Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Laun halda áfram að hækka

Vísitölur launa og kaupmáttar hækkuðu á milli mánaða í september. Árstaktur vísitalnanna mælist nokkuð hraður í sögulegu samhengi. Opinberir starfsmenn og þá sérstaklega starfsmenn sveitarfélaga leiða launahækkanir þessi dægrin.


Hagstofa birti nýlega gögn um vísitölur launa og kaupmáttar fyrir septembermánuð. Launavísitalan hækkaði um 0,7% á milli mánaða og mælist árshækkun hennar nú 7,7%. Árstakturinn hefur verið svipaður síðustu mánuði og er enn nokkuð hraður í sögulegu samhengi. Þó hefur hægst á hækkunartakti launavísitölunnar frá því að hann var hvað hraðastur í byrjun árs, í febrúar og mars á þessu ári mældist hann til dæmis 10,6% enda féllu þá tvær almennar samningsbundnar hækkanir innan árstaktsins.

Kaupmáttur launa jókst um 0,2% í september á milli mánaða. Undanfarna 12 mánuði hefur kaupmáttur launa aukist um 3,3% á sama tíma og verðbólga mælist 4,4%. Þó að verðbólga mælist með mesta móti er seigt í kaupmáttarvextinum. Þrátt fyrir það hefur hægst nokkuð á árstaktinum frá því að hann mældist 6,2% í febrúar síðastliðnum og er ástæðan að stórum hluta sú sama og reifuð er hér að ofan.

Starfsfólk sveitarfélaga hækkar mest í launum

Opinberi markaðurinn hefur verið leiðandi í launabreytingum upp á síðkastið. Ef vísitalan er skoðuð frá byrjun árs 2019 þegar lífskjarasamningar tóku gildi fram til júlímánaðar þessa árs eru það starfsfólk sveitarfélaganna sem hefur hækkað hlutfallslega mest í launum á því tímabili eða um tæp 25%. Næst á eftir kemur ríkisstarfsfólk sem hefur hækkað um 18% og starfsfólk á almennum vinnumarkaði um rúm 16% á sama tímabili.

Í fyrrnefndum kjarasamningum var samið um krónutöluhækkanir sem þýðir að fólk sem er á lægri launum hækkar hlutfallslega meira en þau sem eru með hærri laun. Laun starfsfólks sveitarfélaga eru hlutfallslega lægst samkvæmt gögnum Hagstofu sem útskýrir að talsverðum hluta hraðari hlutfallslega hækkun launa í þeim hópi. Auk þess hefur stytting vinnuvikunnar áhrif á launavísitöluna þar sem henni er ætlað að mæla regluleg laun fyrir hverja vinnustund. Stytting vinnuvikunnar hefur verið meiri hjá opinberu starfsfólki heldur en starfsfólki á almennum vinnumarkaði. Samkvæmt Hagstofu eru áhrif styttingar vinnuvikunnar til hækkunar launavísitölu frá nóvember 2019 til júní 2021 metin um 1% á almennum vinnumarkaði, 2,7% hjá ríkisstarfsfólki og 3% hjá starfsfólki sveitarfélaga.

Kaupmáttarvöxtur þrátt fyrir atvinnuleysi

Engan bilbug er að finna á kaupmáttarvextinum sem hélt áfram þrátt fyrir niðursveiflu hagkerfisins. Á fyrsta fjórðungi þessa árs þegar atvinnuleysi var í hæstu hæðum og mældist 11,3% var kaupmáttarvöxturinn á sama tíma afar myndarlegur. Það að kaupmáttur launa aukist samfara auknu atvinnuleysi og samdrætti í hagkerfinu er mjög óvenjulegt og hefur ekki áður gerst í þessum mæli í okkar nútíma hagsögu. Nú hefur atvinnuleysi minnkað jafnt og þétt undanfarna mánuði og mældist 5,5% í september.

Kaupmáttarvöxtur næstu misserin mun skýrast af samningsbundnum launahækkunum um næstu áramót auk þess sem hagvaxtaraukinn, sem er partur af lífskjarasamningum, leggst líkast til í fyrsta sinn til hækkunar mánaðarlauna maí 2022. Miðað við hagspá okkar og spá Hagstofunnar um mannfjöldaþróun gæti sú hækkun orðið 10.500 kr. fyrir taxtalaun en 7.875 kr. fyrir önnur laun. Varðandi framhaldið á vinnumarkaði veltur það að miklu leyti af kjarasamningum sem ráðist verður í á seinni hluta næsta árs.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband