Var þetta í fyrsta skiptið frá febrúar 2020 sem öll atkvæði féllu ekki með tillögu Seðlabankastjóra, en þá hafði einn nefndarmaður (Gylfi) lagst gegn stýrivaxtalækkun. Hins vegar hefur ekki verið svo mjótt á mununum í atkvæðagreiðslu um vaxtaákvörðunina í fimm ár. Í nóvember 2016 kusu tveir nefndarmenn gegn uppástungu um óbreytta vexti og vildu lækka vextina um 0,25 prósentur. Skoðanir innan peningastefnunefndarinnar eru því augljóslega óvenju skiptar þessa dagana.
Skoðun framangreindra tveggja nefndarmanna að hærri vaxta sér þörf er greinilega orðin enn eindregnari en áður og má geta sér þess til að þeir muni áfram leggjast á vaxtahækkunarhliðina við næstu vaxtaákvörðun um miðjan nóvember nk.
Samhljómur um að hækka vexti
Þrátt fyrir skiptar skoðanir um stærðina á hækkunarskrefinu voru allir nefndarmenn sammála um að hækka ætti vexti og voru 0,25 eða 0,50 prósentu skref rædd.
Helstu rök fyrir 0,25 prósentu hækkun voru:
- Nokkur óvissa er enn um alþjóðlegar efnahagshorfur
- Óvissa er um þróun á vinnumarkaði þegar dregið verður úr stuðningsaðgerðum stjórnvalda
- Hluta verðbólgunnar má skýra með tímabundnum þáttum á borð við framboðshnökra erlendis
- Töluverð óvissa er um samspil vaxtahækkana og nýlega beitingu þjóðhagsvarúðartækja sem eru á forræði fjármálastöðugleikanefndar. Þar er um að ræða lækkun á hámarks lánsfjárhlutfalli sem tilkynnt var um mitt ár og innleiðingu 35% hámarks á greiðslubyrði í hlutfalli við ráðstöfunartekjur með tilteknum undantekningum, sem tilkynnt var í lok september sl.
- Miðlun peningastefnunnar er líklega hraðari en áður vegna hærra hlutfalls óverðtryggðra íbúðalána á breytilegum vöxtum
Helstu rök fyrir 0,50% prósentu hækkun:
- Efnahagsumsvif hafa tekið verulega við sér. Þar vísa nefndarmenn í miklar verðhækkanir á fasteignamarkaði, mikinn útlánavöxt til heimila og skort á vinnuafli í ákveðnum greinum
- Þriðjungur fyrirtækja á í erfiðleikum að ráða í lausar stöður
- Hætta er á aukinni innfluttri verðbólgu á næstu misserum
- Kannanir sýna útbreiddar væntingar meðal stjórnenda fyrirtækja um verðhækkanir, bæði á aðföngum og eigin vörum og þjónustu
- Svo vitnað sé orðrétt í fundargerðina þá er „..mikilvægt að herða taumhald peningastefnunnar af ákveðni til þess að lágmarka hættuna á að verðbólga yrði enn þrálátari og bregðast af krafti við hækkun langtímaverðbólguvæntinga.“