Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Myndarlegur efnahagsbati á síðasta ári

4,3% hagvöxt á síðasta ári má að stærstum hluta þakka góðum vexti innlendrar eftirspurnar en aukinn útflutningur lagði einnig sitt lóð á vogarskálarnar. Fjárfestingarvöxtur atvinnuvega í fyrra var sá hraðasti í sex ár og einkaneysla er nú orðin nokkru meiri en fyrir faraldur. Horfur eru á góðum hagvexti næstu misserin en skammtíma óvissa hefur aukist vegna stríðsins í Úkraínu.


Hagvöxtur á síðasta ári var 4,3% samkvæmt nýlega birtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Er það í ágætu samræmi við áætlun okkar frá janúar sl. um 4,1% hagvöxt. Vöxturinn kemur i kjölfarið á 7,1% samdrætti vergrar landsframleiðslu (VLF) á árinu 2020 en fyrri tölur Hagstofu höfðu metið samdráttinn 6,5%. Landsframleiðsla á síðasta ári var því 3% minni en á árinu 2019 þrátt fyrir myndarlegan vöxt í fyrra. Hagvöxturinn í fyrra skrifast að mestu á myndarlegan vöxt innlendrar eftirspurnar en útflutningur tók þó einnig ágætlega við sér á síðasta ári. Á móti vó umtalsverður vöxtur innflutnings og raunar var framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar neikvætt á síðasta ári þar sem innflutningsvöxturinn var hraðari en vöxtur útflutnings.

Hagvöxtur á mann árið 2021 var 2,5% enda var fólksfjölgun í fyrra 1,8% samkvæmt áætlun Hagstofunnar. Þessi stærð skiptir máli fyrir útreikning á komandi hagvaxtarauka vegna Lífskjarasamninganna þar sem hann byggir á framangreindu mati á hagvexti á mann.

Hægari vöxtur á lokafjórðungi ársins

Heldur dró úr vaxtarhraða hagkerfisins á lokafjórðungi síðasta árs eftir býsna myndarlegan vöxt fjórðungana tvo á undan. Þar spila grunnáhrif lykilhlutverk enda var samdrátturinn í VLF mun krappari á öðrum og þriðja fjórðungi ársins 2020 heldur en á lokafjórðungi þess árs. Raunar eiga ársfjórðungstölur í þjóðhagsreikningum Hagstofu til að breytast töluvert frá bráðabirgðatölum þegar betri gögn berast um skiptingu einstakra undirliða milli fjórðunga svo við teljum rétt að rýna ekki of mikið í þær tölur að sinni. Einkaneysluvöxtur var þó býsna myndarlegur á síðasta fjórðungi liðins árs og kemur það vel heim og saman við kortaveltutölur. Á móti dró úr vexti fjármunamyndunar og útflutnings frá fjórðungunum á undan á meðan meiri vöxtur hljóp í innflutning.

Viðsnúningur í útflutningi en innflutningsvöxtur mikill

Eftir snarpan samdrátt í útflutningi á árinu 2020 varð þar viðsnúningur á síðasta ári. Alls jókst útflutningur um 12,4% í magni mælt á árinu 2021. Þar var fimmtungs aukning  þjónustuútflutnings þyngst á metunum en hana má að stórum hluta þakka 44% fjölgun ferðamanna á milli ára ásamt því að breytt ferðamynstur jók við virðisauka af hverjum ferðamanni samanborið við síðustu ár. Auk þess jókst vöruútflutningur um tæplega 8% á tímabilinu. Sem fyrr segir var þó enn meiri kraftur í innflutningsvexti. Innflutningur jókst á heildina litið um rúm 20% í fyrra og var vaxtarhraðinn svipaður í vöru- og þjónustuinnflutningi.

Skýringin í miklum innflutningsvexti í fyrra liggur raunar að stórum hluta í vexti einkaneyslu og fjárfestingar. Fjárfestingin er sér í lagi oftast innflutningsfrek. Þannig endurspeglast fjárfesting í skipum og flugvélum alfarið í innflutningstölum og svipaða sögu má segja af véla- og tækjabúnaði hvers konar. Auk þess þarf umtalsverð innflutt aðföng fyrir mannvirkjagerð að öllu tagi. Það er því að okkar mati ekki sérstakt áhyggjuefni þótt utanríkisviðskiptin hafi orðið til þess að draga úr vaxtartaktinum í fyrra enda eru horfur á viðsnúningi í þeim efnum í ár auk þess sem innfluttar fjárfestingarvörur hafa á endanum þann tilgang að stuðla að vexti útflutnings og hagvexti almennt þegar fram í sækir.

Vaxtarkippur í fjárfestingu

Fjármunamyndun tók einmitt hraustlega við sér á síðasta ári eftir tveggja ára samdráttarskeið. Alls nam fjárfestingarvöxturinn 13,6% á árinu 2020. Fjármunamyndun atvinnuveganna átti drýgstan þátt í heildarvextinum enda vegur slík fjárfesting alla jafna álíka þyngra en íbúðafjárfesting og fjárfesting hins opinbera samanlagt. Atvinnuvegafjárfesting óx um ríflega 23% á síðasta ári og hefur hún ekki aukist hraðar frá árinu 2015.  Sér í lagi var vöxturinn mikill á milli ára í farartækjum hvers konar. Fjárfesting í skipum og flugvélum jókst til að mynda um 154% á milli ára og mikill vöxtur var einnig í fjárfestingu í fólksbifreiðum (118%) en þar teljast t.d. með bifreiðakaup bílaleiga og fjárfesting í langferðabílum. Þá jókst innflutningur stórvirkra vinnuvéla um 28% á milli ára. Mun hægari var vöxturinn í mannvirkjafjárfestingu, eða 6%.

Auk atvinnuvegafjárfestingar óx fjármunamyndun hins opinbera talsvert en samkvæmt tölum Hagstofunnar var slík fjárfesting ríflega 12% meiri í fyrra en árið á undan. Hins vegar skrapp fjárfesting í íbúðarhúsnæði saman um rúmlega 4% á árinu 2021 eftir rúmlega 1% vöxt árið á undan. Hagstofan bendir þó á að þrátt fyrir samdrátt í fyrra hafi fjárfesting í íbúðarhúsnæði verið mikil í sögulegu ljósi rétt eins og árin tvö þar á undan. Sem hlutfall að VLF var slík fjárfesting til að mynda 5,5% á árinu 2021 en meðaltal tveggja áratuganna þar á undan er 4,1%. Þá tvöfaldaðist fjöldi íbúða á fyrsta byggingarstigi á árinu samkvæmt tölum Hagstofunnar, úr 1400 á lokafjórðungi ársins 2020 í rúm 3000 á lokafjórðungi síðasta árs. Veit það á gott fyrir vaxandi framboð íbúða þegar fram í sækir.

Innflutt neysla leiddi einkaneysluvöxt

Einkaneysla tók hressilega við sér á síðasta ári eftir 2,9% samdrátt árið 2020. Einkaneysluvöxturinn nam 7,6% á árinu 2021 samanborið við árið á undan. Raunar var einkaneyslan í fyrra 4,4% meiri að raungildi en árið 2019 og því má segja að neysla landsmanna hafi náð sér að fullu eftir faraldurinn og gott betur. Vöxturinn var sérstaklega hraður í innfluttri neyslu sem á eins og fyrr segir talsverðan þátt í miklum innflutningsvexti á síðasta ári. Til að mynda jukust útgjöld Íslendinga erlendis um rúm 29% að raungildi milli ára og kaup á nýjum bifreiðum uxu um þriðjung á árinu 2021 frá árinu á undan.

Góðar hagvaxtarhorfur en aukin óvissa
Horfur eru á áframhaldandi myndarlegum hagvexti á komandi misserum. Í þjóðhagsspá okkar sem gefin var út í janúar var því spáð að hagvöxtur muni reynast 4,7% í ár og u.þ.b. 3% hvort áranna 2023 og 2024. Ef eitthvað er hafa vaxtarhorfur fyrir yfirstandandi ár batnað síðan þar sem útlit er fyrir hraðari fjölgun ferðamanna en við gerðum ráð fyrir í ársbyrjun. Gangi spáin eftir verður VLF tæplega 2% meiri í ár en árið 2019 áður en faraldurinn skall á.

Vöxturinn í spá okkar byggir að mestu á myndarlegum vexti útflutnings og áframhaldandi neysluvexti ásamt hóflegum vexti fjármunamyndunar. Hins vegar þarf vart að nefna að óvissa um nærhorfur hefur aukist umtalsvert eftir innrás Rússa inn í Úkraínu þótt enn sé ekki tímabært að slá mati á áhrif átakanna á efnahagsþróun hérlendis frekar en á heimsvísu.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband