Nauthúsagil undir Eyjafjöllum


Nauthúsagil undir Eyjafjöllum. Sannkallaður ævintýraheimur þar sem meðal annars má finna mosagróna hamraveggi og stærðarinnar reynitré sem lúta yfir gilið. Inni í gilinu er lágur foss þar sem finna má kaðal boltaðan í bergið fyrir þau sem vilja fara lengra. Innar er nefnilega hamrakór og allhár foss sem fellur í gilið. Það er engu líkara en að vera komin inn í álfheima að standa í botni gilsins.

Fróðleiksmoli: Þjóðsaga ein hermir að bræður tveir frá Nauthúsum hafi verið miklir ribbaldar og drykkjumenn sem drukknuðu báðir í Markarfljóti er þeir ætluðu að drepa bóndann í Stóra-Dal sem kvæntur var systur þeirra.Gengu bræðurnir báðir aftur og varð engum vært í Nauthúsum eftir það.

Nánar um Nauthúsagil á www.katlageopark.is