Samt sem áður hefur orðið mikil breyting á þróuninni á milli launaþegahópanna eins og sést á myndinni. Almenni markaðurinn hækkaði talsvert hægar í launum en hinir tveir hóparnir frá miðju ári 2020 til byrjunar árs 2022. Eins og sést hækkuðu starfsmenn sveitarfélaga mest í launum á þessu tímabili. Ástæðan fyrir þessum mun á milli launaþegahópa er að lífskjarasamningarnir sem undirritaðir voru 2019 fólu í sér krónutöluhækkanir fyrir allan vinnumarkaðinn. Starfsmenn á lægstu launum hækkuðu því hlutfallslega meira í launum en einnig var stytting vinnuvikunnar meiri hjá opinberu starfsfólki sem skýrir einnig þennan mun.
Auðvitað getur það gefið skakka mynd að skoða einungis árshækkun launa og betra að horfa yfir lengra tímabil. Frá byrjun árs 2019 hafa starfsmenn sveitarfélaga hækkað mest í launum eða um 40%, næst á eftir starfsmenn á almennum vinnumarkaði um 38% og síðast ríkisstarfsmenn um 29%.
Laun í ferðaþjónustu hækkað mest
Sé almenni vinnumarkaðurinn skoðaður nánar eftir atvinnugreinum hafa laun í ferðaþjónustu hækkað mest undanfarið ár, eða um næstum 15%. Næst á eftir koma laun í byggingargeiranum sem hafa hækkað um 13%. Þetta rímar við skort á starfsfólki í þessum tveimur atvinnugreinum og endurspeglar einnig kjarasamninga sem fólu í sér blöndu af krónutöluhækkunum og hlutfallslegum hækkunum. Laun í veitustarfsemi hafa hækkað minnst undanfarið ár eða um 8% á meðan laun í öðrum atvinnugreinum hafa hækkað með svipuðu móti í kringum 10-12%.