Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Lífeyrissjóðir: Gjöfult ár þrátt fyrir Kórónukreppu?

Heildareignir lífeyrissjóða námu nærri tvöfaldri landsframleiðslu í októberlok. Eignirnar hafa vaxið hratt það sem af er ári og útlit er fyrir allmyndarlega raunávöxtun 2020 þrátt fyrir Kórónukreppuna. Erlendar eignir sjóðanna nema nú þriðjungi heildareigna og hafa nærri þrefaldast í krónum talið á hálfum áratug.


Samkvæmt nýlega birtum tölum Seðlabankans námu heildareignir lífeyrissjóðakerfisins alls 5.512 mö.kr. í októberlok. Jafngildir það 195% af áætlaðri vergri landsframleiðslu (VLF) ársins og hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra. Þar spilar vissulega inn í samdráttur í landsframleiðslunni þetta árið, en í krónum talið hafa eignir sjóðanna samt sem áður aukist um 11% eða 553 ma.kr. Þar munar mestu um erlendar eignir sem aukist hafa um 350 ma.kr. á meðan innlendar eignir sjóðanna uxu um 203 ma.kr. á sama tíma.

Innlendar vaxtaberandi eignir mynda eftir sem áður hornsteininn að eignasafni lífeyrissjóðakerfisins íslenska. Í októberlok námu innlend útlán og markaðsskuldabréf alls 2.591 ma.kr. sem jafngildir ríflega 37% af heildareignum sjóðanna. Innlend hlutabréfaeign var 754 ma.kr. (13,7% af heildareignum) og erlendar eignir námu 1.838 mö.kr. (33,3%).

Þróun erlendra eigna lífeyrissjóðanna undanfarin misseri er býsna áhugaverð. Fyrir nokkrum árum voru miklar áhyggjur uppi meðal margra um að gífurleg fjárfestingarþörf sjóðanna út fyrir landsteinanna yrði þungur myllusteinn um háls krónunnar um fyrirsjáanlega framtíð. Eins og sjá má á myndinni hefur vöxtur þessara eigna hins vegar verið hraður. Í krónum talið hafa þær til að mynda vaxið um 165% undanfarin 5 ár. Í hlutfalli við heildareignir sjóðanna hafa erlendu eignirnar sömuleiðis vaxið verulega. Erlendu eignirnar voru þannig tæp 22% af heildareignum lífeyrissjóða í árslok 2016. Í október síðastliðnum hafði hlutfallið hins vegar hækkað í sléttan þriðjung eins og fyrr er getið. Ekki verður séð að þessi eignaaukning hafi kafsiglt krónunni hingað til og teljum við ekki líklegt að svo verði heldur á komandi árum.

Erlendar eignir íslenskra lífeyrissjóða eru að langstærstum hluta í hlutabréfasjóðum og stökum hlutabréfum. Mikil aukning þessara eigna í krónum talið það sem af er ári á sér því að mestu tvær skýringar:

  • Gengislækkun krónu skilar sér beint í hækkun virðis erlendra eigna í krónum talið. Í októberlok var gengi krónu 15% lægra en í ársbyrjun m.v. gengisvísitölu. Bandaríkjadollar hafði hins vegar hækkað um tæp 16% gagnvart krónu á sama tíma, en stór hluti eignasafns lífeyrissjóðanna er einmitt í dollurum.
  • Lífeyrissjóðirnir hafa haldið áfram að kaupa erlendar eignir í talsverðum mæli þrátt fyrir að hlé væri að mestu gert á slíkum kaupum á tímabiinu frá miðjum mars til miðs september. Í Fjármálastöðugleika Seðlabankans í september sl. kom fram að gjaldeyriskaup sjóðanna hefðu numið 30 mö.kr. á fyrri helmingi ársins og að nokkuð hefði einnig verið um gjaldeyriskaup í júlí og ágúst.

Frá októberlokum hafa erlendir hlutabréfamarkaðir hækkað umtalsvert. Til að mynda hefur MSCI heimsvísitalan hækkað um tæplega 15%. Á móti vegur að krónan hefur styrkst um ríflega 8% mv. gengisvísitölu og um 11% gagnvart Bandaríkjadollar. Að öllum líkindum hafa því ekki orðið umtalsverðar breytingar á hlutfalli erlendra eigna hjá sjóðunum frá októberlokum.

Fjármögnun íbúðalána skreppur saman

Bein og óbein fjármögnun íbúðalána hefur ávallt verið stór þáttur af umsvifum íslenskra lífeyrissjóða. Skipta má slíkri fjármögnun í þrjá flokka:

  • Skuldabréf útgefin af Íbúðalánasjóði og forverum hans
  • Sértryggð skuldabréf banka
  • Sjóðfélagalán

Framan af síðasta áratug var fyrstnefndi flokkurinn langstærstur þessara þriggja. Eign sjóðanna í HFF-bréfum og öðrum skuldaskjölum opinberra íbúðalánastofnana nam til að mynda ríflega fimmtungi af heildareignum sjóðanna í ársbyrjun 2016. Á sama tíma voru sjóðfélagalán ríflega 5% af heildareignum og sértryggð skuldabréf banka tæp 3% heildareigna.

Í október sl. var hins vegar svo komið að HFF og skyld bréf mynduðu 12% af eignasafninu, sjóðfélagalán tæp 10% og sértryggð skuldabréf ríflega 5%. Heildarhlutfall fjármögnunar íbúðalána af heildareignum sjóðanna hefur því lækkað úr tæpum 29% í tæplega 27% á tímabilinu þrátt fyrir myndarlegan vöxt í sjóðfélagalánum lengst áf. Heildarupphæð slíkra lána náði hámariki í 545 mö.kr. um mitt ár en hefur lækkað um ríflega 30 ma.kr. síðan eftir því sem ásókn almennings í óverðtryggð lán hjá bönkum hefur aukist og áhugi á verðtryggðum lánum, þar sem samkeppnisstaða sjóðanna er sterkust, hefur minnkað.

Silfurverðlaun í sjóðasöfnun?

Fá lönd standa Íslandi á sporði þegar kemur að eignum í sjóðsöfnunarkerfum og séreignarsparnaði landsmanna. Tölur frá OECD sýna að einungis Hollendingar stóðu okkur framar að þessu leyti um síðustu áramót. Að jafnaði voru eignir í slíkum sparnaði tæplega 40% af VLF í aðildarríkjum OECD. Rétt er að hafa í huga að lífeyriskerfi OECD-ríkja eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Dæmi um það er Noregur, þar sem skilgreindur sparnaður vegna sjóðsöfnunarkerfa og séreignarsparnaður er einungis 11% af VLF. Þar bætist hins vegar á vogarskálarnar hinn firnastóri olíusjóður Norðmanna sem reyndar heitir Alþjóðegur lífeyrissjóður norska ríkisins í lauslegri þýðingu. Annars staðar er fyrst og fremst stuðst við gegnumstreymiskerfi þar sem skattgreiðendur samtímans borga lífeyri þeirra sem hafa rétt til hans.

Horfur á ágætist raunávöxtun í ár

Yfirstandandi ár virðist ætla að verða lífeyrissjóðunum nokkuð gjöfult þrátt fyrir Kórónukreppu. Gengisfall krónu hefur aukið virði erlendra eigna og innlendir verðbréfamarkaðir hafa á heildina litið verið nokkuð sterkir þrátt fyrir talsverðar sveiflur. Sem fyrr segir jukust heildareignir sjóðanna um 11% á fyrstu 10 mánuðum ársins. Sé tekið tillit til verðlagsþróunar og áætlaðs innflæðis í sjóðina umfram lífeyrisgreiðslur og kostnað áætlum við að raunávöxtun þeirra á tímabilinu hafi að jafnaði verið á milli 5 – 6%. Gengisstyrking undanfarinna vikna togast svo á við verðhækkun á erlendum sem innlendum hlutabréfamörkuðum varðandi þróunina síðan.

Við teljum þó góðar líkur á að raunávöxtun ársins 2020 muni reynast yfir 3,5% tryggingafræðilegu viðmiði sem lagt er til grundvallar við mat á hreinni stöðu sjóðanna. Má telja það með nokkrum ólíkindum miðað við hversu mótdrægt árið hefur verið efnahagslega, en vissulega er hér um jákvæð tíðindi að ræða ef rétt reynist. Það verður hins vegar á brattann að sækja fyrir lífeyriskerfið að halda í við 3,5% raunviðmiðið þegar fram í sækir, enda horfur á að lægra vaxtastig verði ríkjandi til frambúðar en verið hefur auk þess sem framleiðnivöxtur gæti reynst hægari og fjárfesting í fyrirtækjum að sama skapi minna arðsöm að jafnaði þegar til lengdar lætur.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband