Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Landsframleiðsla vex á ný

Myndarlegur vöxtur einkaneyslu og fjárfestingar skýrir að mestu ágætan hagvöxt á fyrri helmingi ársins. Samdráttur í íbúðafjárfestingu og óhagstæð þróun viðskipta við útlönd er hins vegar nokkurt áhyggjuefni. Vöxtur innlendrar eftirspurnar kann að vega þyngra í hagvexti ársins en bati ferðaþjónustunnar, öfugt við væntingar.


Efnahagsbati í kjölfar Kórónukreppu náði verulegu skriði á 2. fjórðungi ársins miðað við nýbirta þjóðhagsreikninga Hagstofunnar. Var fjórðungurinn sá fyrsti frá lokafjórðungi ársins 2019 þar sem hagvöxtur mælist. Hagkerfið óx um 7,3% að raungildi á fjórðungnum frá sama tíma í fyrra og skýrist vöxturinn að langstærstum hluta af vaxandi einkaneyslu og fjárfestingu. Einkaneyslan óx þannig um 8,5% á tímabilinu og hefur ekki vaxið hraðar á þennan mælikvarða í tæp 4 ár. Þá óx fjármunamyndun í heild um tæplega 26%. Alls nam vöxtur þjóðarútgjalda, sem endurspegla innlenda eftirspurn, 9,4% frá sama tíma árið áður. Útflutningur jókst raunar einnig um tæp 28% á fjórðungnum en nærri 33% vöxtur innflutnings hafði vinninginn og var framlag utanríkisviðskipta því neikvætt.

Ársfjórðungslegir þjóðhagsreikningar hér á landi eru æði sveiflukenndir og er því gagnlegra að mati okkar að horfa á þróunina á fyrri árshelmingi þótt vissulega hafi fjórðungarnir verið ólíkir og litast af þróun COVID-19 faraldursins.

Efnahagsbati nær fótfestu á fyrri árshelmingi

Hagvöxtur á fyrri helmingi ársins nam 3,5%. Vöxtinn má að stærstum hluta þakka 4,7% vexti einkaneyslu og ríflega 13% vexti fjárfestingar. Framlag utanríkisviðskipta til vaxtar var hins vegar neikvætt á fyrri árshelmingi þar sem innflutningur vöru og þjónustu óx um 8,2% á meðan útflutningsvöxturinn var aðeins 1,6% á sama tíma. Innflutningsvöxturinn tengist vexti einkaneyslu og fjárfestingar að miklu leyti. Til dæmis má nefna að kaup heimila á bifreiðum jukust um 72% á fyrri árshelmingi frá sama tíma í fyrra og munar um minna. Þá varð nærri fjórföldun í fjárfestingu í skipum, flugvélum o.þ.h. á öðrum ársfjórðungi frá sama tímabili 2020 en slík fjárfesting kemur nánast að fullu fram í samsvarandi innflutningi.

Þróun utanríkisviðskipta með vörur og þjónustu var sitt með hvoru móti á fyrri árshelmingi. Umtalsverður vöxtur var í bæði vöruútflutningi og -innflutningi meðan bæði útflutningur og innflutningur þjónustu skrapp saman á tímabilinu. Síðarnefndu liðirnir endurspegla að mestu hversu áhrif faraldursins á ferðalög milli landa voru mikil allt fram á mitt þetta ár. Þar má þó búast við viðsnúningi á seinni árshelmingi enda hafa ferðalög færst í aukana frá júlíbyrjun.

Fjárfesting á ferð og flugi

Fjárfesting er komin á allnokkurn skrið á yfirstandandi ári eftir tveggja ára samdrátt og sér í lagi hefur fjárfesting atvinnuvega tekið verulegan vaxtarkipp. Á fyrri helmingi ársins jókst fjármunamyndun atvinnuvega til að mynda um nærri 22% frá sama tíma í fyrra og er miklu meiri kraftur í slíkri fjárfestingu en við höfðum vænst. Framangreindur vaxtarkippur í kaupum á stórfarartækjum hafði þar talsverð áhrif en að skipum og flugvélum undanskildum nam vöxturinn þó nærri 16%. Þá mældist ríflega 14% vöxtur í fjárfestingu hins opinbera á fyrri árshelmingi frá sama tíma í fyrra.

Sömu sögu er hins vegar ekki að segja að fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði sem dróst saman um 6,7% á fyrri helmingi ársins frá fyrra ári. Sú þróun er talsvert áhyggjuefni þar sem íbúðamarkaður hefur einkennst af vöntun á nýjum íbúðum á markað, sem ýtt hefur upp verði. Virðist sem nokkuð sé í að sú staða lagist að gagni.

Horfur á áframhaldandi hagvexti

Á heildina má segja að innlend eftirspurn sé að taka betur við sér en við væntum en að á móti sé þróun utanríkisviðskipta óhagstæðari. Í þjóðhagsspá okkar í maí gerðum við ráð fyrir 2,7% hagvexti í ár, sem að stórum hluta yrði drifinn af útflutningsvexti ásamt hóflegri aukningu í einkaneyslu og fjárfestingu. Haldi svo fram sem horfir gæti það dæmi snúist við og innlend eftirspurn leitt vöxtinn í stað útflutnings. Horfur eru þó enn sem fyrr á áframhaldandi vexti landsframleiðslu á seinni helmingi ársins og þar með á árinu í heild en það veltur samt að stórum hluta á því hvort áfram verður sami þróttur í vexti einkaneyslu og fjárfestingar, sem og hversu hratt viðsnúningur verður á óhagstæðum utanríkisviðskiptum.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband