Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Mikil ásókn í óverðtryggð húsnæðislán

Í fyrsta skipti er greiðslubyrði óverðtryggðra lána raunhæfur kostur fyrir mun fleiri en áður þekktist.


Um 40% allra lánveitinga Íslandsbanka undanfarin tvö til þrjú ár hafa verið vegna endurfjármögnunar. Þetta er mikil aukning frá því sem áður var, sem er auðskiljanlegt þegar horft er til þess hvernig markaðsaðstæður hafa breyst lántakendum í hag.  

Vextir hafa lækkað mikið og hafa sjaldan, ef nokkru sinni, verið lægri. Lántökukostnaður er mun viðráðanlegri en áður og kostnaður sem lántakendur bera vegna endurfjármögnunar lána með fasta vexti, hefur einnig dregist saman.  

Síðastliðna mánuði hefur verið mikil eftirspurn eftir breytilegum vöxtum sem bendir til þess að fólk horfi til stöðunnar við lántöku og hafi litlar áhyggjur af vaxtahækkunum á næstunni. Þessi þróun er þó skiljanleg ef horft er til þeirra lántakenda sem hafa hagnast hvað mest á vaxtalækkunum en það eru þeir sem eru með breytilega vexti, einkum á óverðtryggðum lánum. Verðtryggðir vextir hafa einnig lækkað en þó ekki jafn mikið og á óverðtryggðum. Í dag eru verðtryggðir vextir um 1% lægri en í byrjun síðasta árs á meðan óverðtryggðir breytilegir vextir eru allt að 2% lægri.    

Fleiri velja að hafa lánin sín óverðtryggð og þá sérstaklega „hrein“ óverðtryggð lán en þá er öll lánsfjárhæðin óverðtryggð í stað þess að skipta henni í verðtryggt að hluta og hluta óverðtryggt. Þessi þróun gæti einna helst skýrst af mikilli umræðu um óverðtryggð lán vegna þeirra vaxtalækkana sem lýst er hér að ofan og vegna þess að í fyrsta skipti er greiðslubyrði óverðtryggðra lána raunhæfur kostur fyrir mun fleiri en áður þekktist.  

Að því sögðu gætu vaxtahækkanir, komi til þeirra, haft mikil áhrif á þá lántakendur sem eru að spenna bogann hátt, eru að taka hrein óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum og eru með lítinn tekjuafgang þar sem þetta eru lánin sem sveiflast mest. Kæmi til vaxtahækkana er hægt að sækja um vaxtagreiðsluþak en það er þjónusta sem veitir lántakendum skjól fyrir sveiflum í greiðslubyrði vegna vaxtahækkana með því að festa vextina í fyrirfram skilgreindu hámarki.  

Hvenær er rétti tíminn til að endurfjármagna? 

Þegar eignamyndun hefur orðið í viðkomandi fasteign getur verið gott að skoða hvort hægt sé að endurfjármagna á betri kjörum. Oftast er talað um að vextir þurfi að hafa lækkað um 1% frá því lánin voru tekin til að það borgi sig að endurfjármagna þau en það fer einnig eftir aðstæðum hvers og eins. 

Þegar veðhlutfallið á eigninni hefur lækkað og eignamyndun hefur aukist myndast tækifæri fyrir fólk til að „taka til“ í lánunum hjá sér og sameina lán, ef fólk hefur verið með grunn- og viðbótarlán, í eitt grunnlán á hagstæðari kjörum. 

Vaxtalækkanirnar hafa haft minni áhrif á greiðslubyrði þeirra lána sem eru á föstum vöxtum, eðli máli samkvæmt, þar sem vextirnir haldast þeir sömu út fastvaxtatímabilið. Það gæti samt borgað sig að endurfjármagna fastvaxtalánin þar sem hægt er að ná þeim kostnaði til baka með lægri vaxtakostnaði á nýjum lánum. Hægt er að reikna út með frekar einföldum hætti hvort það borgi sig að endurfjármagna lán á föstum vöxtum og hversu langan tíma það muni borga sig til baka. Endurfjármögnun getur einnig verið valmöguleiki ef upp kemur tímabundinn greiðsluvandi svo sem vegna atvinnuleysis, veikinda eða annarra ástæðna og með því lækkað mánaðarlega greiðslubyrði.  

Í skýrslu Íslandsbanka frá því  í október kemur fram að markaðsvextir eru lægri en núverandi vextir íbúðalána heimilanna þrátt fyrir miklar endurfjármagnanir undanfarin ár. Þetta bendir til þess að ennþá eru einstaklingar hér á landi með gömul lán á hærri vöxtum en þau þyrftu að vera. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að fólk kynni sér þá markaðsvexti sem í boði eru hverju sinni með það fyrir augum að endurfjármagna og draga þar af leiðandi úr vaxtakostnaði.

Greinin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum

Höfundur


Linda Lyngmo

Verkefnastjóri


Senda tölvupóst