Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Laun hækka og kaupmáttur eykst lítillega

Launavísitalan hækkaði á milli mánaða í maí. Árstaktur hækkunar launa er nú 9,6% og eykst kaupmáttur launa lítillega sem er viðsnúningur á þróuninni síðustu mánuði. Útlit er fyrir áframhaldandi hækkun launa á næstunni.


Hagstofan birti í morgun gögn um vísitölur launa og kaupmáttar fyrir maímánuð. Launavísitalan hækkaði um 0,6% á milli mánaða og mælist árshækkun launavísitölunnar nú 9,6%. Það er svipaður árstaktur og undanfarna tvo mánuði.

Verðbólga í maí mældist 9,5% og á þann mælikvarða hefur kaupmáttur launa aukist smávegis undanfarið ár eða um 0,1%. Það er breyting frá síðustu mánuðum þar sem kaupmáttur hefur rýrnað frá síðasta sumri að undanskildum desembermánuði þegar kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum voru undirritaðir og stór hluti launþega á almennum markaði fékk afturvirkar launahækkanir.

Ríkisstarfsmenn hafa hækkað minnst í launum

Samhliða birti Hagstofa frekara niðurbrot á launavísitölunni sem nær til marsmánaðar. Ef vísitalan er skoðuð út frá helstu launþegahópum eru það starfsmenn á almennum vinnumarkaði sem hafa hækkað mest í launum undanfarið ár eða um nær 12%. Þar á eftir koma starfsmenn sveitarfélaga sem hafa hækkað í launum um 5,4% og svo ríkisstarfsmenn um 3,5%. Munurinn á almennum starfsmönnum og opinberum skýrist einna helst af því að samið var við flesta á almenna vinnumarkaðinum um áramótin en samningar við opinbera starfsmenn voru undirritaðir seinna og sú hækkun var því ekki komin inn í vísitöluna í mars.

Samt sem áður hefur orðið mikil breyting á þróuninni á milli launaþegahópanna eins og sést á myndinni. Almenni markaðurinn hækkaði talsvert hægar í launum en hinir tveir hóparnir frá miðju ári 2020 til byrjunar árs 2022. Eins og sést hækkuðu starfsmenn sveitarfélaga mest í launum á þessu tímabili. Ástæðan fyrir þessum mun á milli launaþegahópa er að lífskjarasamningarnir sem undirritaðir voru 2019 fólu í sér krónutöluhækkanir fyrir allan vinnumarkaðinn. Starfsmenn á lægstu launum hækkuðu því hlutfallslega meira í launum en einnig var stytting vinnuvikunnar meiri hjá opinberu starfsfólki sem skýrir einnig þennan mun.

Auðvitað getur það gefið skakka mynd að skoða einungis árshækkun launa og betra að horfa yfir lengra tímabil. Frá byrjun árs 2019 hafa starfsmenn sveitarfélaga hækkað mest í launum eða um 40%, næst á eftir starfsmenn á almennum vinnumarkaði um 38% og síðast ríkisstarfsmenn um 29%.

Laun í ferðaþjónustu hækkað mest

Sé almenni vinnumarkaðurinn skoðaður nánar eftir atvinnugreinum hafa laun í ferðaþjónustu hækkað mest undanfarið ár, eða um næstum 15%. Næst á eftir koma laun í byggingargeiranum sem hafa hækkað um 13%. Þetta rímar við skort á starfsfólki í þessum tveimur atvinnugreinum og endurspeglar einnig kjarasamninga sem fólu í sér blöndu af krónutöluhækkunum og hlutfallslegum hækkunum. Laun í veitustarfsemi hafa hækkað minnst undanfarið ár eða um 8% á meðan laun í öðrum atvinnugreinum hafa hækkað með svipuðu móti í kringum 10-12%.

Frekari launahækkanir í kortunum

Þann 10. júní síðastliðinn voru samningar félagsmanna BSRB undirritaðir og nú hefur verið samið við allan vinnumarkaðinn. Launavísitalan mun að öllum líkindum hækka enn frekar í næsta mánuði vegna þeirra samninga sem eru nýlega undirritaðir.

Kjarasamningar á vinnumarkaði eru stuttir og nú styttist óðum í næstu lotu kjaraviðræðna. Vegna þessa er talsverð óvissa á vinnumarkaði og líkur á snúnum kjaraviðræðnum næsta vetur. Í nýlegri þjóðhagsspá okkar spáum við því að laun muni hækka um 9% á þessu ári og þar með mun kaupmáttur launa standa í stað á árinu. Með tímanum mun draga úr hækkun launa vegna minni spennu á vinnumarkaði. Á næsta ári spáum við því að laun hækki um 8% og 6% árið 2025.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband