Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Óbreyttir stýrivextir og litlar líkur á vaxtahækkun á næstunni

Stýrivextir Seðlabankans verða óbreyttir í 0,75% eftir vaxtaákvörðun sem kynnt var í morgun. Gjaldeyrisviðskipti bankans hafa undanfarið aukið stöðuleika en talsverðar líkur eru á að dregið verði úr reglulegri gjaldeyrissölu hans. Horfur eru á að stýrivextirnir verði óbreyttir að minnsta kosti út þetta ár.


Stýrivextir Seðlabankans verða óbreyttir enn um sinn. Í nýbirtri yfirlýsingu peningastefnunefndar bankans kemur fram að ákveðið hafi verið að halda vöxtum bankans óbreyttum og meginvextir hans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verði því áfram 0,75% líkt og þeir hafa verið frá nóvember sl.

Yfirlýsing nefndarinnar er raunar stutt og framsýna leiðsögnin hlutlaus. Þar kemur fram að efnahagsumsvif hafi reynst kröftugri í fyrra en vænst var og vísbendingar séu um áframhaldandi bata það sem af er þessu ári. Óvissa er hins vegar mikil og þar ræður COVID-19 faraldurinn og framgangur bólusetningar við honum hér og erlendis för að miklu leyti næsta kastið.

Þá er að mati nefndarinnar útlit fyrir að verðbólga fari að hjaðna með vorinu þótt nærhorfur hafi líklega versnað frá febrúar, m.a. vegna hækkunar á olíu- og hrávöruverði undanfarið og kostnaðarhækkana sem rekja má til framleiðsluhnökra vegna faraldursins. Verðbólguvæntingar hafi hækkað lítillega en of snemmt sé að álykta um hvort kjölfesta verðbólgumarkmiðsins hafi veikst.

Framvirka leiðsögn nefndarinnar er nánast orðrétt sú sama og í febrúar:

„Peningastefnunefnd mun beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að styðja við þjóðarbúskapinn og tryggja að verðbólga hjaðni aftur í markmið innan ásættanlegs tíma.“

Leiðsögnin er sem sagt hlutlaus sem fyrr og gefur ekki sérstaka vísbendingu um hvort næsta vaxtabreyting verði til hækkunar eða lækkunar, né heldur hverslu langt kunni að vera í breytingu vaxta.

Í því sambandi ítrekaði Ásgeir á kynningarfundinum að inngrip bankans á gjaldeyrismarkaði hefðu orðið til að draga úr peningamagni í umferð. Meðal annars væri þess vegna til staðar svigrúm til þess að útvega ríkissjóði krónum í skiptum fyrir hluta þess gjaldeyris sem ríkissjóður geymir á innlánsreikningi í Seðlabankanum. Um síðustu mánaðamót námu slíkar gjaldeyrisinnstæður jafnvirði 323 ma.kr. og líklegt er að ríkissjóður muni nota hluta þeirra til að fjármagna hallarekstur þegar lengra líður á yfirstandandi ár. Innstæður ríkissjóðs í krónum eru hins vegar einnig drjúgar um þessar mundir, eða 119 ma.kr. miðað við síðustu tölur. Því er væntanlega nokkuð í að ríkissjóður taki til við að innleysa gjaldeyriseignir sínar til fjármögnunar á rekstrarhallanum.

Ákvörðunin í morgun er í takti við væntingar okkar og yfirlýsingin bendir ekki til að vaxtabreytingar séu á döfinni á næstunni. Tónninn sem sleginn var á kynningarfundi og ummælum seðlabankastjóra í fjölmiðlum eru á sömu leið. Í nýjustu stýrivaxtaspá okkar er gert ráð fyrir óbreyttum vöxtum út þetta ár og ekkert í yfirlýsingunni eða umfjöllun í kjölfarið breytir þeirri skoðun okkar.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband