Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Neysla heimila braggast á vormánuðum

Einkaneysla landsmanna virðist hafa rétt heldur úr kútnum á vormánuðum ef marka má þróun kortaveltu. Vöxtur einkaneyslu verður þó með minna móti í ár enda eru skilyrði í hagkerfinu til skemmri tíma óhagstæðari en verið hefur síðustu ár.


Heildarvelta innlendra greiðslukorta í maí síðastliðnum nam ríflega 93 mö.kr. Jafngildir það 5,0% aukningu á milli ára í krónum talið. Leiðrétt fyrir verðlags- og gengisbreytingum nam hins vegar raunaukning kortaveltunnar 1,1% í maí frá sama mánuði 2018. Talsverður munur var á þróun kortaveltu innanlands og utan landsteinanna. Fyrrnefnda veltan óx um ríflega 2% að raungildi milli ára á meðan veltan erlendis skrapp saman um 3,5%.

Mikil breyting hefur orðið á þróun kortaveltu Íslendinga á erlendri grundu. Fyrir rúmu ári hljóp raunvöxtur slíkrar veltu á tugum prósenta, en undanfarið hefur ýmist verið vöxtur eða samdráttur í veltunni erlendis. Má til samanburðar geta þess að á fyrstu fimm mánuðum ársins fækkaði brottförum Íslendinga um Keflavíkurflugvöll um tæp 4% frá fyrra ári, en á árinu 2018 í heild fjölgaði íslenskum farþegum um flugvöllinn hins vegar um tæplega 8% frá árinu 2017. Fleiri þættir hafa raunar áhrif í tölunum um kortaveltu erlendis, ekki síst verslun í alþjóðlegum netverslunum sem líklega hefur haft veruleg áhrif á samband þessara stærða hin síðustu ár.

Hægari einkaneysluvöxtur í kortunum

Þróun kortaveltu er einn gagnlegasti innlendi hagvísirinn fyrir mat á þróun einkaneyslu, enda er kortanotkun mjög útbreidd hérlendis og gögnin berast með fremur lítilli tímatöf. Kortaveltutölur maímánaðar bera með sér að neyslugleði landsmanna hafi eitthvað tekið við sér með vori í lofti. Var raunaukning kortaveltunnar að jafnaði 1,8% í apríl og maí frá sama tíma í fyrra, samanborið við 0,8% vöxt á fyrsta fjórðungi ársins. Þetta virðist einnig ríma allvel við þróun væntinga heimilanna, en Væntingavísitala Gallup var að jafnaði  nærri 14 stigum hærri í apríl og maí en hún var á lokafjórðungi síðasta árs. Hugsanlega eru heimilin þarna að bregðast við minnkandi óvissu eftir fall WOW-Air í lok mars og gerð kjarasamninga í apríl, þótt hið fyrrnefnda hafi að sjálfsögðu ekki verið góð tíðindi.

Eftir sem áður gerum við þó ráð fyrir að vöxtur einkaneyslu verði með hægara móti í ár. Leggst þar á eitt hægari fólksfjölgun, vaxandi atvinnuleysi, hófleg kaupmáttaraukning og lægri væntingar heimila til ástands og horfa í efnahags- og atvinnumálum. Í nýbirtri þjóðhagsspá okkar spáðum við 2,2% einkaneysluvexti í ár, og yrði það hægasti vöxtur einkaneyslu frá árinu 2013. Rétt er þó að hafa í huga að hagur íslenskra heimila hefur vænkast umtalsvert að jafnaði síðustu ár og hægur einkaneysluvöxtur þarf alls ekki að fela í sér teljandi harðindi fyrir þorra landsmanna þótt gengið sé eitthvað hægar um gleðinnar dyr en undanfarin ár.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband