Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Leikið fyrir luktum dyrum?

Lítið má út af bregða í rekstri margra knattspyrnufélaga og miðasala getur verið mikilvæg tekjulind, en mis mikilvæg þó.


Ítalía er lokuð og ítalski boltinn með. Ekki verður leikið í Seríu A, efstu knattspyrnudeild þar í landi, fyrr en í fyrsta lagi 3. apríl. Áður hafði verið ákveðið að leikið yrði fyrir luktum dyrum og slíkt hefur einnig verið í umræðunni annars staðar, meðal annars á Spáni þar sem stúkurnar verða tómar næstu tvær vikurnar.

Ef áhorfendapallar leikvanganna verða auðir kemur það að sjálfsögðu til með að hafa áhrif á fótboltann og ekki bara stemninguna á leikjum. Lítið má út af bregða í rekstri margra knattspyrnufélaga og miðasala getur verið mikilvæg tekjulind, en mis mikilvæg þó.

Aðgöngumiðar skila 4% heildartekna á Íslandi

Hér á Íslandi er miðasala óverulegur hluti tekna liðanna í efstu deild karla. Hjá KR-ingum nemur hún um 5% heildartekna svo dæmi sé tekið og áætlar evrópska knattspyrnusambandið UEFA að meðaltalið sé um 4% meðal liðanna í efstu deild. Í fimm stærstu deildum Evrópu er hlutfallið þó hærra eða um 12-18%. Norðurlöndin eru misjöfn hvað þetta varðar. Þannig skilar sala aðgöngumiða 7% tekna danskra félaga, 11% í Færeyjum, 15% í Noregi, 17% í Finnlandi og heilum 24% í Svíþjóð.

Skotar gætu lent í vanda

Ein deild sker sig þó með áberandi hætti frá öllum öðrum efstu deildum álfunnar að þessu leyti en það er skoska úrvalsdeildin. Hvergi skiptir miðasala jafn miklu máli og skilar hún vel yfir 40% heildartekna félaganna tólf. Ástæðan er ekki síst sú að tekjur af sjónvarpsútsendingum eru óvenju litlar en leikvangarnir stórir og stuðningurinn góður. Þannig þénaði núverandi botnlið Hearts um tífalt meira af sölu aðgangsmiða en sjónvarpsútsendingum á liðnu ári.

Þar sem fjárhagur nær allra skoskra úrvalsdeildarliða er, eins og Ian Durrant í leik við Aberdeen, á hættusvæði er hætt við að áhorfendabann eða stytting tímabils gæti haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér fyrir knattspyrnuna þar í landi. Ef til vill eru þetta óþarfa áhyggjur hjá mér en mér til vorkunnar á ég miða á fjóra skoska leiki næstu vikuna.

Greinin birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál

Höfundur


Björn Berg Gunnarsson

Deildarstjóri Greiningar og fræðslu


Senda tölvupóst