Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Millistéttin í Asíu og enska úrvalsdeildin

Helmingur liðanna í ensku úrvalsdeildinni hafa nú auglýsingar á maganum sem nær alfarið er ætlað að ná til asískra áhorfenda.


Pistillinn birtist fyrst sem innslag í Vellinum á Símanum sporti.

Hvaða áhrif getur það haft á enska boltann að milljarður manna bætist við millistéttina í Asíu næsta áratuginn eða svo?

Við höfum þegar séð vísbendingar um það. Tekjur af sölu sjónvarpsréttar utan Bretlands hafa sem dæmi sjöfaldast og vaxið umtalsvert hraðar en innanlands undanfarinn áratug.  Tekjur af sölu auglýsinga hafa rokið upp úr öllu valdi, ekki síst vegna aukins áhuga í austurlöndum og æfingaferðir og mót í Asíu eru áberandi á hverju sumri. Loks hefur helmingur liðanna í úrvalsdeildinni  nú auglýsingar á maganum sem nær alfarið er ætlað að ná til asískra áhorfenda. Þetta er engin tilviljun.

Með stækkun millistéttarinnar gefst fleirum færi á að verja peningum í áhugamálin sín og fótbolti er ofarlega á lista hjá mörgum.

En hvaða treyju munu krakkarnir í Víetnam og Indónesíu biðja um? Er ekki nokkuð sennilegt að eitthvað stóru liðanna verði fyrir valinu en Norwich og Wolves höfði til mikils minnihluta?

Hin tiltölulega jafna skipting sjónvarpsréttar, þar sem enginn fær meira en 80% hærri greiðslur en annar, á ekki við þegar kemur að markaðssetningu.

Sem dæmi má nefna að Manchester United fær ríflega 20 sinnum meira á ári fyrir Chevrolet auglýsinguna sína en Norwich og það er sennilega bara sanngjarnt. Auglýsing Kohler, á ermum búninga United, kostar jafn mikið og magarnir á treyjum Brighton, Sheffield United, Leicester, Bournemouth og Aston Villa til samans.

Ein helstu tækifæri ensku úrvalsdeildarliðanna í framtíðinni verða á meðal hinnar vaxandi millistéttar í Asíu.

Það skyldi þó aldrei vera að það hafi bara verið mjög góð hugmynd hjá Vincent Tan, nýjum eiganda Icelandair hótela og eiganda Cardiff, þegar hann reyndi að skipta um lit á liðinu til að ná betur til Asíska markhópsins?

Höfundur


Björn Berg Gunnarsson

Deildarstjóri Greiningar og fræðslu


Senda tölvupóst