Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Lítill munur á atvinnuleysi kynjanna

Undanfarna þrjá mánuði hefur atvinnuleysi mælst ríflega tvöfalt meira en síðastliðin fjögur ár. Helsta breyting milli mánaða hefur tengst fólki í minnkuðu starfshlutfalli á hlutabótum en gera má ráð fyrir að atvinnuleysi taki að aukast enn frekar þegar nær dregur hausti.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Atvinnuleysi síðan í apríl hefur verið að meðaltali 7,5% og áætla nýjustu tölur Vinnumálastofnunnar að það verði hátt í 8,5% í ágúst, en við í Greiningu Íslandsbanka spáum að meðalatvinnuleysi ársins verði u.þ.b. 9%. Síðastliðin fjögur ár hefur atvinnuleysi mælst að meðaltali 3% sem telst afar lágt í alþjóðlegum samanburði en það var til að mynda 5,4% árið 2019 meðal OECD ríkja. Ástæðuna fyrir auknu atvinnuleysi á þessu ári má nánast að öllu leiti rekja til COVID. Í lok júní voru alls 16.165 einstaklingar atvinnulausir og 6.742 í minnkuðu starfshlutfalli.

Hlutabótaleiðin á undanhaldi

Einstaklingum á hlutabótaleiðinni svokölluðu hefur fækkað ört frá því hún var fyrst kynnt af hinu opinbera í apríl síðastliðnum. Hlutfall vinnumarkaðar á hlutabótum var um 10,3% í apríl, 5,6% í maí, 2,1% í júní og gerir Vinnumálastofnun ráð fyrir að hlutfallið verði komið undir 1% í lok júlí. Það er þó ekki sömu sögu að segja af atvinnugreinum innan ferðaþjónustunnar en á meðal þeirra fer hlutfallið enn vaxandi og ber þar helst að nefna gistiþjónustu og veitingarekstur.

Svipuð áhrif á vinnandi fólk af báðum kynjum

Atvinnuleysi mælist nú um 9,7% á meðal karla, þar með talið einstaklinga í minnkuðu starfshlutfalli en á meðal kvenna er það um 9,4%. Að jafnaði hafa hlutföll hvors kyns um sig á atvinnuleysisskrá verið nokkuð jöfn síðastliðin 5 ár (51% KVK, 49% KK). Hlutfall karla hefur aukist lítillega frá árinu 2017 samanborið við konur en geta má að þeir eru um 52% vinnumarkaðarins. Ekki virðist því vera um afgerandi áhrif COVID að ræða á annað hvort kynið heldur hittir ástandið vinnandi fólk, á yfirborðinu hið minnsta og við fyrstu sýn, nokkuð jafnt.

Dökkar horfur til skamms tíma

COVID hefur valdið hagkerfinu hörðum skelli og er ljóst að útlitið er svart næstu mánuði, ekki síst á vinnumarkaði. Væntingar sérfræðinga eru þó að draga muni úr atvinnuleysi á næstu tveimur árum og það nálgist um síðir viðlíka tölur og við höfum þekkt síðast liðin fjögur ár. Greining Íslandsbanka spáir 5,8% atvinnuleysi árið 2021 og 3,8% 2022 en allt veltur þó á því hversu langvinn áhrif COVID verða.

Höfundur


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur


Hafa samband