Raunvöxtur kortaveltu heimila hélt áfram fyrstu tvo mánuði ársins og enn er mikill kraftur í veltunni utan landssteinanna. Alls nam kortavelta innlendra greiðslukorta 113,6 ma.kr. í febrúar og jókst því um 2,2% á milli ára að raunvirði. Allmyndarlegur fyrsti fjórðungur þessa árs virðist vera að teiknast upp hvað kortaveltuna varðar.
Raunvöxtur kortaveltu heimila hélt áfram í ársbyrjun
Kortavelta heimila jókst að raunvirði í febrúar samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Kortaveltan hefur aukist nokkuð jafnt og þétt síðastliðin misseri en mikil aukning veltunnar erlendis á þar stóran þátt. Þó kortavelta aukist enn að raunvirði mældist raunvöxtur einkaneyslu undir spám á síðasta ári.
Hægir verulega á kortaveltuvexti innanlands en kraftmikil aukning erlendis heldur áfram
Kortavelta heimila innanlands nam 85,3 ma.kr. og jókst einungis um 0,1% að raunvirði á milli ára í febrúar sl. en svo lítill vöxtur hefur ekki mælst á þann mælikvarða frá því í september í fyrra. Í janúar mældist vöxturinn 3,4% á ársgrundvelli á sama mælikvarða. Vöxtur kortaveltu heimila utanlands var hins vegar öllu kraftmeiri, líkt og síðastliðin misseri. Mældist vöxturinn 13,1% í janúar og 9,7% í febrúar sl. Trúlega skýrist þessi vöxtur bæði af myndarlegri netverslun landsmanna erlendis frá og eins af ferðagleði landans yfir vetrarmánuðina. Þar má nefna að samkvæmt nýlegri frétt frá Ferðamálastofu fjölgaði brottförum Íslendinga um Keflavíkurflugvöll um ríflega 17% milli ára á fyrstu tveimur mánuðum ársins frá sama tíma í fyrra.
Framlag kortaveltunnar innanlands á móti kortaveltu erlendis hefur þó haldist nokkuð stöðugt upp á síðkastið þar sem framlag veltu innanlands hefur verið á bilinu 75,9% til 81,5% síðastliðin 2 ár. Í febrúar var framlag innlendrar kortaveltu 76,2% og erlendrar 23,8%. Framlag innlendu veltunnar mælist því nálægt sínum lægri gildum um þessar mundir.
Kaup varanlegra neysluvara hafa mætt afgangi
Vöxtur einkaneyslu mældist 0,5% á síðasta ári samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu. Er vöxturinn öllu minni en sá 0,9% vöxtur sem við áætluðum í þjóðhagsspá okkar í janúar sl. Samdráttur í kaupum varanlegra neysluvara virðist því hafa verið mikill en m.a. mældist mikill samdráttur í nýskráningum bíla til einstaklinga á síðasta ári. Með lækkandi vöxtum og verðbólgu eigum við von á því að slík kaup taki við sér og fyrstu mánuðir ársins gefa vísbendingu um það. Nýskráningum bíla fjölgaði t.a.m. um 46,5% í janúar og febrúar miðað við sama tímabil í fyrra samkvæmt nýjustu tölum Bílgreinasambandsins.
Margir hagvísar benda þessa dagana til hraðari vaxtar einkaneyslu næstu misseri. Frá miðju síðasta ári hefur dregið mikið úr svartsýni á efnahags- og atvinnuhorfur hjá íslenskum almenningi og bjartsýni aukist að sama skapi. Til að mynda hefur væntingavísitala Gallup mælst yfir 100 stiga jafnvægisgildi sínu síðastliðna fjóra mánuði. Sparnaðarstig heimila er enn mjög hátt og samhliða hækkandi fasteignaverði hefur hreinn auður heimila vaxið og mælist um þessar mundir í sínum hæstu gildum. Eiginfjár- og skuldastaða heimilanna er því góð í sögulegu samhengi.
Líklegt er að talsverður hluti þess mikla sparnaðar heimilanna sem safnast hefur upp síðastliðin misseri ásamt auknum ráðstöfunartekjum skili sér í aukinni einkaneyslu á næstunni. Þá munu kaup á varanlegum neyslufjármunum sem slegið var á frest í hávaxtaumhverfi síðustu ára líklega taka við sér á spátímanum. Það eru því horfur á umtalsvert meiri vexti einkaneyslu í ár en raunin var í fyrra. Í þjóðhagsspá okkar í janúarlok gerðum við ráð fyrir 2,7% einkaneysluvexti í ár og þróunin síðan er fremur á þann veg að óvissa þeirrar spár er til meiri vaxtar þetta árið.