Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Lífeyriseignir landsmanna rjúfa 6.000 milljarða múrinn

Eignir íslenskra lífeyrissjóða fóru yfir 6.000 milljarða króna í fyrsta sinn í apríl síðastliðnum. Rúmlega þriðjungur eignanna er í erlendri mynt og hefur það hlutfall hækkað um 12 prósentur undanfarin fimm ár. Raunávöxtun sjóðanna hefur verið með ágætum undanfarinn áratug var líklega yfir 9% á síðasta ári.


Samkvæmt nýlegum tölum Seðlabankans voru heildareignir íslenskra lífeyrissjóða 6.028 ma.kr. í lok apríl síðastliðins. Það samsvarar tæplega 190% af áætlaðri vergri landsframleiðslu (VLF) yfirstandandi árs m.v. nýlega þjóðhagsspá okkar. Þrátt fyrir að eignirnar í hlutfalli við VLF séu á svipuðum slóðum og þær voru um síðustu áramót hafa þær samt sem áður aukist í krónum talið um 298 ma.kr. sem samsvarar ríflega 5% aukningu.

Í apríllok voru ríflega 66% heildareigna sjóðanna innlendar, alls 3.989 ma.kr. Stærstur hluti þeirra var í formi útlána og markaðsskuldabréfa líkt og verið hefur undanfarna áratugi. Hlutfall eigna af þessu tagi af heildareignum hefur þó minnkað jafnt og þétt undanfarinn áratug. Það var  tæp 45% miðað við síðustu tölur en var 60% í ársbyrjun 2011. Á móti hefur hlutfall hlutabréfa og erlendra eigna sjóðanna hækkað verulega á tímabilinu.

Mikið hefur verið rætt um erlendar eignir lífeyrissjóðanna síðustu ár, enda ljóst að mikill vöxtur þeirra á sama tíma og framboð innlendra fjárfestingarkosta er takmarkað myndi kalla á umtalsverðar fjárfestingar út fyrir landsteinana. Mikil aukning hefur orðið á slíkum eigum í safni sjóðanna undanfarin 5 ár. Í krónum talið námu þær jafnvirði 2.039 ma.kr. í apríllok og höfðu á þann kvarða nærri þrefaldast frá ársbyrjun 2016 þegar þær voru jafnvirði 700 ma.kr.

Hlutfall þeirra af heildareignum hefur einnig hækkað myndarlega á tímabilinu þótt sú hækkun sé eðli máls samkvæmt talsvert hóflegri. Í lok apríl voru erlendar eignir tæplega 34% af heildareignum íslensku lífeyrissjóðanna, samanborið við tæp 22% í ársbyrjun 2016. Segja má að talsverðum hluta viðskiptaafgangs undanfarinna ára hafi verið varið til þess að auka við erlendar eignir lífeyrissjóðanna enda endurspeglast jákvæð hrein erlend staða þjóðarbúsins upp á rúman þriðjung af VLF (miðað við marslok 2021) að talsverðum hluta í þessum eignum.

Áhætta lífeyrissjóða vegna erlendra gjaldmiðla má að hámarki nema 50% af eignum þeirra samkvæmt gildandi lögum. M.ö.o. mega eignir þeirra í erlendri mynt ekki fara yfir þetta hlutfall nema keyptar séu gjaldeyrisvarnir fyrir því sem umfram er. Því eru hins vegar takmörk sett í hversu miklum mæli sjóðirnir geta varið þessar eignir fyrir gjaldeyrisáhættu í ljósi þess hversu stórar upphæðir er um að ræða. Þetta getur sett sjóðina í snúna stöðu í ljósi þess að langstærstur hluti erlendra eigna þeirra er í hlutabréfum og hlutabréfasjóðum. Þegar saman fer hröð hækkun á erlendum hlutabréfamörkuðum og gengisveiking krónu, líkt og gerðist á síðasta ári, getur hlutfall erlendra eigna hækkað býsna hratt.

Til að mynda var fjallað um það í Fjármálastöðuleika Seðlabankans í apríl sl. að einhverjir sjóðir hefðu selt gjaldeyri í allnokkrum mæli undir lok síðasta árs og væri skýringin hugsanlega að þeir hefðu verið komnir nálægt innri viðmiðum um hlutfall erlendra eigna. Þótt þessi viðmið séu oftast talsvert lægri en hámarkseignin samkvæmt lögum sýnir þessi þróun glögglega hversu hratt staðan getur sveiflast.

Gjaldeyriseignir íslenskra sjóða skera sig ekki úr

Verulegur munur er á hversu hátt hlutfall eigna í erlendum myntum er meðal lífeyrissjóða í OECD-ríkjunum. Líkt og búast mátti við er það þó hærra meðal þeirra ríkja sem bæði eru smá og ekki aðili að myntsamstarfi á borð við evruna.

Eins og sjá má af myndinni virðist Ísland ekki skera sig úr meðal OECD-ríkja hvað varðar eignir lífeyrissjóða í erlendri mynt. Hér er rétt að halda til haga að Norski olíusjóðurinn svokallaði, sem myndar í raun stóran hluta lífeyriseigna Norðmanna, fjárfestir eingöngu í erlendum eignum.

Myndarleg raunávöxtun að baki

Þrátt fyrir heimsfaraldur og krappan efnahagssamdrátt var árið 2020 lífeyrissjóðunum gjöfult. Eignir þeirra uxu á síðasta ári um ríflega 15% og lagðist þar margt á eitt.

  • Sem fyrr sagði leiddi veiking krónu og myndarleg hækkun á erlendum hlutabréfamörkuðum til umtalsverðrar hækkunar á verði erlendra eigna sjóðanna.
  • Þá hækkaði innlent hlutabréfaverð einnig myndarlega og má sem dæmi nefna að OMXI10 vísitala Kauphallarinnar hækkaði um rúm 30% á árinu.
  • Verð innlendra skuldabréfa hækkaði einnig almennt, þótt sú hækkun væri mun hóflegri.
  • Loks er ennþá umtalsvert innflæði í sjóðina þar sem iðgjaldagreiðslur eru enn verulega umfram útgreiðslu lífeyris að viðbættum kostnaði. Má þar til samanburðar nefna að árið 2019, sem er síðasta ár sem tölur Seðlabankans um greiðsluflæði sjóðanna ná til, voru iðgjöld að frádregnum lífeyrisgreiðslum og rekstrarkostnaði ríflega 93 ma.kr.
    Þó ber að hafa í huga að á síðasta ári var opnað fyrir úttekt á séreignarsparnaði vegna COVID-19 faraldursins og námu slíkar útgreiðslur tæpum 23 ma.kr. í fyrra samkvæmt gögnum á vef Stjórnarráðsins.

Þótt leiðrétt sé fyrir hreinu innflæði vegna iðgjalda og tillit tekið til verðbólgu var raunávöxtun sjóðanna prýðileg í fyrra. Samkvæmt áætlun Landssamtaka lífeyrissjóða (LL) nam raunávöxtunin að meðaltali ríflega 9% á árinu 2020. Kom það í kjölfar annars góðæris að þessu leyti, en á árinu 2019 var raunávöxtunin 11,8% að meðaltali.  LL áætlar að raunávöxtun lífeyrissjóða hafi verið 5,8% að jafnaði undanfarinn áratug. Það er talsvert umfram þá 3,5% viðmiðunarávöxtun sem notuð er í tryggingafræðilegu uppgjöri sjóðanna.

Það sem af er ári hefur ávöxtun eigna lífeyrissjóðanna líklega verið allgóð. Til að mynda hefur heimsvísitala MSCI, sem endurspeglar þróun hlutabréfa á heimsvísu, hækkað um tæplega 11% frá ársbyrjun mælt í Bandaríkjadollurum. OMXI10 hlutabréfavísitalan íslenska hefur á sama tíma hækkað um 17%. Verð skuldabréfa hefur hins vegar almennt lækkað fremur en hitt frá áramótum en líta ber á að stór hluti þeirra er færður á s.k. kaupkröfu í bókum lífeyrissjóðanna og verðbreytingar á markaði hafa því takmörkuð áhrif á bókhaldið á þeim bænum.

Það gæti þó orðið á brattann að sækja á komandi árum að ná jafn myndarlegri ávöxtun og verið hefur undanfarinn áratug. Horfur eru almennt taldar á að lægra vaxtastig verði ríkjandi til frambúðar á heimsvísu en verið hefur auk þess sem framleiðnivöxtur gæti reynst hægari og fjárfesting í fyrirtækjum að sama skapi minna arðsöm að jafnaði þegar til lengdar lætur.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband