Samkvæmt nýbirtum kortaveltutölum frá Seðlabankanum nam heildarvelta innlendra greiðslukorta 84,5 mö.kr. í marsmánuði. Það samsvarar um 15% aukningu frá sama mánuði í fyrra. Ef tekið er tillit til verðlags- og gengisbreytinga jókst kortavelta landsmanna hins vegar um 21% frá sama mánuði í fyrra og hefur slíkur vöxtur ekki sést síðan á góðærisárinu 2007.
Þessi gríðarlegi vöxtur milli ára á sér þó nokkuð eðlilegar skýringar. Í marsmánuði í fyrra var mikil óvissa vegna Kórónukreppunnar og hófst svokölluð fyrsta bylgja COVID-19 hér á landi í lok febrúar og náði hámarki í mars. Samkomubann sem sett var á um miðjan mánuðinn hafði gífurleg áhrif á kortaveltutölur, bæði vegna óvissunnar sem ríkti en einnig vegna samkomutakmarkana.