Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Myndarlegur afgangur af þjónustuviðskiptum þrátt fyrir COVID

Mettekjur af sölu hugverka eiga stærstan þátt í myndarlegum afgangi af þjónustuviðskiptum á lokafjórðungi síðasta árs. Sjávarútvegurinn endurheimti í fyrra sinn gamla sess sem stærsta útflutningsgreinin og stóð undir 27% útflutningstekna. Þrátt fyrir þungt högg á útflutningsgreinar voru utanríkisviðskipti í fyrra í betra jafnvægi en við höfðum þorað að vona.


Vöru- og þjónustuviðskipti við útlönd voru öllu hagfelldari á síðasta ári en við höfðum búist við og óhætt er að segja að útkoma ársins sé mun þokkalegri en flestir bjuggust væntanlega við eftir að Kórónukreppan hafði grafið um sig á fyrsta þriðjungi síðasta árs. Í nýbirtum tölum frá Hagstofunni kemur fram að vöru- og þjónustujöfnuður á lokafjórðungi síðasta árs var jákvæður um tæplega 11 ma.kr. Þegar lá fyrir að vöruskiptahalli var 15,5 ma.kr. Afgangur af þjónustuviðskiptum vó þó þyngra en hann var 26,4 ma.kr.

Það er í raun býsna merkilegt að svo myndarlegur afgangur mælist af þjónustuviðskiptum í ljósi þess að stærsti tekjupósturinn, ferðaþjónusta, liggur í dvala um þessar mundir og ferðamenn til landsins hafa síðan í fyrrahaust einungis verið lítið brot af fjölda síðustu ára vegna Covid-19 faraldursins og sóttvarnaaðgerða gegn honum.

Þegar nánar er rýnt í tölurnar kemur á daginn að stærstan hluta þessa myndarlega afgangs má rekja til tekna af notkun hugverka innlendra aðila á erlendri grundu. Hreinar tekjur af þessu tagi námu rúmum 34 mö.kr. og hafa aldrei verið meiri, en oft er lokafjórðungur ársins sérstaklega drjúgur í þessum lið. Fram kemur í frétt Hagstofunnar að vaxandi tekjur í lyfjaiðnaði skýri þetta jákvæða met. Aðrir helstu liðir voru á heildina litið nálægt jafnvægi á 4. ársfjórðungi.

Sá hluti þjónustujafnaðarins sem helst tengist ferðaþjónustunni hefur undanfarin ár skilað drjúgum afgangi. Frá því Kórónukreppan skall á hefur þar orðið umtalsverð breyting á. Góðu heilli hafa þó útgjöld tengd ferðaþjónustunni einnig skroppið verulega saman. Kemur það bæði til af miklum samdrætti í utanlandsferðum landsmanna en einnig af minni þjónustukaupum og leigugjöldum flutningafyrirtækja. Hefur því verið þokkalegt jafnvægi á milli tekna og gjalda vegna ferðaþjónustu þótt ferðamenn hér á landi séu fáir þessa dagana enda eru landsmenn að sama skapi fátíðir gestir á erlendri grundu um þessar mundir.

Útflutningstekjur þjóðarbúsins hafa orðið fyrir þungu höggi vegna COVID-19 og sóttvarnaraðgerða hérlendis sem erlendis. Tilfinnanlegast er höggið að sjálfsögðu í ferðaþjónustunni. Tekjur af erlendum ferðamönnum voru 117 ma.kr. á síðasta ári samkvæmt Hagstofunni, en til samanburðar voru þessar tekjur 470 ma.kr. árið 2019. Tekjur ferðaþjónustunnar námu tæplega 12% af heildar útfluitningstekjum Íslands í fyrra.

Fyrir vikið endurheimti sjávarútvegurinn sinn gamla sess sem stærsta útflutningsgrein þjóðarbúsins. Alls skilaði útflutningur sjávarafurða 270 ma.kr. tekjum á síðasta ári, sem samsvarar 27% af heildar útflutningstekjum landsins. Áliðnaður skilaði 208 mö.kr. tekjum (21% af heild) og útflutningur annara iðnaðarvara 91 ma.kr. (9%).

Sem fyrr segir er útkoma síðasta árs hvað utanríkisviðskipti varðar betri en flestir, þar á meðal við, þorðu að vona. Vöruskiptahalli reyndist 90,3 ma.kr. í fyrra en afgangur af þjónustuviðskiptum var 72,8 ma.kr. Samanlagður halli á vöru- og þjónustuviðskiptum var því 17,5 ma.kr. Þessi útkoma endurspeglar þá miklu breytingu sem varð á neysluhegðun landsmanna og fjárfestingu á síðasta ári. Samdráttur í einkaneyslu var nær alfarið á erlendri grundu á síðasta ári. Utanlandsferðum fækkaði mikið, verslun á fötum og ýmiskonar hálfvaranlegum neysluvörum á borð við smærri tæki og lífsstílsvörur færðist nær alfarið inn fyrir landsteinana og innlend hótel og veitingastaðir utan höfuðborgarsvæðis nutu góðs af ferðagleði landans innanlands. Þá dró samdráttur í fjárfestingu að sama skapi verulega úr innflutningi fjárfestingarvara sem oft eru stór hluti af heildarfjárfestingu, sér í lagi fjárfestingu fyrirtækja.

Næstkomandi þriðjudag birtir Seðlabankinn tölur um viðskiptajöfnuð á árinu 2020. Líklegt er að síðasta ár hafi lítilsháttar afgangur verið af viðskiptajöfnuði þar sem afgangur af þáttatekjum hefur verið allnokkur undanfarin misseri. Vegur hann væntanlega upp framangreindan halla ásamt halla af framlögum milli landa í tölum bankans. Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar á ári þar sem u.þ.b. þriðjungur útflutningstekna þjóðarbúsins glataðist beint eða óbeint vegna COVID-faraldursins.

Með endurkomu ferðaþjónustunnar seinna á árinu eru að mati okkar miklar líkur á því að utanríkisviðskiptin færist aftur í átt til meiri afgangs. Stoðir þjóðarbúsins eru mun sterkari en áður hvað þetta varðar og teljum við að nýleg áraun á utanríkisviðskiptin í boði Kórónuveirunnar sýni það skýrt.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband