Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ný tækni í hjólreiðum

Nýsköpunarfyrirtækið Lauf Forks var stofnað árið 2011 í kringum hugmynd að þróun á framúrstefnulegum fjöðrunargaffli fyrir reiðhjól sem var sérhannaður fyrir lítil högg. Fyrirtækið hefur farið í gegnum langt uppbyggingarferli, breytt um áherslur og selur nú reiðhjól undir nafninu Lauf Cycles.


Upphaf fyrirtækisins má rekja til þess þegar stofnandi þess, Benedikt Skúlason, starfaði hjá Össuri að hönnun ýmissa vöruhluta úr koltrefjum. Þá kviknaði hugmyndin að því hvort að hægt væri að yfirfæra eiginleika efniviðarins yfir á fjöðrun fyrir reiðhjól.

„Úr varð að hann sagði stöðu sinni lausri til þess að elta drauminn um hönnun fjöðrunargaffals á reiðhjól. Hann fékk til liðs við sig æskuvin sinn Guðberg Björnsson og þeir stofnuðu saman Lauf Forks.“ Segir Hallgrímur Björnsson, fjármála- og rekstrarstjóri Lauf Cycles.

Ný tækni í hjólreiðum
Næstu árin fóru í að þróa fjölmargar frumgerðir af gafflinum og árið 2014 kom fyrsti gaffall Lauf á markað.  Gaffallinn fékk mikið lof þrátt fyrir að þykja skrítinn, enda algjörlega ný tækni.

Salan á gafflinum gekk ágætlega til að byrja með en fljótlega varð ljóst að þetta viðskiptamódel gæti ekki gengið upp í óbreyttri mynd til lengdar. Síðla árs 2017, kom næsta afurð Lauf Cycles á markað, malarhjólið True Grit, sem hlaut einróma lof hjá erlendum hjólamiðlum.

,,Þá tók við óhefðbundin markaðssetning í Bandaríkjunum, þar sem sölufólkið okkar ferðaðist á milli hjólabúða til að vekja athygli á vörunni og einstökum eiginleikum hennar. Þessar ferðir urðu til þess að vörumerkið Lauf komst á kortið með framúrskarandi vöru á ört stækkandi markaði fyrir malarhjólreiðar sem voru að ryðja sér til rúms á þessum tíma.“

Í ársbyrjun 2019 kom næsta hjól Lauf á markað, malarhjólið Anywhere, það var með stífum gaffli en með sérhönnuðu stýri. Á þeim tíma var Lauf Cycles farið að selja vörur sínar í yfir hundrað verslunum í Bandaríkjunum en í júlí 2020 var tekin ákvörðun um að umbylta viðskiptalíkaninu, hætta að selja í gegnum hjólabúðir og hefja sölu milliliðalaust í gegnum heimasíðu félagsins.

„Við þessar breytingar má segja að félagið hafi hætt að brenna pening og reksturinn fór að vera réttu megin við núllið.“

Þarna fóru hjólin fyrst að snúast fyrir alvöru og félagið lagði ríkari áherslu en áður á að koma vörunni á framfæri á samfélagsmiðlum. Bandaríkjamarkaður er stærsti markaður Lauf og þar eru enn óteljandi sóknarfæri.

Miklar breytingar nýverið

Í október síðastliðnum kom svo fyrsta götuhjól Lauf Cycles út en hugmyndin að hjólinu kviknaði við hönnun True Grit.

„Við ákváðum að fara alveg nýjar leiðir í hönnuninni og höfnuðum viðteknum gildum í hönnun götuhjóla. Fyrstu viðbrögð hjólasamfélagsins hafa verið framar væntingum og við hlökkum til framhaldsins.“

Fyrr á þessu ári opnaði Lauf auk þess vöruhús og dreifimiðstöð í Bandaríkjunum þar sem hjólin eru sett saman.

,,Með því að komast nær okkar stærsta markaði getum við veitt mun betri og skilvirkari þjónustu“ bætir Hallgrímur við.

Hindranir á veginum

Hallgrímur segir ferlið frá hugmynd að sölu á fullmótaðri vöru geta verið krefjandi og margt sem þurfi að breyta og bæta á leiðinni.

Hann segir að fjármögnun félagsins hafi oft gengið erfiðlega og það hafi verið áskorun að fá fjárfesta til þess að hafa nægilega trú á verkefninu.

„Við fundum fyrir því að það skorti ákveðna trú hjá fjárfestum hérlendis að íslenskt fyrirtæki gæti verið að framleiða hjól í heimsklassa. Við höfum þurft að sanna okkur og að okkur sé alvara og við erum afar þakklát þeim fjárfestum sem hafa stutt við félagið í gegnum tíðina.“

Það hefur margt breyst í rekstrarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja og hafa stjórnvöld hafa gert þónokkuð til þess að ýta undir jákvæða þróun fyrir fyrirtæki í nýsköpun. Það má þó gera enn betur í þeim málum.

Við munum alltaf halda í það að vera nýsköpunarfyrirtæki með þróun og hönnun að leiðarljósi. Við einbeitum okkur nú að því að breikka vörulínuna jafnt og þétt. Okkar markmið er að vera leiðandi hjólafyrirtæki á heimsmælikvarða.

Hallgrímur Björnsson
Fjármála- og rekstrarstjóri Lauf Cycles