Nýsköpunarumhverfið á Íslandi styðjandi við ný fyrirtæki
Upplifun Önnu af nýsköpunarumhverfinu á Íslandi er góð en segir ferlið geta tekið á fyrir frumkvöðla og fjölskyldur þeirra.
„Þrátt fyrir að hafa alla tíð fengið mikinn meðbyr með okkur, upplifir maður sig svolítið einan í þessu ferli að reyna sanna gildi hugmyndarinnar. Það er líka ákveðin hindrun hversu mikinn tíma allt tekur og það getur verið mikið álag fyrir alla, bæði okkur sem standa í þessu og fjölskyldur okkar. Það sem er svo jákvætt á Íslandi þó er að styrktarheimurinn er mjög góður og við gátum alls staðar fengið ráð eða hugmyndir um framhaldið í nýsköpunarumhverfinu.“
Anna segir mikilvægast að halda sér við efnið og gefast ekki upp þegar á móti blæs
„Helsta hindrunin er að halda fókus og sjá fyrir endann á verkefninu. Það eru sex ár frá stofnun fyrirtækisins og það hefur ýmislegt gengið á þeim tíma. Það eru ekki margir sem skilja hvað við erum að gera eða þekkja markaðinn í kringum þetta. Við pössum okkur á að missa ekki sjónar á markmiðinu, að Isea verði leiðandi á íslenskum markaði ásamt því að koma Íslandi á kortið sem miðstöð þangs og þörunga í heiminum.“
Viðtal við:
Önnu Ólöfu Kristjánsdóttur
Framkvæmdastjóra ISEA