Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Launavísitalan hækkar áfram

Launavísitalan hækkaði á milli mánaða í októbermánuði en kaupmáttur launa rýrnaði aðeins á milli mánaða. Árstaktur bæði launavísitölunnar og kaupmáttar er þó hraður í sögulegu samhengi. Opinbert starfsfólk leiðir hækkun launavísitölu um þessar mundir en það er helst vegna krónutöluhækkana og styttingu vinnuvikunnar.


Hagstofa birti í morgun gögn um vísitölur launa og kaupmáttar fyrir októbermánuð. Launavísitala hækkaði um 0,5% milli mánaða og mælist árshækkun nú 7,7%. Þessi hækkun á milli mánaða er að mestu vegna hækkana á almenna vinnumarkaðnum sem dreifðist yfir allar atvinnugreinar ásamt vaktaálags umfram grunnlaun hjá hinu opinbera.

Árstaktur launavísitölunnar hefur verið með svipuðu móti síðustu mánuði og er enn nokkuð hraður í sögulegu samhengi. Þrátt fyrir það hefur hægst á taktinum frá því hann var hvað hraðastur í byrjun árs. Í febrúar og mars á þessu ári mældist hann til dæmis 10,6% enda voru þá tvær samningsbundnar hækkanir innan árstaktsins á þeim tíma.

Kaupmáttur launa rýrnaði um 0,1% á milli mánaða. Undanfarna 12 mánuði hefur kaupmáttur launa hins vegar aukist um 2,9% á sama tíma og verðbólga mælist með mesta móti eða 4,5%. Hægst hefur nokkuð á vexti kaupmáttar á þennan mælikvarða undanfarna mánuði en hann mælist þó enn mikill sögulega.

Þessar launabreytingar undanfarið ár má að stórum hluta rekja til launahækkana um síðustu áramót sem voru samkvæmt kjarasamningum og náðu til meirihluta starfsfólks á vinnumarkaði. Þá hækkaði launavísitalan um 3,7% á milli mánaða. Einnig hefur stytting vinnuvikunnar haft talsverð áhrif til hækkunar á vísitölum undanfarið ár enda mæla þær regluleg laun á hverja unna vinnustund.

Opinberi vinnumarkaður leiðir launahækkanir

Frekara niðurbrot á launavísitölunni nær einungis til ágústmánaðar. Sé launavísitalan skoðuð eftir helstu launþegahópum hafa opinbert starfsfólk hækkað mest í launum undanfarið. Frá byrjun árs 2019 þegar lífskjarasamningar tóku gildi er það starfsfólk sveitarfélaga sem hefur hlutfallslega hækkað mest í launum á því tímabili eða um tæplega 25%. Næst á eftir er það ríkisstarfsfólk sem hefur hækkað um 18% og starfsfólk á almennum vinnumarkaði um 16,6% í launum.

Í lífskjarasamningum var samið um krónutöluhækkanir og þar sem laun eru yfirleitt lægri hjá opinberu starfsfólki en þeim á almenna vinnumarkaði hafa laun þeirra því hækkað hlutfallslega meira. Þar að auki hefur stytting vinnuvikunnar áhrif á launavísitöluna og hefur stytting vinnuvikunnar verið meiri hjá opinberu starfsfólki en starfsfólki á almennum vinnumarkaði. Samkvæmt Hagstofu eru áhrif styttingar vinnuvikunnar til hækkunar á launavísitölu frá nóvember 2019 til júní 2021 metin um 1% á almennum vinnumarkaði, 2,7% hjá ríkisstarfsfólki og 3% hjá starfsfólki sveitarfélaga.

Kaupmáttur launa eykst mest hjá lágtekjuhópum

Hagstofan birtir einnig launaþróun eftir starfsstéttum á vinnumarkaðnum. Frá ágúst 2020 til ágúst 2021 hafa laun verkafólks hækkað mest eða um 9%. Næst mest hækkuðu launa þjónustu-,sölu og afgreiðslufólks eða um 8,2%. Á sama tíma hækkuðu laun sérmenntaðs starfsfólks minnst eða um 4,7% og sérfræðinga næst minnst eða um 4,9%. Þar sem verðbólga mældist 4,3% í ágústmánuði hefur kaupmáttur fyrrnefndu hópanna aukist um nær 3-4% á meðan kaupmáttur síðarnefndu hópanna hefur nánast staðið í stað í ágúst frá árinu á undan.

Miðað við miðgildi heildarlauna árið 2020 hafa þeir hópar sem eru með lægstu launin notið mestrar hlutfallslegrar hækkunar launa. Miðgildi launa þjónustu-, sölu og afgreiðslufólks er lægst eða um 540 þúsund á mánuði og þar á eftir er skrifstofufólk með 580 þúsund á mánuði og verkafólk með 590 þúsund á mánuði. Þetta eru sömu áhrif og milli starfshópa sem nefnd voru hér að ofan. Krónutöluhækkanir í kjarasamningum valda því að hlutfallsleg breyting á launum verður meiri eftir að laun eru lægri og öfugt. Þar við bætist að fólk í lægri þrepum launastigans er líklegra en þeir sem hærri laun fá til þess að vera á kjarasamningsbundnum töxtum. Í Lífskjarasamningnum var samið um meiri krónutöluhækkun á samningsbundnum töxtum en á þeim launum sem samið er um beint milli vinnuveitanda og launþega.

Frekari hækkun launa á næsta leyti

Kaupmáttarvöxtur mun næstu misserin skýrast af samningsbundnum launahækkunum um næstu áramót auk þess sem hagvaxtaraukinn sem samið var um í lífskjarasamningum mun að öllum líkindum hækka laun í maí 2022. Miðað við þjóðhagsspá okkar og spá Hagstofunnar um mannfjöldaþróun gæti sú hækkun orðið 10.500. fyrir taxtalaun en 7.875 kr. fyrir önnur laun. Framhaldið á vinnumarkaði veltur svo að miklu leyti á kjarasamningum sem ráðist verður í á seinni hluta næsta árs en lífskjarasamningar gilda út árið 2022.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband