Raunvöxtur kortaveltu íslenskra heimila á fyrsta fjórðungi ársins var sá minnsti í sex ár. Mikil breyting hefur orðið á kortanotkun utan landsteinanna frá síðasta hausti eftir mjög hraðan vöxt misserin á undan. Útlit er fyrir að einkaneysla vaxi talsvert hægar í ár en undanfarin ár.
Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans nam heildarvelta innlendra greiðslukorta ríflega 85 mö.kr. í marsmánuði. Það jafngildir 4,5% aukningu frá sama tíma í fyrra. Sé veltan staðvirt með vísitölu neysluverðs án húsnæðis og gengisvísitölu kemur hins vegar á daginn að innlend kortavelta heimila jókst einungis um 1,5% að raunvirði milli ára í marsmánuði og kortavelta utan landsteinanna dróst saman um ríflega 3%. Á heildina litið jókst kortavelta íslenskra heimila um 0,6% í mars frá sama mánuði árið 2018.