Aðspurður um það hvers vegna magnbundin íhlutun hefði verið tilkynnt í vor þegar stýrivextir voru talsvert hærri en nú svaraði Seðlabankastjóri því til að ætlunin hefði verið að hafa áhrif á væntingar með tilkynningunni þá. Beiting íhlutunarinnar þyrfti hins vegar að taka mið af aðstæðum og til að mynda hefði veiking krónunnar í haust orðið til þess að hætt var að leggja fram kauptilboð af hálfu bankans á skuldabréfamarkaði.
Að sögn Ásgeirs telur peningastefnunefndin að ganga eigi heldur harðar til verks við skuldabréfakaupin á komandi tíð en verið hefur. Í því sambandi má nefna að frá 9. nóvember sl. hefur bankinn keypt ríkisbréf fyrir a.m.k. 1,5 ma.kr. og er því ljóst að hann er þegar farinn að gefa í hvað kaup af þessu tagi varðar. Þá muni peningastefnunefnd bregðast við ef þau sjá misvægi á skuldabréfamarkaði. Krónan sé líklega búin að ná lágmarki og það gefi aukið svigrúm fyrir íhlutun af því tagi.
Lægstu eða hæstu raunvextirnir?
Aðspurður sagði aðalhagfræðingur Seðlabankans, Þórarinn G. Pétursson, að raunvextir á Íslandi væru í kring um -3% og þar með þeir langlægstu í hinum vestræna heimi. Hér er rétt að halda til haga að Þórarinn hefur væntanlega verið að vísa til stýrivaxta bankans m.t.t. núverandi verðbólgu eða skammtíma verðbólguhorfa. Langtíma raunvextir hér á landi eru um þessar mundir 0,4%, sé miðað við verðtryggð ríkisbréf og á svipuðum slóðum séu þeir skoðaðir út frá mun óverðtryggðra ríkisbréfa og langtíma verðbólguvæntinga. Eru sambærilegir vextir óvíða svo háir á Vesturlöndum. Það er því mikill munur á raunvaxtastigi hér á landi í alþjóðlegum samanburði eftir því hvort horft er til skemmri eða lengri tíma.
Þá kom fram í máli Þórarins að líklega væru jafnvægisraunvextir á næstunni lægri en verið hefði. Vísaði hann þar til þess að framleiðslugetan væri líklega að vaxa um u.þ.b. 1% næstu ár en vöxturinn hefði undanfarna áratugi verið 2,7% að meðaltali. Getum við tekið undir þá skoðun að dagar hárra jafnvægisraunvaxta á Íslandi eru væntanlega taldir nema verulega dragi úr sparnaði og/eða umtalsverður fjörkippur hlaupi aftur í vöxt framleiðslugetunnar.