Á sunnudaginn mætast Patriots og Eagles í leiknum um Ofurskálina. Leikurinn snýst um meira en úrslitin og hvort Tom Brady vinni sinn sjötta titil þar sem óvenju háar upphæðir er að finna nær hvert sem litið er.
Umtalaðar auglýsingar
Ríflega 100 milljónir áhorfenda fylgjast með leiknum og segjast 93% bandarískra áhorfenda ræða um auglýsingarnar við félaga sína eftir leikinn. Hvergi annars staðar er slík athygli í boði en verðmiðinn er eftir því. Talið er að greiða þurfi um hálfan milljarð króna fyrir hálfa mínútu meðan á leiknum stendur. Það er tvöfalt hærri upphæð en fyrir áratug. En þá er ekki allt talið því helstu auglýsendur verja yfir 100 milljónum til viðbótar í að auglýsa auglýsingarnar sínar í aðdraganda leiksins og annað eins getur framleiðslan kostað.
Áætlað er að bandarískir fjölmiðlar hali inn um 40 milljarða króna frá auglýsendum á sunnudaginn, tæplega fjórum sinnum meira en sem nemur öllum auglýsingum á Íslandi, í öllum miðlum á heilu ári.
Tónlistin
Pink syngur þjóðsönginn og Justin Timberlake heldur uppi stuðinu í hálfleik. Tónleikarnir kosta sitt, um milljarð króna, en flytjendurnir fá ekki krónu. Raunar hefur verið reynt (án árangurs) að láta tónlistarfólk greiða fyrir heiðurinn, enda er ekki ónýt auglýsing að fá óskerta athygli áhorfenda og það er væntanlega ekki tilviljun að Timberlake gefur út nýja plötu á föstudaginn. Reynsla Lady Gaga var ansi góð í fyrra en streymi tónlistar hennar þrefaldaðist og plötusala tífaldaðist í kjölfar tónleika hennar í hálfleik.
Milljarður lítra bjórs
Áhorfendur taka virkan þátt í að þenja fjármálahlið Ofurskálarinnar út. Verslunarráð Bandaríkjanna (NRF) áætlar að fullorðnir íbúar landsins verji 8.200 krónum að meðaltali til dagsins, sem er 8,5% aukning frá síðasta ári og 72% aukning frá 2010. Langmest er neyslan í aldurshópnum 25-34 ára, eða rétt tæplega 12.000 krónur á mann.
Yfir milljarður lítra bjórs skolar niður vængjum af 650 milljónum kjúklinga og kaloríurnar eru fleiri en á jóladag.
Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.