Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Mikill vöxtur í innlendri kortaveltu milli ára

Myndarlegur vöxtur kortaveltu á milli ára í mars endurspeglar það að ár er nú liðið frá því Kórónukreppan skall af fullum þunga á íslenskum heimilum. Kortaveltan endurspeglar þó líka umtalsverða neyslugetu flestra landsmanna, breytt neyslumynstur og væntingar um betri tíð á endaspretti COVID-faraldursins.


Samkvæmt nýbirtum kortaveltutölum frá Seðlabankanum nam heildarvelta innlendra greiðslukorta 84,5 mö.kr. í marsmánuði. Það samsvarar um 15% aukningu frá sama mánuði í fyrra. Ef tekið er tillit til verðlags- og gengisbreytinga jókst kortavelta landsmanna hins vegar um 21% frá sama mánuði í fyrra og hefur slíkur vöxtur ekki sést síðan á góðærisárinu 2007.

Þessi gríðarlegi vöxtur milli ára á sér þó nokkuð eðlilegar skýringar. Í marsmánuði í fyrra var mikil óvissa vegna Kórónukreppunnar og hófst svokölluð fyrsta bylgja COVID-19 hér á landi í lok febrúar og náði hámarki í mars. Samkomubann sem sett var á um miðjan mánuðinn hafði gífurleg áhrif á kortaveltutölur, bæði vegna óvissunnar sem ríkti en einnig vegna samkomutakmarkana.

Það er engum blöðum um það að fletta að mikill munur er á þróun á kortaveltunni innanlands og utan þessi dægrin. Á meðan velta innanlands jókst um tæp 25% að raunvirði á milli ára dróst velta utan landsteinanna saman um 4%. Síðarnefndi samdrátturinn er þó mun minni en hefur verið uppi á síðkastið, en hann hefur mælst að meðaltali um 50% í hverjum mánuði síðastliðið ár. Ekki er óvarlegt að ætla að það styttist í að erlend kortavelta taki við sér á nýjan leik en það veltur á bólusetningum hérlendis sem og þróuninni á faraldrinum erlendis. Vöxtur kortanveltu innanlands endurspeglar hins vegar mikla tilfærslu á neyslumynstri landans yfir til innlendrar þjónustu og vöru enda hafa margir geirar innlendrar verslunar haldið sínu striki þrátt fyrir Kórónukreppu og sumir jafnvel blómstrað sem aldrei fyrr.

Þegar fyrsti ársfjórðungur er tekinn saman óx kortavelta heimilanna að raungildi um rúm 11% á fyrsta ársfjórðungi en kortavelta erlendis dróst saman um 37%. Alls jókst kortavelta heimilanna því um 2,8% að raungildi á fyrsta ársfjórðungi.

Faraldurinn stýrir ferðinni

Kortaveltuþróunin hefur haldist talsvert í hendur við framgang faraldursins innanlands. Samdráttur í kortaveltutölum hefur verið mestur þegar nýgengi smita innanlands hefur verið mikið. Það má því ætla að veltan innanlands taki við sér jafnt og þétt á komandi mánuðum eftir því sem fleiri verða bólusettir og smit halda vonandi áfram að vera fátíð hér innanlands.

Einkaneysla sækir í sig veðrið

Þróun einkaneyslu hefur verið áhugaverð undanfarið ár. Neyslan skrapp saman um 3,3% í fyrra eftir samfelldan vöxt í níu ár þar á undan. Einkaneyslan skrapp sér í lagi mikið saman erlendis en hélt velli hér innanlands í stórum dráttum. Kortavelta er sá hagvísir sem gefur gleggstu vísbendinguna um hvert stefnir í einkaneyslu landsmanna. Eins og sjá má á myndinni hefur fylgnin þarna á milli verið allsterk síðustu fjórðunga.

Vaxandi kaupmáttur launa þeirra sem haldið hafa vinnu sinni í Kórónukreppunni styður við einkaneysluna um þessar mundir. Kórónukreppan hefur því ekki haft mikil áhrif á pyngju þeirra sem haldið hafa vinnunni. Atvinnuleysi hefur hins vegar aukist mikið og samkvæmt nýjust tölum Vinnumálastofnunar nemur atvinnuleysi nú um 11%.

Líkt og við fjölluðum um nýlega hefur Væntingavísitalan ekki mælst hærri í þrjú ár og hefur þessi jákvæðni landans ásamt vexti í kortaveltutölum styrkt þá skoðun okkar að einkaneysla muni vaxa að nýju í ár. Í þjóðhagsspá okkar frá því í janúar spáðum við að um 2% vexti einkaneyslunnar í ár og ef eitthvað er gæti sú spá reynst hófleg að okkar mati.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband