Óbreytt ársverðbólga í desember

Ársverðbólga stendur óbreytt í desember í takt við væntingar. Líkt og von var á vógu árviss hækkun flugfargjalda og reiknuð húsaleiga þyngst í mánuðinum. Við gerum ráð fyrir lítilli breytingu ársverðbólgu í janúar en eigum von á nokkuð skarpri hjöðnun í febrúar og mars.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,39% í desember samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga stendur því óbreytt í 4,8%. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 2,8% og hækkar því lítillega úr 2,7%. Mæling desembermánaðar er í takt við okkar spá en við spáðum 0,4% hækkun VNV í mánuðinum. Greiningaraðilar höfðu spáð 0,35-0,55% hækkun og mæling mánaðarins því í takt við væntingar. Reiknuð húsaleiga og hækkun flugfargjalda vógu þyngst til hækkunar vísitölunnar.

Árviss hækkun flugfargjalda í aðdraganda jóla og reiknuð húsaleiga vega þyngst

Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 8,0% (0,14% áhrif á VNV) í takt við okkar væntingar. Um er að ræða árvissa hækkun í aðdraganda jóla þegar eftirspurnin er mikil. Hækkunin gengur því yfirleitt til baka í janúar. Flugfargjöld hækkuðu óvenjulítið á sama tíma í fyrra sem veldur því að framlag flugfargjalda til ársverðbólgu eykst. Að okkar mati er hækkunin þó í hóflegri kantinum miðað við árstíma en oft á tíðum nær prósentuhækkunin tveggja stafa tölu.

Að flugfargjöldum undanskildum vó reiknuð húsaleiga þyngst til hækkunar VNV í desember. Reiknuð húsaleiga (kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði) hækkaði um 0,5% (0,09% áhrif á VNV) en við höfðum spáð 0,3% hækkun. Þó mælingin sé ekki langt frá okkar spá er um að ræða annan mánuðinn í röð sem liðurinn mælist yfir okkar spá eftir að hafa mælst undir spám í október. Við eigum von á því að hækkun liðarins muni vera nálægt 0,5% á mánuði næstu mánuði og muni ekki rjúfa 1% múrinn á næstunni. Um þetta ríkir hins vegar óvissa en vísbendingar af leigumarkaði benda til þess að hann sé að kólna.

Langflestir undirliðir í takt við væntingar

Matvara hækkaði um 0,3% í verði (0,04% áhrif á VNV) í takt við okkar spá. Sé rýnt dýpra í tölurnar sem liggja að baki má sjá að ávextir lækkuðu um 2,16% í verði (-0,02% áhrif á VNV) og grænmeti, kartöflur o.fl. lækkuðu um 1,07% í verði (-0,01% áhrif á VNV). Mest hækkuðu mjólk, ostar og egg, eða um 2,68% (0,06% áhrif á VNV) en Verðlagsnefnd búvara ákvað að hækka lágmarksverð mjólkur til bænda og heildsöluverð á mjólkurvörum í nóvember en hækkanirnar tóku gildi 1. desember. Kaffi, te og kakó hækkuðu um 0,19% í verði en vandræði við uppskeru hafa valdið gífurlegum hækkunum á kaffi og kakói á árinu. Við eigum ekki von á því að verð matvöru taki stökk eftir áramót og gerum ráð fyrir hækkun á svipuðu bili og mælst hefur nýverið. Þar teljum við sterkari krónu vega gegn innlendum hækkunum. Þegar líður á næsta ár eigum við svo von á því að meira jafnvægi komist á matvælaverð þar sem áhrif hærri launakostnaðar og uppskerubresta hafa að miklu leyti komið fram.

Verðbólguhorfur

Við eigum von á því að ársverðbólga breytist ekki í janúar en hjaðni nokkuð hratt í febrúar og mars. Ef spáin gengur eftir mun ársverðbólga vera komin inn fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í mars. Þegar líður á næsta ár eigum við von á því að ársverðbólga verði komin nokkuð nálægt verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Við gerum ráð fyrir eftirfarandi í uppfærðri bráðabirgðaspá okkar:

  • Janúar: 0,1% lækkun VNV (ársverðbólga 4,8%)
  • Febrúar: 0,6% hækkun VNV (ársverðbólga 4,0%)
  • Mars: 0,4% hækkun VNV (ársverðbólga 3,6%)

Til þess að spá okkar gangi eftir þarf launaskrið að vera takmarkað og gengi krónu stöðugt. Helsta óvissan um þessar mundir snýr að gerð kjarasamninga fyrir hluta opinberra starfsmanna. Þar að auki er óvissa af pólitíska sviðinu sem og í alþjóðamálum en miklar vendingar í þeim efnum kunna að breyta myndinni töluvert.

Ný könnun Gallup á verðbólguvæntingum ætti svo að reynast peningastefnunefnd gott veganesti fram að vaxtaákvörðun í febrúar. Könnunin, sem framkvæmd var í nóvember, gaf til kynna lækkandi verðbólguvæntingar fyrirtækja og heimila til skemmri og lengri tíma. Peningastefnunefnd horfir gjarnan stíft á þennan mælikvarða og því góðar líkur á vaxtalækkun í febrúar að okkar mati.

Höfundur


Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband