Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Meiri trú á verðbólgumarkmiði Seðlabankans

Veruleg breyting hefur orðið á sambandi verðbólguvæntinga við skammtímaþróun verðbólgu. Þróun verðbólguvæntinga undanfarið ár endurspeglar aukna trú á því að Seðlabankinn geti sinnt því lögbundna hlutverki sínu að halda verðbólgu nærri 2,5% að jafnaði. Þetta gefur bankanum meira svigrúm en áður til þess að bregðast við bakslagi í efnahagshorfum með lækkun stýrivaxta.


Seðlabankinn birti nýverið samantekt á þróun verðbólguvæntinga heimila, fyrirtækja og markaðsaðila á fjármálamarkaði. Einnig má lesa væntingar um verðbólguþróun úr verðbólguálagi á skuldabréfamarkaði á hverjum tíma. Samanlagt gefa þessir mælikvarðar allskýra mynd af því hvernig fólk og fyrirtæki býst við því að verðbólga þróist næsta kastið. Þessar væntingar ráða svo miklu um það hvernig þróunin verður í raun og veru.

Búist heimilin við því að verðbólga verði umtalsverð munu þau fara fram á hraðari hækkun launa en ella til þess að verja kaupmátt sinn og lífskjör. Að sama skapi móta slíkar væntingar ákvörðun seljenda vöru og þjónustu á verðlagningu þar sem þeir horfa bæði til þess hvernig kostnaður er líklegur að þróast og eins þess hvernig samkeppnin er líkleg til að hegða sér. Háar verðbólguvæntingar geta því skapað vítahring verulegra launahækkana og stærri stökka í verðhækkun vöru og þjónustu, en hóflegar verðbólguvæntingar að sama skapi orðið til þess að hækkun launa og verðlags verði skaplegri.

Verðbólgudraugar fortíðar flæktu peningastefnu..

Seðlabankinn stríddi löngum við það vandamál að verðbólguvæntingar hér á landi voru ýmist þrálátlega háar eða fram úr hófi sveiflukenndar. Sem dæmi má nefna að á árunum 2014-2017, þegar verðbólga reyndist samfellt við eða undir 2,5% markmiði bankans, fóru væntingar heimila um verðbólgu til 12 mánaða ekki undir 3,0% fyrr en eftir mitt ár 2016 og væntingar stjórnenda fyrirtækja segja áþekka sögu.

Peningastefnunefnd Seðlabankans horfir raunar fyrst og fremst á verðbólguvæntingar til lengri tíma en þar var svipuð staða uppi á teningnum. Á framangreindu tímabili væntu sérfræðingar á fjármálamarkaði þess fyrstu þrjú árin að verðbólga næstu 5 ára myndi reynast talsvert yfir 2,5% markmiðinu og 5 ára verðbólguálag á markaði endurspeglaði framan af einnig slíkar væntingar. Þetta var Seðlabankafólki talsverður þyrnir í auga, en peningastefnunefndin fagnaði aftur á móti mjög þegar langtímavæntingarnar fóru loks að nálgast markmið bankans eftir því sem leið á árið 2016.

..en hræða minna um þessar mundir

Í þessu ljósi er athyglisvert að skoða þróunina frá miðju síðasta ári. Í kjölfar gengisfalls krónu á haustdögum 2018 jókst verðbólga allhratt og fór hæst í 3,7% í janúar á þessu ári. Samhliða hækkuðu verðbólguvæntingar nokkuð á alla kvarða þótt hækkunin á langtímavæntingum væri á heildina litið hóflegri. Hins vegar hafa væntingarnar lækkað jafnt og þétt að nýju það sem af er þessu ári og eru langtíma verðbólguvæntingar nú í sjónmáli við verðbólgumarkmið Seðlabankans á alla kvarða þrátt fyrir að verðbólgan sjálf sé enn nokkuð yfir markmiðinu.

Þessi trú fólks og fyrirtækja í landinu á því að verðbólga verði skapleg næstu árin er Seðlabankanum afar mikilvægt veganesti í þeirri viðleitni sinni að mýkja hagsveifluna eftir ágjöf í ferðaþjónustu fyrr á árinu. Bankinn þarf því ekki að standa í ströngu við að endurheimta trúverðugleika sinn með tiltölulega háum raunvöxtum eftir verðbólguskotið í vetur heldur getur hann slakað á klónni í takti við vaxandi slaka á vinnumarkaði og í efnahagslífinu í heild.  Þetta er mikilvæg breyting til batnaðar í hagstjórn á Íslandi sem vonandi er komin til að vera.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband