Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Landsmenn ekki bjartsýnni í þrjú ár

Væntingavísitala Gallup hefur ekki mælst hærri í þrjú ár en í mars síðastliðnum. Væntingar um betri tíð að hálfu ári liðnu ráða mestu um mikla hækkun vísitölunnar síðustu mánuði. Landsmenn hyggja á kaup á bílum og íbúðum í talsverðum mæli en gera síður áætlanir um utanlandsferðir þessa dagana.


Brún landsmanna virðist hafa lést töluvert upp á síðkastið ef marka má nýlegar mælingar á Væntingavísitölu Gallup (VVG). Vísitalan mældist 114,4 stig í marsmánuði sl. og hefur hún ekki mælst hærri í 3 ár. Væntingar landsmanna hafa tekið hressilega við sér frá því fréttir af bóluefnum við COVID-19 tóku að berast á lokafjórðungi síðasta árs. Í október 2020 var gildi VVG til að mynda 47,2 stig sem jafngildir því að svartsýni hafi verið ráðandi viðhorf meðal almennings um stöðu og horfur í efnahags- og atvinnulífinu. Gildið 100 endurspeglar jafnvægi milli bjartsýni og svartsýni meðal svarenda og má því segja að nokkru hærra hlutfall almennings sé bjartsýnt en hinir sem telja ástand og horfur slæmt.

Eins og sjá má af myndinni er hækkun VVG síðustu mánuði að stærstum hluta komin til vegna vaxandi bjartsýni á að betri tíð sé í vændum. Þannig telur meirihluti svarenda enn að núverandi ástand sé slæmt en langflestir eru hins vegar á því að aðstæður verði betri að 6 mánuðum liðnum. Virðist bakslag í þróun COVID-19 faraldursins og hægari gangur bólusetningar en vonast var til ekki hafa slegið að ráði á þessar væntingar enn sem komið er.

Allmargir hyggjast kaupa bíla og íbúðir

Gallup birtir ársfjórðungslega niðurstöður á væntingum um fyrirhuguð stórkaup og fylgdu nýjustu mælingar á slíkum væntingum með í VVG-mælingu marsmánaðar. Nokkru meiri hugur virðist í landsmönnum en áður um bifreiðakaup og hækkaði sú vísitala um úr 19,5 upp í 23,7 á milli mælinga. Alls töldu tæplega 14% svarenda líklega að þau myndu festa kaup á bifreið á næstunni. Það ætti að vera bílgreininni nokkur huggun eftir magra tíð. Raunar keyptu einstaklingar ríflega 7% fleiri bíla á síðasta ári en árinu 2019 en nýskráningar fólksbifreiða skruppu hins vegar á heildina litið saman um rúman fimmtung í fyrra, fyrst og fremst vegna minni kaupa bílaleiga. Mæling Gallup bendir hins vegar til þess að áfram standi hugur almennings til bílakaupa og líklegt er að kaup bílaleiga rétti úr kútnum með tíð og tíma þegar ferðamenn fara aftur að venja komur sínar hingað til lands í meiri mæli.

Landsmenn virðast hins vegar ætla að fara fetið í utanlandsferðum næsta kastið miðað við könnun Gallup. Vísitala fyrirhugaðra utanlandsferða lækkaði nokkuð í marsmánuði frá mælingunni á undan. Alls hyggjast tæp 39% svarenda bregða sér út fyrir landsteinana á næstunni, en til samanburðar var þetta hlutfall í grennd við 75% að jafnaði misserin fyrir Kórónukreppuna. Það er því alllangt í land með að ferðagleði landsmanna verði eitthvað í líkingu við síðustu ár ef marka má könnun Gallup.

Allmargir hyggja hins vegar á húsnæðiskaup líkt og fyrri daginn samkvæmt mælingu Gallup. Vísitala fyrirhugaðra húsnæðiskaupa hækkaði í marsmánuði og telja nú ríflega 5% svarenda líklegra en ekki að þau muni ráðast í slík kaup næsta kastið. Þetta hlutfall hefur verið fremur stöðugt undanfarin misseri þrátt fyrir miklar sviptingar í efnahagslífinu. Rímar það ágætlega við þróun á íbúðamarkaði þar sem velta hefur verið lífleg og verð hækkað jafnt og þétt þrátt fyrir Kórónukreppuna. Ekki er útlit fyrir að þar verði breyting á í bráð samkvæmt þessari nýjustu mælingu Gallup-fólks.

Horfur á vaxandi einkaneyslu í ár

VVG gefur allgóða vísbendingu um neysluhegðun landsmanna enda eykst neyslugleði almennings þegar bjartsýni er ríkjandi á meðan varkárni einkennir heimilisútgjöldin í meiri mæli þegar áhyggjur og óvissa eru efst í huga fólks. Fjárhagur langflestra heimila er enn traustur þrátt fyrir Kórónukreppuna, enda hefur kaupmáttur launa þeirra sem haldið hafa starfi sínu vaxið undanfarið ár og tækifæri til neyslu á dýrum lífsgæðum á borð við utanlandsferðir hafa verið af skornum skammti.

Einkaneysla skrapp saman um 3,3% í fyrra eftir samfelldan vöxt 9 árin þar á undan. Upptakturinn í VVG styrkir hins vegar þá skoðun okkar að einkaneysla muni vaxa að nýju í ár. Í Þjóðhagsspá okkar sem birtist í janúar spáðum við tæplega 2% vexti einkaneyslu í ár og er sú spá enn í fullu gildi að okkar mati.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband