Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga í júlí sú mesta 10 mánuði

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,15% í júlí. Mælist 12 mánaða verðbólga nú 3,0% og hefur ekki mælst svo há síðan í september á síðasta ári. Verðbólgan er því að stíga lítið eitt yfir markmið Seðlabankans en þeim hefur gengið vel til að halda verðbólgu í skefjum síðastliðna mánuði þrátt fyrir mikla veikingu krónunnar. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 3,3% undanfarna 12 mánuði. því má segja að húsnæðisþátturinn sé að vega til lækkunar á verðbólgu í júlímánuði.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Mæling júlímánaðar er yfir öllum birtum spám en við var búist að útsölur í mánuðinum hefðu meiri áhrif en raun bar vitni. Við spáðum 0,1% lækkun á milli mánaða. Verð á fötum og skóm, húsgögnum og fleiri slíkum liðum lækkaði minna en við spáðum en en á móti hækkaði liðurinn Ferðir og flutningar eilítið minna en við áætluðum. Ætla má að nú þegar neysla hefur aukist á nýjan leik eftir talsverða veikingu íslenska gjaldmiðilsins hafi verðbólgan tekið eilítið við sér.

Í fréttatilkynningu sem Hagstofan birti samhliða nýjum tölum um vísitölu neysluverðs (VNV) segja þeir mælingu júlímánaðar hafa gengið vel fyrir sig að undanskildu því sem tengist samgöngum til og frá landinu, en þar eru enn frávik.

Minni afsláttur á útsölum en áður?

Helsti munur á milli spár Greiningar Íslandsbanka og júlítölum Hagstofunnar er liggur í ofmati okkar á verðlækkun í útsölum júlímánaðar. Liðurinn Föt og skór hefur lækkað að meðaltali um 11,2% í þessum mánuði síðastliðin 5 ár en að þessu sinni var lækkunin einungis tæp 4% (-0,13% í VNV). Verður fróðlegt að sjá hvort útsölur hafa meiri áhrif fyrir vikið í ágústmánuði eða hvort þær munu einfaldlega reynast rýrari en undanfarin ár. Eldsneytisverð sem hafði lækkað um rúm 2% síðan í febrúar fylgdi takti júnímánaðar og hækkaði um 2,85% (0,09% í VNV). Líklegt má telja að eldsneytisverð hækki enn frekar á næstu mánuðum eftir því sem flugumferð fer vaxandi og verð á heimsmarkaði hefur hækkað talsvert frá byrjun maímánaðar.

Allgóður gangur í íbúðamarkaði

Reiknuð húsaleiga lækkaði lítillega í júlímánuði  (-0,01% í VNV). Var það fyrst og fremst vegna áhrifa lækkandi íbúðalánavaxta á liðinn, en hann er samsettur af verðþróun íbúðarhúsnæðis og þróun vaxta. Undanfarna mánuði hefur síðarnefndi liðurinn einmitt vegið verulega gegn hækkunaráhrifum hins fyrrnefnda enda hafa vextir íbúðalána lækkað hratt undanfarin misseri.

Óhætt er að segja að meira líf leynist í íbúðamarkaði en margir, þar á meðal við, væntu að yrði raunin þegar COVID-faraldurinn skall á í vetur. Markaðsverð húsnæðis hækkaði um tæplega hálfa prósentu í júlímánuði frá mánuðinum á undan, en júlímælingin byggir á þinglýstum kaupsamningum í apríl-júní. Athygli vekur að verð á sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu stökk upp um 3% á milli mælinga á meðan lítilsháttar lækkun varð á verði fjölbýla á höfuðborgarsvæði og húsnæðis á landsbyggðinni.

Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 6,7%. Sem fyrr er hækkunin hröðust á landsbyggðinni (10,8%). Á höfuðborgarsvæðinu hafa fjölbýli hækkað í verði um 5,3% og sérbýli um 6,3%. Nokkuð hefur hert á hækkunartaktinum að nýju á landsvísu frá því hann náði lágmarki í rúmum 3% fyrir ári síðan.

Af nýlegum veltutölum á markaði og ummælum aðila á fasteignamarkaði undanfarnar vikur má einnig ráða að spurn eftir íbúðarhúsnæði sé allnokkur um þessar mundir. Virðist sem COVID-faraldurinn hafi einungis haft mjög skammvinn áhrif á viðskipti á íbúðamarkaði undir vetrarlok og á vordögum.

Við teljum að ein helsta skýring á líflegri íbúðamarkaði sé sú mikla lækkun á vöxtum íbúðalána sem orðið hefur undanfarið ár. Kjör slíkra lána hafa aldrei verið hagstæðari en nú á sama tíma og efnahagur flestra heimila er tiltölulega stöndugur og svigrúm til fasteignaviðskipta því talsvert þrátt fyrir mótbyr í efnahaglífinu.

Verðbólga líklega svipuð næstu mánuði

Verðbólguhorfur næstu mánaða hafa hækkað lítillega á síðustu tveimur mánuðum. Við spáum 0,2% hækkun VNV í ágúst, 0,2% hækkun í september og 0,2% hækkun í október. Gangi spáin eftir mun verðbólga mælast 2,9% í ágúst og 3% í september. Greining Íslandsbanka telur þó ekki ástæðu til þess að örvænta að sinni  í ljósi þess hve vel Seðlabankanum hefur í raun tekist að halda verðbólgunni í skefjum á undanförnum mánuðum þrátt fyrir umtalsverða veikingu krónunnar og aukinn launakostnað vegna kjarasamningsbundinna hækkana á vordögum.

Enn er talsverð óvissa um framhaldið en íslenskur markaður stendur enn sem komið á sterkum stoðum og virðist hafa getu til þess að standa af sér núverandi kreppu án langvinns samdráttar í alþjóðlegum samanburði. Helsta forsenda fyrir spá okkar er að krónan haldist nokkuð stöðug í grennd við núverandi gengi. Vert er þó einnig að nefna að íbúðaverð hefur hækkað hraðar en við gerðum ráð fyrir upp á síðkastið en á móti því vegur að vextir hafa lækkað umtalsvert. Því má gera ráð fyrir að ef vextir taki að hækka á nýjan leik gæti það endurspeglast í neikvæðari þróun íbúðaverðs. Tæpast er það þó áhyggjuefni næstu misserin.

Höfundar


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur


Hafa samband

Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband