Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Myndarlegur hagvöxtur 2018 þrátt fyrir blikur á lofti

Myndarlegan hagvöxt á árinu 2018 má að miklu leyti þakka því að innflutningur jókst nánast ekkert á milli ára. Skýr merki eru um að umsvif í hagkerfinu hafi aukist minna eftir því sem leið á nýliðið ár.


Vöxtur þjóðarútgjalda á síðasta ári var sá hægasti í 5 ár og útflutningur hefur ekki vaxið minna síðan árið 2012. Myndarlegan hagvöxt á árinu 2018 má hins vegar ekki síst þakka því að innflutningur jókst nánast ekkert á milli ára. Skýr merki eru um að umsvif í hagkerfinu hafi aukist minna eftir því sem leið á nýliðið ár.

Innflutningurinn til bjargar?

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar var hagvöxtur á árinu 2018 4,9%. Það er nokkru meiri vöxtur en við höfðum vænst (3,7%). Munurinn liggur að stærstum hluta í talsvert jákvæðara framlagi utanríkisviðskipta en við bjuggumst við, sem aftur á fyrst og fremst rót í afar litlum innflutningsvexti milli ára.

Eins og sjá má af myndinni hefur samsetning hagvaxtar gerbreyst undanfarið. Útflutningur, sem var helsti drifkraftur vaxtar um miðbik áratugarins, lagði lítið til vaxtar á síðasta ári. Að sama skapi hefur hlutur fjárfestingar í heildarvextinum minnkað verulega síðustu árin. Á móti vegur svo að einkaneysluvöxtur er enn allmyndarlegur og síðast en ekki síst vó innflutningur ekkert til þess að draga úr vexti í fyrra, öfugt við árin á undan.

Sé skyggnst aðeins dýpra í tölurnar kemur á daginn að skýringin á þessu óvenjulega framlagi innflutnings til vaxtar liggur í því að vöruinnflutningur minnkaði um 4% á síðasta ári frá árinu á undan. Hins vegar lagði þjónustuútflutningur ekkert til hagvaxtar á síðasta ári eftir að hafa gegnt lykilhlutverki í vexti árin á undan. Breytt þróun í ferðaþjónustu vegur allþungt þarna. Eins og fram kom í Korni okkar um daginn jukust tekjur þjóðarbúsins af ferðalögum milli landa um tæp 5% á síðasta ári og var það mun hægari vöxtur en verið hafði árin á undan.

Fyrsti samdráttur í fjárfestingu atvinnuvega í 5 ár

Það er víðar sem samsetning vaxtar hefur breyst samkvæmt tölum Hagstofunnar. Vöxtur fjárfestingar á síðasta ári var borinn uppi af ríflega 23% vexti fjárfestingar hins opinbera og 18% vexti íbúðafjárfestingar. Hins vegar brá svo við í fyrra að atvinnuvegafjárfesting skrapp saman um ríflega 4% en það gerðist síðast árið 2013. Þótt einstakir liðir á borð við afhendingu Hvalfjarðarganga frá Speli til ríkisins (sem kemur til frádráttar í atvinnuvegafjárfestingu en aukningar á fjárfestingu hins opinbera) ýki undirliggjandi þróun eru skýrar vísbendingar um að atvinnulífið haldi að sér höndum í vaxandi mæli hvað fjárfestingu varðar á meðan stigið er allfast á bensíngjöfina í fjárfestingum hjá hinu opinbera sem og íbúðafjárfestingum.

Hægari einkaneysluvöxtur upp á síðkastið

Einkaneysla óx um 4,8% á liðnu ári. Var það hægari vöxtur en tvö árin á undan, en engu að síður allmyndarlegur vöxtur. Áhugavert er hins vegar að skoða þróun einkaneyslunnar undanfarna ársfjórðunga. Eins og sjá má af myndinni hefur dregið jafnt og þétt úr vaxtarhraðanum eftir býsna hraðan einkaneysluvöxt frá miðju ári 2015 og fram á seinni hluta ársins 2017. Rímar þetta við þróun þeirra hagvísa sem gefa hvað skýrasta mynd af þróun einkaneyslunnar, en þeir gefa til kynna að heimilin hafi haldið öllu fastar um budduna eftir því sem óvissa um skammtímahorfur jókst á síðasta ári.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Senda tölvupóst