Miklar breytingar nýverið
Í október síðastliðnum kom svo fyrsta götuhjól Lauf Cycles út en hugmyndin að hjólinu kviknaði við hönnun True Grit.
„Við ákváðum að fara alveg nýjar leiðir í hönnuninni og höfnuðum viðteknum gildum í hönnun götuhjóla. Fyrstu viðbrögð hjólasamfélagsins hafa verið framar væntingum og við hlökkum til framhaldsins.“
Fyrr á þessu ári opnaði Lauf auk þess vöruhús og dreifimiðstöð í Bandaríkjunum þar sem hjólin eru sett saman.
,,Með því að komast nær okkar stærsta markaði getum við veitt mun betri og skilvirkari þjónustu“ bætir Hallgrímur við.
Hindranir á veginum
Hallgrímur segir ferlið frá hugmynd að sölu á fullmótaðri vöru geta verið krefjandi og margt sem þurfi að breyta og bæta á leiðinni.
Hann segir að fjármögnun félagsins hafi oft gengið erfiðlega og það hafi verið áskorun að fá fjárfesta til þess að hafa nægilega trú á verkefninu.
„Við fundum fyrir því að það skorti ákveðna trú hjá fjárfestum hérlendis að íslenskt fyrirtæki gæti verið að framleiða hjól í heimsklassa. Við höfum þurft að sanna okkur og að okkur sé alvara og við erum afar þakklát þeim fjárfestum sem hafa stutt við félagið í gegnum tíðina.“
Það hefur margt breyst í rekstrarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja og hafa stjórnvöld hafa gert þónokkuð til þess að ýta undir jákvæða þróun fyrir fyrirtæki í nýsköpun. Það má þó gera enn betur í þeim málum.