,4% Alls jókst kortavelta heimilanna að raungildi um 0,9% á fyrsta ársfjórðungi, en svo hægur hefur vöxturinn ekki verið síðan á lokafjórðungi ársins 2012.
Engum blöðum virðist um það að fletta að íslensk heimili hafa verið í aðhaldsgírnum undanfarna mánuði ef horft er til ofangreindra talna. Ætti það ekki að koma á óvart en hafa efnahagshorfur dökknað talsvert undanfarna fjórðunga, væntingar almennings til efnahags- og atvinnuástands hríðlækkað, hægt hefur á kaupmáttarvexti launafólks og dregið úr fólksfjölgun. Það er í sjálfu sér jákvætt að mörgu leyti að heimilin skuli hafa brugðist við með þessum hætti og ekki lagst í aukna skuldsetningu til að keyra áfram neysluvöxtinn þegar fór að hægja á vexti kaupmáttar og óvissa um efnahagshorfur jókst.
Lítill neysluvöxtur í kortunum þetta árið
Framangreind þróun kortaveltunnar gefur að okkar mati tóninn hvað varðar einkaneyslu á yfirstandandi ári. Fólksfjölgun verður væntanlega til muna minni á árinu en verið hefur síðustu ár. Þá verður kaupmáttaraukning væntanlega lítil sem engin hjá þeim sem hafa meðaltekjur og þar yfir ef nýgerðir kjarasamningar verða samþykktir og gefa tóninn fyrir það sem koma skal í þeim samningum sem enn eru ógerðir á vinnumarkaði. Atvinnuleysi mun einnig verða nokkru meira á þessu ári en við höfum átt að venjast síðustu ár. Síðast en ekki síst eru væntingar almennings til efnahags- og atvinnuhorfa talsvert lægri þessa dagana en þær hafa verið undanfarin ár.
Þróun ferðaþjónustu og vinnumarkaðar á komandi mánuðum mun ráða miklu um hvernig einkaneyslan þróast þegar lengra líður á árið. Við teljum þó góðar líkur á því að brún landsmanna fari heldur að léttast þegar frá líður og einkaneysluvöxturinn taki hægt og bítandi við sér að nýju. Vöxturinn á árinu í heild verður þó væntanlega mun hægari en verið hefur síðustu ár. Í þjóðhagspá okkar sem gefin var út í janúar síðastliðnum var því spáð að einkaneysla myndi vaxa um 2,7% í ár, en það yrði hægasti vöxtur hennar í sex ár. Miðað við framangreindar tölur og þær vendingar sem orðið hafa frá því spáin var gefin út virðist það mat vera ríflegt ef eitthvað er.