Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Mikil neyslugleði og fjölgun ferðamanna skýra hagvöxt á vordögum

Mikill einkaneysluvöxtur og hröð fjölgun ferðamanna skýra stærstan hluta hagvaxtar það sem af er ári. Útlit er fyrir að útflutningur taki við af innlendri eftirspurn sem helsti aflvaki vaxtar á komandi fjórðungum. Horfur eru á 5% hagvexti í ár en um það bil helmingi hægari vexti næstu tvö ár.


Hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi var 6,1% samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Vöxturinn var að stærstum hluta drifinn af myndarlegum einkaneysluvexti og verulegri fjölgun ferðamanna milli ára. Einnig óx almenn fjármunamyndun atvinnuvega talsvert en mikill innflutningsvöxtur og mun minni flugvélafjárfesting en á sama tíma í fyrra vó á móti. Vöxturinn á 2F var í svipuðum takti og verið hefur undanfarna fjórðunga eftir að hagkerfið tók að taka við sér samfara dvínandi áhrifum faraldursins.

Einkaneysla á fljúgandi ferð

Einkaneysla jókst um 13,5% á milli ára að raungildi. Er það hraðasti vöxtur einkaneyslu í 17 ár. Vöxturinn nú er enn athyglisverðari í ljósi þess að einkaneysla hafði þegar tekið töluvert við sér fyrir ári síðan. Sé horft til sama tímabils síðasta ár fyrir faraldur, þ.e. 2019, var einkaneyslan ríflega 13% meiri nú en þá. Ljóst er að heimilin hafa rétt verulega úr kútnum eftir samdrátt í upphafi faraldurs enda hafa kortaveltutölur, farþegagögn frá Keflavíkurflugvelli og gögn um innflutning borið með sér mikinn gang í neysluútgjöldum landsmanna á vordögum, sér í lagi utan landsteinanna.

Fjárhagsleg staða heimila er því almennt býsna sterk um þessar mundir en viðbúið er að mörg þeirra rífi nokkuð harkalega í neysluhemilinn í ljósi mikillar verðbólgu, hjaðnandi væntinga um ástandið á komandi fjórðungum og óvissu tengda kjarasamningum í vetrarbyrjun svo nokkuð sé nefnt.

Vaxtarkippur í ferðaþjónustu undirstaða útflutningsvaxtar

Ásamt einkaneyslunni var útflutningur helsti burðarás hagvaxtar á fyrri helmingi ársins. Sér í lagi hefur útflutningur á þjónustu verið í örum vexti enda ferðamenn teknir að flykkjast til landsins á nýjan leik. Alls jókst útflutningur um ríflega 23% á fyrri árshelmingi og eins og sjá má af myndinni skrifast nær allur sá vöxtur á þjónustuhliðina. Öfugt við fyrsta fjórðung ársins hafði útflutningur vinninginn gagnvart innflutningi á öðrum fjórðungi og framlag utanríkisviðskipta á fjórðungnum var því jákvætt í fyrsta skipti frá þriðja fjórðungi síðasta árs.

Ef við lítum aftur fyrir faraldur með samanburð var útflutningur þjónustu þó 7% minni að raungildi en vöruútflutningur í stórum dráttum sá sami og á öðrum fjórðungi 2019. Miðað við fyrirliggjandi tölur og horfur fyrir næstu vikur gæti þjónustuútflutningurinn á þriðja fjórðungi þó náð í skottið á 2019 hvað þetta varðar enda er rífandi gangur í ferðaþjónustunni þessa dagana.

Hægir á fjárfestingarvexti

Á fyrri árshelmingi jókst verg fjármunamyndun um ríflega 6% frá sama tíma í fyrra. Þar vó þyngst að fjármunamyndun atvinnuvega óx um rúmlega 12% á tímabilinu frá sama tíma í fyrra. Fjárfesting hins opinbera jókst á sama tíma um nærri 4%. Hins vegar skrapp fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði saman um rúmlega 7% á fyrri árshelmingi frá sama tíma fyrir ári. Birtingarmynd þessa samdráttar hefur vitaskuld komið fram í takmörkuðu framboði á nýjum íbúðum á fasteignamarkaði og hraðri hækkun íbúðaverðs á fyrri helmingi ársins. Hagstofan setur þó þann varnagla að óvissa um íbúðafjárfestinguna sé óvenju mikil í framangreindum tölum.

Sem betur fer eru merki um að takturinn sé að aukast í íbúðafjárfestingunni. Útlit er fyrir að hún taki við sér á komandi fjórðungum og að nýjum íbúðum inn á markað muni fjölga jafnt og þétt, enda ekki vanþörf á.

Hægari vöxtur í vændum

Viðsnúningur í hagkerfinu hefur verið myndarlegur eftir að versti skellurinn vegna faraldursins gekk yfir. Tölur Hagstofunnar hafa nú sýnt samfelldan hagvöxt fimm ársfjórðunga í röð og landsframleiðslan er komin á svipaðar slóðir og var fyrir faraldur. Hagstofan endurskoðaði raunar einnig landsframleiðslutölur síðustu ára við birtinguna í morgun. Við þá endurskoðun reyndist samdrátturinn 2020 heldur minni en áður (6,8% í stað 7,1%) og vöxturinn í fyrra var 4,4% en hafði í fyrri tölum mælst 4,3%.

Tölur morgunsins ríma vel við þá sögu sem sögð var í þjóðhagsspá okkar í maí síðastliðnum. Við eigum von á því að það dragi úr vexti eftirspurnar í hagkerfinu á sama tíma og útflutningsvöxtur heldur áfram af miklum krafti. Þungamiðjan í hagvexti færist því jafnt og þétt frá eftirspurn yfir til útflutnings á komandi fjórðungum. Á árinu teljum við að landsframleiðsla vaxi að jafnaði um 5,0% en í kjölfarið fylgi talsvert hægari vöxtur, eða 2,7% á næsta ári og 2,6% árið 2024. Verði sú raunin megum við Íslendingar vel við una, nú þegar líkur aukast á samdrætti víða í nágrannalöndum okkar á komandi fjórðungum.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband