Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Minni sól í sinni neytenda í júní

Þrátt fyrir sólríkan júnímánuð hefur lund landsmanna þyngst umtalsvert í mánuðinum hvað efnahag og atvinnulíf varðar. Það má lesa úr nýrri mælingu á Væntingavísitölu Gallup. Neysluvilji landans virðist þó staðfastur enn sem komið er en þar kann að verða breyting á með lækkandi sól.


Þrátt fyrir sólríkan júnímánuð hefur lund landsmanna þyngst umtalsvert í mánuðinum hvað efnahag og atvinnulíf varðar. Það má lesa úr nýrri mælingu á Væntingavísitölu Gallup. Vísitalan lækkar um 13,6 stig á milli mánaða og hefur ekki verið lægri frá áramótum. Lækkunin skrifast nær alfarið á umtalsverða lækkun væntinga til atvinnu- og efnahagsástandsins að 6 mánuðum liðnum. Sú vísitala lækkar úr 75 stigum í ríflega 52 stig milli mánaða og eru því flestir svarendur á því að ástandið verði verra að hálfu ári liðnu en það er nú. Litlar breytingar eru hins vegar á mati íslenskra neytenda á núverandi ástandi efnahagslífsins og vinnumarkaðar. Er þar meirihluti svarenda á því að staðan nú sé góð, enda mælist viðkomandi vísitala ríflega 127 stig.

Meiri húsnæðiskaupahugur

Gallup birti einnig niðurstöður úr ársfjórðungslegri mælingu á stórkaupavísitölu sinni. Stórkaupavísitalan hækkaði um 1 stig á milli fjórðunga og er hún 2 stigum hærri en á sama tíma í fyrra. Heimilin virðast því almennt ekki vera að rifa seglin að ráði hvað varðar stærri neysluákvarðanir á borð við bifreiðakaup, utanlandsferðir og húsnæðiskaup.

15% aðspurðra töldu annað hvort frekar eða mjög líklegt að þeir myndu kaupa bifreið á komandi fjórðungum. Viðkomandi vísitala mælist nú ríflega 27 stig og hækkar um 2 stig frá sama tíma í fyrra. Athygli vekur að á sama tíma og talsverður hugur virðist í landsmönnum varðandi bílakaup hefur nýskráningum bifreiða fækkað verulega undanfarna fjórðunga. Nýskráningarnar voru þó álíka margar á fyrsta fjórðungi ársins og á svipuðum tíma fyrir þremur árum.

Þá dregur heldur úr útþrá landans um þessar mundir ef marka má fyrirhugaðar utanlandsferðir svarenda í könnun Gallup. Viðkomandi vísitala mælist nú tæp 169 stig og er þar með 2 stigum lægri en á sama tíma í fyrra. Þó gæti eins verið að júnísólin hafi haft áhrif á svörin hér, en fyrir ári síðan var vart hundi út sigandi vegna rigningar og ýmsir því væntanlega litið sólríkari lönd hýru auga þá.

Mestu tíðindin í stórkaupavísitölunni er þó að finna í undirvísitölu fyrirhugaðra húsnæðiskaupa. Vísitalan sú mælist nú ríflega 14 stig en stóð í tæpum 9 stigum fyrir ári síðan. Alls hyggja 8% svarenda á húsnæðiskaup á næstunni og hefur áhugi á húsnæðiskaupum ekki mælst jafn mikill í könnun Gallup frá því herrans ári 2007. Það er því útlit fyrir að íbúðamarkaður kunni að verða nokkuð líflegur á komandi fjórðungum ef marka má framangreindar niðurstöður.

Meiri töggur í einkaneyslunni á vordögum en útlit var fyrir?

Væntingavísitalan ásamt stórkaupavísitölunni gefa áhugaverðar vísbendingar um mögulega þróun einkaneyslu. Þótt júnígildi VVG endurspegli vaxandi svartsýni meðal íslenskra heimila var meðaltal 2. ársfjórðungs nánast hið sama og meðaltal 1. ársfjórðungs. Kortaveltutölur fyrir apríl og maí birta áþekka mynd af þróuninni á fyrri árshelmingi. Líkt og Seðlabankinn minntist á við vaxtaákvörðun sína í vikunni kann því að reynast meiri seigla í einkaneysluvexti landsmanna enn sem komið er en margir bjuggust við eftir fall WOW Air og versnandi horfur á vinnumarkaði í kjölfarið. Við teljum þó að tímans þungi straumur muni á endanum vinna á þessum staðfasta neysluvilja íslenskra heimila og að heimilin muni almennt halda meira að sér höndum á seinni helmingi ársins.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband