Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kaupmáttur íslenskra heimila vaxið um 90% á 25 árum

Ráðstöfunartekjur á mann á Íslandi hafa vaxið um 90% að raungildi undanfarinn aldarfjórðung. Horfur eru á að ráðstöfunartekjurnar minnki á þennan mælikvarða í ár samfara auknu atvinnuleysi, allnokkurri verðbólgu, erfiðum rekstri margra smærri fyrirtækja og rýrum eignatekjum. Að öllum líkindum verður þó högginu á ráðstöfunartekjur mun meira misskipt en fyrir áratug síðan og lækkun þeirra að jafnaði minni.


Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 3,8% árið 2019 og kaupmáttur ráðstöfunartekna á hvern landsmann um 0,7% samkvæmt nýlegum tölum Hagstofunnar. Ráðstöfunartekjurnar námu í fyrra tæplega 4,3 m.kr. á hvern landsmann og hafa þær hækkað að raungildi um þriðjung undanfarinn áratug. Raunar voru ráðstöfunartekjurnar að raunvirði 100 þúsund krónum meiri á mann en á hátindi þenslutímans um miðjan fyrsta áratug aldarinnar aldarinnar.

Ekki er síður forvitnilegt að skyggnast lengra aftur í tímann. Tölur Hagstofunnar ná aftur til ársins 1994 og spanna því 25 ár. Á því tímabili hafa ráðstöfunartekjurnar á mann hækkað um 90% ef leiðrétt er fyrir verðlagsþróun á sama tímabili. Við Íslendingar höfum með öðrum orðum náð að auka ráðstöfunartekjur að jafnaði um 2,6% á ári á þessu tímabili þrátt fyrir að ýmislegt hafi gengið á í hagkerfinu. Það er þróun sem helst má sjá hjá nýmarkaðsríkjum og á líklega ekki marga sína líka í þróuðu hagkerfi.

Kaupmáttur fylgir hagsveiflunni

Þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna endurspeglar allvel hagsveifluna undanfarin ár. Eins og sjá má af myndinni óx kaupmátturinn hvað hraðast um miðjan áratuginn eftir verulegt fall í upphafi áratugar, enda var vöxtur teknanna sjálfra bæði mikill og verðbólga í lágmarki. Síðan hefur hvort tveggja dregið úr aukningu ráðstöfunarteknanna og verðbólga sótt í sig veðrið. Var vöxtur ráðstöfunarteknanna í fyrra á þennan mælikvarða sá hægasti frá árinu 2013.

Til gamans er á myndinni einnig sýnd ársbreyting á fjölda ferðamanna sem sóttu landið heim á hverju ári frá árinu 2003. Þótt hagsaga undanfarins áratugar sé talsvert flóknari en felst eingöngu í samanburði á ferlunum tveimur á myndinni má segja á þeir endurspegli annars vegar einn helsta drifkraft sveiflunnar og hins vegar eina lykilafleiðingu hennar. Uppgangur ferðaþjónustunnar hefur þannig aukið umsvif í hagkerfinu og haft áhrif um það gervallt með því að afla ört vaxandi útflutningstekna á sama tíma og styrking krónu, sem að talsverðu leyti skrifaðist á innflæði þessara sömu tekna, hélt aftur af verðbólgu.

Miklar breytingar á eignatekjum og -gjöldum

Þróun eignatekna og -útgjalda undanfarinn aldarfjórðung segir sögu af miklum breytingum í íslenska hagkerfinu. Þannig voru til að mynda vaxtatekjur heimila á síðasta ári aðeins um fjórðungur af vaxtatekjum ársins 2008, deilt niður á hvern íbúa. Ætti það ekki að koma á óvart í ljósi þess að vaxtastig í hagkerfinu er orðið allt annað og lægra en var að jafnaði á fyrsta áratug aldarinnar. Hér er raunar horft til nafnvaxta og líklega er árið 2007 heppilegra til samanburðar þar sem raunvextir voru þá talsvert hærri enda verðbólga mikil árið 2008. Þá má af myndinni sjá að arður af hlutabréfaeign slagaði á árinu 2019 hátt upp í arðstekjurnar á því herrans ári 2007 í krónum talið á hvern íbúa. Munurinn er þó sem betur fer sá að arðurinn í fyrra var byggður á öllu traustari grunni en var fyrir rúmum áratug síðan.

Einnig er forvitnilegt að skoða þróun vaxtagjalda heimilanna. Slík gjöld voru í fyrra 79 ma.kr. samanborið við tæplega 20 ma.kr. í upphafi aldarinnar og 61 ma.kr. fyrir áratug síðan. Heildareign landsmanna í íbúðarhúsnæði nam hins vegar 4.557 mö.kr. á síðasta ári, en var 851 ma.kr. í aldarbyrjun og 2.244 ma.kr. fyrir 10 árum síðan. M.ö.o. hefur brúttó íbúðareign landsamanna tvöfaldast undanfarinn áratug og ríflega fimmfaldast frá upphafi aldarinnar á meðan vaxtagjöldin af íbúðarhúsnæði hafa aukist um vaxið um 29% frá árinu 2010 og um 286% frá aldarbyrjun. Er þessi þróun bæði til marks um traustari eignastöðu heimilanna og lækkandi fjármagnskostnað af íbúðalánum.

Falli ráðstöfunartekna misskipt í Kórónukreppu

Líklega verður yfirstandandi ár það fyrsta frá árinu 2013 þar sem ráðstöfunartekjur á hvern landsmann skreppa saman. Kaupmáttur launa mun raunar vaxa um ca. 3% miðað við þróun launavísitölu og neysluverðs það sem af er ári og horfurnar fyrir lokamánuði ársins. Á hinn bóginn mun vaxandi atvinnuleysi höggva stórt skarð í ráðstöfunartekjur þeirra heimila sem fyrir því verða. Þá verða eignatekjur líklega með rýrara móti í ár, auk þess sem hagnaður af eigin rekstri mun væntanlega skreppa talsvert saman, enda mikið um einmennings- og smáfyrirtæki í ferðaþjónustunni. Á móti vegur hins vegar að vaxtagjöld vaxa líklega lítið, ef nokkuð, á milli ára og hreinar tilfærslur verða trúlega talsvert jákvæðari en síðustu ár þar sem stóraukning bótagreiðslna kemur til á sama tíma og skattgreiðslur vaxa hóflega.

Fallið á ráðstöfunartekjum verður því líklega að jafnaði mun minna í Kórónukreppunni en það varð árin 2009-2010 þegar kaupmáttur ráðstöfunartekna skrapp að jafnaði saman um nærri fjórðung. Það verður hins vegar takmörkuð huggun þeim stóra hópi sem verður fyrir barðinu á atvinnuleysisvofunni. Í þjóðhagsspá okkar áætlum við að atvinnuleysi verði að jafnaði 7,8% af vinnuafli í ár og 7,6% á næsta ári. Auk beinna efnahagslegra áhrifa þarf svo vart að fjölyrða um þau margháttuðu andlegu og félagslegu vandamál sem langvarandi atvinnuleysi skapar. Það er því brýnt að vinna að því öllum árum að störfum fjölgi myndarlega á nýjan leik fyrr en seinna svo sem flestar vinnufúsar hendur geti sem fyrst lagst á árarnar um að skapa verðmæti af öllum toga samfélaginu til heilla.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband