Hagstofa birti í morgun gögn um vísitölur launa og kaupmáttar fyrir októbermánuð. Launavísitala hækkaði um 0,5% milli mánaða og mælist árshækkun nú 7,7%. Þessi hækkun á milli mánaða er að mestu vegna hækkana á almenna vinnumarkaðnum sem dreifðist yfir allar atvinnugreinar ásamt vaktaálags umfram grunnlaun hjá hinu opinbera.
Árstaktur launavísitölunnar hefur verið með svipuðu móti síðustu mánuði og er enn nokkuð hraður í sögulegu samhengi. Þrátt fyrir það hefur hægst á taktinum frá því hann var hvað hraðastur í byrjun árs. Í febrúar og mars á þessu ári mældist hann til dæmis 10,6% enda voru þá tvær samningsbundnar hækkanir innan árstaktsins á þeim tíma.