Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ótímabær vaxtahækkun?

Batnandi efnahagshorfur og umtalsverð verðbólga eru helstu ástæður fyrir vaxtahækkun Seðlabankans nú í morgun. Bankinn hefur litlar áhyggjur af áhrifum Delta-bylgju COVID á efnahagsbatann og telur tímabært að draga úr stuðningi peningastefnunnar við heimili og fyrirtæki. Við teljum að heppilegra hefði verið að hinkra með vaxtahækkun þótt efnahagsbati og verðbólguþrýstingur kalli væntanlega á hærri vexti á komandi fjórðungum.


Seðlabanki Íslands tilkynnti í morgun þá ákvörðun peningastefnunefndar bankans að hækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því 1,25%, en svo háir hafa vextirnir ekki verið frá maí 2020.

Ákvörðunin kom nokkuð á óvart en opinberar spár höfðu hljóðað upp á óbreytta vexti, þar á meðal okkar spá. Virðist sem peningastefnunefndin hafi minni áhyggjur af þróun yfirstandandi Delta-bylgju COVID-19 faraldursins hér á landi jafnt sem erlendis en innlendir og erlendir greiningaraðilar. Við gerðum í spá okkar ráð fyrir því að óvissa tengd henni yrði til þess að fresta vaxtahækkun fram á haustið þegar línur væru vonandi farnar að skýrast um framhaldið. Hér er rétt að hafa í huga að óvenju stutt er milli vaxtaákvarðana Seðlabankans það sem eftir er árs og því hægara um vik en ella að taka mið af hröðum breytingum á efnahagshorfum.

Í yfirlýsingu nefndarinnar kom fram að þrátt fyrir Delta-bylgjuna væru efnahagshorfur betri og slakinn í þjóðarbúinu hefði minnkað hraðar áður hefði verið talið. Almennur verðbólguþrýstingur virtist fara minnkandi og hækkun verðbólguvæntinga væri að ganga til baka. Þó væru horfur á talsverðri verðbólgu út árið og ár í að hún næði í 2,5% markmið bankans.

Í sem stystu máli virðist því sem mat á batnandi efnahagshorfum og minnkandi slaka vegi þyngra en breyttar verðbólguhorfur í vaxtahækkuninni nú.

Framsýna leiðsögnin er hlutlaus og reyndar orðrétt hin sama og í maí:

Peningastefnunefnd mun beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að tryggja að verðbólga hjaðni aftur í markmið innan ásættanlegs tíma.

Bjartari hagspá?

Ný hagspá var birt í Peningamálum samhliða stýrivaxtaákvörðuninni. Bankinn spáir betri hagvaxtarhorfum fyrir yfirstandandi ár í heild, þrátt fyrir að að landsframleiðslan hafi dregist meira saman á fyrsta fjórðungi ársins en gert var ráð í maíspá bankans. Bankinn spáir 4% vexti í ár samanborið við 3,1% í síðustu spá. Bjartari horfur skýrast helst vegna kröftugs vaxtar á öðrum ársfjórðungi í takt við fækkun smita, slökun á sóttvarnaraðgerðum og örari fjölgun ferðamanna en áður var gert ráð fyrir. Athygli vekur þó að spá bankans hljóðar aðeins uppá 3% aukningu í fjölgun ferðamanna frá maíspánni. Hagvaxtarhorfur fyrir árið 2022 eru aftur á móti heldur svartsýnni en í síðustu spá. Bankinn spáir þá 3,9% hagvexti samanborið við 5,2% í maíspánni. Hagvöxtur áranna 2021-2022 er því samanlagt lítið eitt minni en í maíspá bankans. Okkur þykir þetta ekki ríma alls kostar við þann bjartsýnistón sem sleginn var bæði í yfirlýsingu peningastefnunefndar og á kynningarfundinum í kjölfarið.

Þá spáir bankinn minna atvinnuleysi en í síðustu spá þar sem slakinn í þjóðarbúinu hefur minnkað hraðar en gert var ráð fyrir í maí. Spáin hljóðar upp á 8,1% skráð atvinnuleysi að jafnaði í ár en að atvinnuleysi verði komið á svipaðan stað og fyrir Kórónukreppuna í lok spátímans eða í 4,3% árið 2023. Aðspurð um misræmi milli framboðs starfa og spurnar þar sem atvinnurekendur hafa bent á að erfitt sé að fá starfsfólk þrátt fyrir mikið atvinnuleysi benti varaseðlabankastjóri, Rannveig Sigurðardóttir, á að of snemmt sé að hafa áhyggjur af því. Hluti af vinnuaflinu sé erlent og hafi mögulega farið til síns heimalands í Kórónukreppunni. Það muni því taka tíma að endurheimta vinnuafl erlendis frá til að jafnvægi komist á vinnumarkaðinn.

Verðbólguhorfur svipaðar og fyrr

Verðbólguspá bankans hækkaði lítillega frá spánni í vor og segir bankinn skýringuna á þrálátari verðbólgu vera vegna meiri verðbólgu í upphafi spátímans auk þess sem olíuverð og verð annarrar hrávöru hafi hækkað umfram væntingar. Seðlabankinn spáir 4,2%  verðbólgu að jafnaði í ár og 2,8% að jafnaði á næsta ári. Samkvæmt spá bankans verður verðbólga komin í markmið á þriðja fjórðungi næsta árs sem er í takti við verðbólguspá okkar í Greiningu Íslandsbanka.

Verðbólga mælist nú 4,3% og hefur reynst þrálátari helst vegna mikilla umsvifa á fasteignamarkaði sem og vegna þess að verð á almennri þjónustu hefur hækkað vegna aukinnar eftirspurnar eftir þjónustu í kjölfar slökunar á sóttvarnaraðgerðum.

Forsvarsmenn bankans telja tímabært að auka aðhald

Á kynningarfundi Seðlabankans var Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri spurður af hverju lægi á að hækka vexti hér á landi öfugt við flesta seðlabanka í kring um okkur, sér í lagi í ljósi skammtímaóvissu um Delta-bylgjuna. Svaraði Ásgeir því til að raunvextir væru enn í algjöru lágmarki og að bankinn vildi bregðast tímanlega við framangreindum verðbólgu- og efnahagshorfum. Var að heyra að hann hefði ekki miklar áhyggjur af áhrifum Delta-afbrigðisins á efnahagsbatann á komandi fjórðungum. Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, bætti því við að spá bankans um hjaðnandi verðbólgu fæli í sér tiltekinn vaxtaferil og gaf í skyn að hækkandi vexti þyrfti til þess að koma verðbólgu í markmið að ári liðnu eins og spá bankans hljóðar. Þá benti Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur bankans, á að erlendis væri áskorunin víða að toga verðbólguvæntingar upp á við en staðan væri ólík hér á landi hvað það varðar.

Þá telja forsvarsmenn bankans að vaxtalækkunin í fyrra hafi skilað sér kröftuglega inn í þróun eignaverðs. Hækkun fasteignaverðs væri sá þáttur sem helst kom i veg fyrir hjöðnun verðbólgu í sumar. Þó væru ekki merki um bólu heldur mætti sem fyrr skýra þróunina með skorti á framboði og líflegri eftirspurn. Vaxtahækkunin nú væri því að einhverju leyti til þess ætluð að kæla fasteignamarkaðinn. Svipaða sögu mætti segja af raunhagkerfinu. Vaxtalækkun í fyrra hefði aukið ráðstöfunartekjur og haft auðsáhrif hjá mörgum heimilum, sem hefði ýtt undir eftirspurn.

Ljóst er af orðum og athöfnum forsvarsmanna Seðlabankans að þau telja aðgerðir bankans hafa verið árangursríkar hvað varðar að mýkja höggið vegna Kórónukreppuna. Undir það getum við heils hugar tekið. Hins vegar telja þau einnig að fullt tilefni sé nú til að bregðast við batnandi horfum sem fyrst með því að draga úr hvatanum sem slaki í peningastefnunni skapar. Þar setjum við spurningamerki við tímasetninguna. Vissulega lítur út fyrir að kröftugur efnahagsbati og talsverður verðbólguþrýstingur muni fyrr en seinna kalla á vaxtahækkunarferli og spáðum því til að mynda í síðustu viku að stýrivextir yrðu komnir í a.m.k. 2,0% fyrir árslok 2022. Í ljósi þess hvað skammtímaóvissa vegna áhrifa Delta-bylgjunnar á alþjóðlega hagþróun, bata ferðaþjónustunnar og innlend umsvif er enn mikil og stutt er í næstu vaxtaákvörðunardaga hefðum við talið hyggilegra að hinkra við og sjá hvað komandi vikur bera í skauti sér. Vonandi verður þróunin þó á þann veg að bjartsýni Seðlabankans reynist á rökum reist. Gangi allt að óskum gæti vel farið svo að vextir verði hækkaðir aftur á lokafjórðungi ársins. Ella teljum við að næsta vaxtahækkun bíði nýs árs.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband

Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband