Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Myndarleg viðbragðsskref stigin af Seðlabankanum

Lækkun stýrivaxta og eiginfjárkvaða á viðskiptabanka er kærkomið viðbragð við ört dökknandi efnahagshorfum. Þau skref sem þegar hafa verið stigin af stjórnvöldum munu milda umtalsvert efnahagshögg komandi fjórðunga en mikilvægt er að fleiri aðilar leggist á árar sem fyrst.


Seðlabankinn tilkynnti í morgun að peningastefnunefnd bankans hefði ákveðið á lækka stýrivexti um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans verða því 1,75% og hafa þar með lækkað um 1 prósentu á viku. Þá tilkynnti bankinn einnig að fjármálastöðugleikanefnd hans hefði ákveðið að aflétta 2% kröfu um sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki. Var auk þess tekið fram að sveiflujöfnunaraukinn yrði ekki lagður á að nýju fyrr en í fyrsta lagi að tveimur árum liðnum. Ákvörðun fjármálastöðugleikanefndar er í samræmi við aðgerðir yfirvalda í öðrum Evrópuríkjum, en þar hafa slíkir aukar verið ýmist lækkaðir verulega eða afnumdir með öllu. Þessar aðgerðir eru hluti mótvægisaðgerða gegn efnahagslegum áhrifum af Kórónuveirufaraldrinum og aðgerðum til að stemma stigu við útbreiðslu hans.

Afnám sveiflujöfnunarauka eykur svigrúm banka

Afnám sveiflujöfnunaraukans hefur umtalsverð áhrif á útlánagetu bankanna. Áætlar fjármálastöðugleikanefndin að aukið svigrúm til útlána verði að öðru óbreyttu allt að 350 ma.kr., sem samsvarar um 12,5% af núverandi útlánasafni bankanna. Við höfum áður bent á að þarft væri að minnka eiginfjárkröfur til bankanna enda er núna rétti tíminn til að ganga að einhverjum hluta á það mikla eigið fé sem bankakerfið hefur yfir að ráða.

Fram kom í máli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra að eiginfjárstaða bankakerfisins væri nú í grennd við 25% og óvenju sterk í samanburði við önnur þróuð lönd. Ásgeir vildi þó halda því til haga að rétt hefði verið að láta hækkun sveiflujöfnunaraukans þann 1. febrúar síðastliðinn koma til framkvæmda. Þá væri það alger forsenda fyrir lækkun sveiflujöfnunarauka að það verði engar arðgreiðslur þetta árið. Almennt skilyrði fyrir tilslökun til bankakerfisins þessa dagana væri að það fé sem losnar verði áfram „inni í bönkunum“ eins og Ásgeir orðaði það. M.ö.o. nýti bankarnir þetta svigrúm til þess að gera sitt til að milda höggið sem Kórónaveirufaraldurinn og aðgerðir til varnar honum munu hafa á íslenskt hagkerfi næsta kastið.

Gengislækkun krónu ekki óeðlileg

Gengi krónu hefur lækkað um ríflega 10% frá áramótum og hefur Seðlabankinn leitast við að minnka skammtímahreyfingar á gjaldeyrismarkaði síðustu vikur með sölu gjaldeyris úr forða sínum fyrir u.þ.b. 8 ma.kr. Seðlabankastjóri tók hins vegar fram á kynningarfundi í morgun að bankinn hefði ekki beitt sér á gjaldeyrismarkaði það sem af er þessarar viku. Að mati hans er þessi gengisveiking síðustu vikna að einhverju leyti holl þar sem hún bætir samkeppnisstöðu útflutningsgreina og gefur meiri viðspyrnu þegar rofa fer til að nýju.

Ásgeir vísaði einnig til tilmæla sem Landssamtök lífeyrissjóða beindu til sjóðanna í kjölfar fundar með Seðlabankanum um að hlé yrði gert á kaupum erlendra eigna næsta kastið. Benti hann á að fjárfestingar sjóðanna erlendis hefðu numið u.þ.b. 120 mö.kr. í fyrra og þar með vegið að stórum hluta á móti ríflega 170 ma.kr. viðskiptaafgangi árið 2019. Við hæfi væri að slíkt hlé væri gert þegar útflutningstekjur minnkuðu tímabundið enda væru allar líkur á að nægur tími myndi gefast síðar til að taka upp þráðinn við kaup erlendra eigna. Þá taldi seðlabankastjóri líklegt að meira jafnvægi kæmist fljótlega á gjaldeyrismarkað.

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, bætti því við að ekki væri víst að verðbólguviðbrögð yrðu mikil þrátt fyrir veikingu krónu undanfarið. Minni eftirspurn í hagkerfinu myndi til að mynda vega á móti. Í hagspá bankans í janúar var gert ráð fyrir verðbólgu undir markmiði allt þetta ár. Taldi Þórarinn að verðbólga gæti farið tímabundið eitthvað yfir markmið á þessu ári. Allar áhyggjur af því að verðbólga fari úr böndunum á komandi misserum væru hins vegar óþarfar. Þróun verðbólguálags á markaði bendir raunar til þess að markaðsaðilar séu á svipaðri skoðun og Þórarinn. Álagið hefur haldist tiltölulega hófleg og er langtíma verðbólguálag á markaði í kring um 2,6% þegar þetta er ritað.

Aðspurður sagði Þórarinn það ótímabært að gefa út uppfærðar spár eða sviðsmyndir af efnahagsþróun næstu missera opinberlega. Enn væri óvissa of mikil og þróunin of hröð til þess að slíkar spár hefðu gildi. Þó væru að hans mati ljóst að það yrði líklega samdráttur í landsframleiðslu á þessu ári. Hins vegar væru ágætar forsendur fyrir því að efnahagsbatinn hæfist strax á næsta ári.

Sterk skilaboð auka traust

Óhætt er að segja að skilaboð Seðlabankans í dag hafi verið skýr og afdráttarlaus. Ásgeir seðlabankastjóri tók fram að bæði fjármálastöðugleikanefnd og peningastefnunefnd hefðu verið einhuga í ákvörðunum morgunsins. Þá hefði sameinaður Seðlabanki (í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið sameinaðist bankanum um síðastliðin áramót) ótal tæki og tól til að bregðast við núverandi aðstæðum. Enn væru fjölmörg tæki ónýtt í kistunni. Orðaði seðlabankastjóri það sem svo að þau væru bara rétt að byrja! Þá myndi Seðlabankinn sjá bönkunum fyrir því lausafé sem þeir þyrftu næsta kastið. Einnig hefði peningastefnunefnd heimild til að samþykkja kaup Seðlabankans á ríkisbréfum líkt og seðlabankar víða um heim hafa gert undanfarinn áratug í því skyni að lækka langtímavexti. Ekki hefði hins vegar verið rætt um útfærslu á slíku. Aðrir seðlabankar væru margir hverjir með stýrivexti við núll og þá væri farið í slíka magnbundna íhlutun. Enn væri hins vegar rými til að lækka vextina hér.

Von er á útfærslu á mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar á næstu dögum. Verður þar vonandi stigið annað veigamikið skref í viðbrögðum við efnahagsáfallinu, en efnahags- og fjármálaráðherra hefur nefnt að líklegt væri að halli á rekstri ríkissjóðs yrði á bilinu 100 – 200 ma.kr. þetta árið. Þá væri það þarft að sveitastjórnarstigið kæmi fljótlega fram með viðbrögð af einhverju tagi. Þau skref sem þegar hafa verið stigin eru hins vegar að okkar mati til þess fallin að milda umtalsvert efnahagshöggið á næstunni og hraða bata hagkerfisins á nýjan leik þegar rofa fer til.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband