Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Peningaþvætti á mannamáli

Peningaþvætti er raunveruleg ógn sem á sér stað í þeim tilgangi að koma ágóða af hvers kyns lögbrotum inn í „kerfið“ og flétta honum þannig saman við lögmæt viðskipti.


Peningaþvætti er því miður ekki bara eitthvað sem við sjáum í reyfarakenndum bíómyndum heldur er það raunverulegt mein í okkar samfélagi.  Íslensk fjármálafyrirtæki hafa á liðnum árum varið auknu fjármagni og vinnu til að sporna við peningaþvætti og eins og mikið hefur verið fjallað um í fjölmiðlum er ekkert ríki eyland í þeirri baráttu. Þannig hefur verklag verið bætt samhliða því sem lög og reglur hafa tekið framförum, nýr hugbúnaður tekinn til notkunar og síðast en ekki síst hefur starfsfólk fengið þjálfun við að koma auga á viðskipti eða aðra gjörninga sem kunna að fela í sér peningaþvætti.

Einföld skilgreining á peningaþvætti er þegar illa fengið fé er látið líta löglega út og þannig nýtt í lögmætum viðskiptum. Einfalt dæmi er einyrki sem fær laun fyrir svarta vinnu millifærð á reikning sinn. Uppruni slíks fjár er þá skattalagabrot. Öllu alvarlegri dæmi geta svo verið einstaklingur sem leggur ágóða af fíkniefnasölu inn á reikning sinn eða jafnvel aðili sem kemur greiðslu fyrir vændi inn á reikning þolandans. Flóknari peningaþvættisbrot geta svo átt sér stað t.d. í gegnum langa og flókna eigendakeðju lögaðila, jafnvel staðsetta víða um heim, þar sem fjármunir eru fluttir úr einum vasa í annan til að hylja uppruna þeirra sem getur til dæmis verið skipulögð glæpastarfsemi. Peningaþvætti er því raunveruleg ógn sem á sér stað í þeim tilgangi að koma ágóða af hvers kyns lögbrotum inn í „kerfið“ og flétta honum þannig saman við lögmæt viðskipti.

Á íslensk fjármálafyrirtæki (sem og fleiri aðila, til dæmis lögmenn, fasteignasala og hverja þá sem hafa með tiltekna umsýslu fjármuna að gera) eru lögð mikilvæg ábyrgð og skyldur. Þeim ber að sporna við peningaþvætti í starfsemi sinni í hvaða mynd sem það getur tekið á sig. Til þess þurfa þau að búa yfir öflugum vörnum, svo sem eftirlitskerfum og árvökulu starfsfólki. Reynslan hefur sýnt að engin ein nálgun, aðferð eða kerfi getur leyst allt framangreint af. Hið mannlega auga getur numið hegðun sem eftirlitskerfi grípa ekki og öfugt.

Ein af mikilvægustu vörnum fjármálafyrirtækja gegn peningaþvætti á sér stað við upphaf viðskiptasambands. Væntanlegur viðskiptavinur er þá, í samræmi við þær reglur sem stjórnvöld setja, látinn sanna á sér deili og svara spurningum um ýmis atriði sem nýtast fjármálafyrirtækjunum við eftirlit sitt. Þetta ferli þekkjum við sem „áreiðanleikakönnun“ (e. „KYC“ sem stendur fyrir „know your customer“). Skiljanlegt er að væntanlegum viðskiptavinum þyki allar þessar spurningar og formlegheit hvimleið, þreytandi og jafnvel tilhæfulaus en allt er þetta hluti af mikilvægum vörnum fjármálakerfisins við að úthýsa ágóða af lögbrotum og í samræmi við þau skilyrði sem löndin í kringum okkur hafa sett í alþjóðlegri baráttu gegn peningaþvætti.

Fjármálafyrirtæki hafa mikilvægu hlutverki að gegna við að sporna gegn því samfélagslega meini sem peningaþvætti er. Einnig er mikilvægt að viðskiptavinir þeirra, bæði einstaklingar og lögaðilar, geti verið þess fullvissir að varnirnar séu í lagi því samfélagið í heild sinni nýtur góðs af því að viðskipti með fjármagn fari fram með löglegum hætti. Slíkt eykur trúverðugleika fjármálakerfisins og gerir fjármálafyrirtækjum auðveldara fyrir að þjóna viðskiptavinum sínum með betri og skilvirkari hætti – jafnvel þó svo spurningaflóðið í upphafi viðskiptasambands geti á stundum virst framandi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu

Höfundur


Rut Gunnarsdóttir

Regluvörður Íslandsbanka


Hafa samband