Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Opinberir starfsmenn og lágtekjuhópar leiða hækkun launa

Vísitölur launa og kaupmáttar launa lækkuðu aðeins í júlímánuði en árstaktur vísitalnanna mælist þó enn nokkuð hraður. Samningsbundin hækkun launa og vinnutímastytting skýrir árshækkun launavísitölu að langstærstum hluta. Opinberir starfsmenn leiða launahækkanir síðastliðið ár en á almenna vinnumarkaðnum eru það lágtekjuhóparnir sem hækka mest í launum og njóta aukins kaupmáttar.


Hagstofan birti í gærmorgun vísitölur launa og kaupmáttar launa fyrir júlímánuð. Launavísitalan lækkaði um 0,1% á milli mánaða, sem er í fyrsta skipti frá því í júlí 2020 sem vísitalan lækkar á þennan kvarða. Árshækkunartaktur vísitölunnar mælist nú 7,8% og hækkaði um 0,1 prósentustig milli mánaða.

Árstakturinn hefur verið svipaður síðustu mánuði og er enn nokkuð hraður í sögulegu samhengi. Hægt hefur þó á hækkunartakti launavísitölunnar frá því hann var hvað hraðastur í bæði febrúar og mars þegar hann mældist 10,6%. Helsta ástæða þess að hægja tók á árstaktinum eru launahækkanir sem áttu sér stað í apríl í fyrra og mælast því ekki lengur í árstaktinum.

Kaupmáttur launa rýrnaði um 0,3% í júlímánuði frá mánuðinum á undan. Undanfarna 12 mánuði hefur kaupmáttur launa hins vegar aukist um 3,4% á sama tíma og verðbólga mælist 4,3%. Seigt er í vexti kaupmáttar þó svo verðbólga mælist með mesta móti. Þó hefur hægst nokkuð á vextinum frá því hann var 6,2% í febrúar síðastliðnum.

Þessar launabreytingar undanfarið ár má helst rekja til launahækkana um áramót sem voru samkvæmt kjarasamningum og náðu til meirihluta launafólks á vinnumarkaði. Auk þess telst stytting vinnuvikunnar sem ígildi launabreytinga og hefur því talsverð áhrif til hækkunar á vísitölunum.

Opinberir starfsmenn hækka mest í launum

Frekara niðurbrot á launavísitölunni nær einungis til maímánaðar. Sé launavísitalan skoðuð eftir helstu launþegahópum hafa starfsmenn sveitarfélaga hækkað mest í launum frá maí 2020 til síðastliðins maímánaðar eða um 14,5%. Þar á eftir hafa starfsmenn ríkisins hækkað um 10,7% og starfsmenn á almennum vinnumarkaði um 5,8%. Stór hluti af hækkun á launavísitölunni er því á opinbera markaðnum en í maí var árstaktur vísitölunnar 7,5%. Rétt er að hafa í huga að vinnutímastytting á opinbera markaðinum var á heildina litið meiri en í einkageiranum og áhrif hennar á launavísitölu að sama skapi sterkari.

Kaupmáttur launa eykst hjá lágtekjuhópum

Áhugavert er að skoða hvaða starfstéttir það eru á almenna vinnumarkaðnum sem hækkað hafa mest í launum. Á almenna vinnumarkaðnum hafa laun verkafólks hækkað hlutfallslega mest frá maí 2020 til maí 2021 eða um 8,4%. Næst mest hækkuðu laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks eða um 7,3%. Á sama tíma hækkuðu laun sérmenntaðs starfsfólks minnst eða um 3,9% og sérfræðinga næst minnst eða um 4,2%.  Þar sem verðbólga mældist 4,3% í maímánuði hefur kaupmáttur launa síðarnefndu hópanna því staðið í stað eða rýrnað lítillega á heildina litið undanfarið ár á meðan kaupmáttur launa fyrrnefndu hópanna tveggja hefur að jafnaði aukist um 3-4% á sama tíma.

Miðað við miðgildi heildarlauna árið 2020 hafa þeir hópar sem ægstu launin hafa notið mestrar hlutfallslegrar hækkunar launa. Miðgildi launa þjónustu-, sölu og afgreiðslufólks eru lægst eða 569 þúsund á mánuði og næst á eftir eru laun verkafólks 594 þúsund á mánuði. Í lífskjarasamningunum sem gerðir voru árið 2019 voru áherslur á almennar krónutöluhækkanir og sérstakar hækkanir kauptaxta. Hlutfallsleg breyting á launum verður því meiri eftir því sem laun eru lægri og öfugt. Samkvæmt þessu hefur launahækkun skilað sér best til þeirra hópa með lægstu launin en kaupmáttaraukningin hefur þó verið takmörkuð fyrir flestar starfsstéttir á almenna vinnumarkaðnum.

Einkaneysla sækir í sig veðrið

Sterk fylgni er á milli þróunar einkaneyslu og kaupmáttar launa. Samband þessara tveggja stærða rofnaði þegar COVID skall á, til að mynda skrapp einkaneysla talsvert saman árið 2020 á meðan kaupmáttur launa jókst. Ástæða þess er væntanlega hröð aukning atvinnuleysis, víðtækar skorður á ýmiskonar þjónustu og almennt óvissuástand. Tengdir hagvísar benda til þess að þess að einkaneyslan sé að sækja í sig veðrið þessa dagana og muni gera það áfram á komandi mánuðum. Því eru góðar líkur á því að þessar tvær stærðir muni fylgjast nokkuð vel að á nýjan leik næsta kastið. Hagstofan birtir gögn um einkaneyslu fyrir annan ársfjórðung í næstu viku.

Kaupmáttur launa hefur hingað til staðið af sér COVID-skellinn sem telst mjög óvenjulegt í miðri niðursveiflu hagkerfisins. Kaupmáttarvöxtur næstu misserin mun helst skýrast af samningsbundnum launahækkunum sem eru um komandi áramót og því má gera ráð fyrir að hægja muni á hækkunartaktinum á næstu fjórðungum. Það veltur svo að miklu leyti á kjarasamningum sem ráðist verður í á seinni hluta næsta árs hvernig framhaldið verður.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband