Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Landbúnaðartækni á sjó

Anna Ólöf framkvæmdarstjóri ISEA segir frá helstu hindrunum og áskorunum í nýsköpunarheiminum.


Frumkvöðlafyrirtækið Isea var stofnað í byrjun árs 2016 með það að markmiði að hanna og smíða þangskurðarpramma til öflunar á villtu þangi í Breiðafirði.

Fyrirtækið er nú í eigu þriggja fjölskyldna sem setja markið hátt og stefna á að vera leiðandi á íslenskum markaði í framleiðslu á á umhverfisvænum afurðum úr þangi og þörungum. Anna Ólöf Kristjánsdóttir, einn af stofnendum fyrirtækisins segir nýsköpunarheiminn krefjandi að mörgu leyti en að styrkur úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka hafi skipt sköpum fyrir framtíð fyrirtækisins.

Þang og þörungar vanmetnar afurðir


Anna og bræður hennar tveir, Ómar Arndal Kristjánsson og Ingvar Arndal Kristjánsson, meðeigendur og stofnendur Isea, eiga langa fjölskyldusögu tengda öflun þara og þangs. Afi þeirra sem ólst upp á Breiðafirði, var einn af þeim sem tók á móti og vann með fyrstu slátturprammana sem fluttir voru til Íslands. Systkinin eyddu öllum sumrum í Breiðafirði og þar sem áhuginn á viðfangsefninu kviknaði.

„Bræður mínir byrjuðu að vinna í tækjum og tólum tíu ára og áhuginn á þörungum kviknaði snemma. Áhuginn jókst með tímanum og á fullorðinsaldri fóru þeir að gera alls konar prófanir. Þeir gengu með hugmyndina að fyrirtækinu í maganum í mörg ár og ég slóst svo með í för. Upprunalega hugmyndin var að vera með litla þörungavinnslu en fyrst þurfti að leysa öflunarhlutann sem er flóknasti parturinn við íslenskar aðstæður. Þaðan kom hugmyndin að smíði á þörungaslátturvél eða svokölluðum þangskörupramma. Þekking bræðra minna á tækjum kom sér þá vel þar sem þörungavinnsla er að miklu leiti eins og landbúnaður, það má segja að þörungapramminn sé eins konar landbúnaðartæki úti á sjó.“

Anna segir fólk ekki átta sig á hversu mikið þang er nýtt til hvers kyns framleiðslu en Isea selur vöruna til ólíkra aðila í mismunandi iðnaði.

Það er ótrúlegt hvað þörungar koma víða við. Þeir eru í mörgu sem við þekkjum en áttum okkur ekki á, eins og í málningu, dekkjum og sem bindiefni í matvælum. Klóþangið er einstaklega næringarríkt og er notað bæði í dýrafóður og snyrtivörur.

Anna Ólöf Kristjánsdóttir
Framkvæmdastjóri Isea

Isea framleiðir einnig þang í líförvandi plöntulyf en mikil eftirspurn er eftir því samhliða aukinni kröfu um lífrænt ræktuð matvæli í heiminum.

„Það er notað í ræktun á grænmeti, ávöxtum og öðrum matvælum. Erfðaefnið í klóþangi er mjög harðgert vegna þess að það þarf að þola að vera í straumhörðum svæðum og fá á sig til skiptis frost og sól. Við notum ákveðna tækni til þess að draga fram þetta erfðaefni á lífrænan hátt, án allra kemískra efna, til þess að nota í matvælaræktun. Með notkun efnisins þola plöntur meiri þurrk og gefa af sér fleiri og stærri ávexti. Stærsta verkefnið okkar núna er að komast inn á þennan markað, en við erum nú þegar búin að selja allt sem við getum framleitt og stefnum á að stækka við okkur.“

Fjármögnun stærsta áskorunin fyrir nýsköpunarfyrirtæki


„Fjármögnun var klárlega stærsta áskorunin fyrir okkur eins og marga aðra frumkvöðla. Það tekur tíma og mikla vinnu að komast inn, að fá að kynna verkefnið sitt fyrir bönkum og fjárfestum. Við vorum svo ótrúlega lánsöm að fá tíma og traust frá Íslandsbanka frá fyrsta fundi. Við erum búin að vera með sama þjónustufulltrúa frá þeim degi, enda gaf hann sér alltaf tíma til að hitta okkur og hefur gengið í gegnum allar dýfurnar með okkur, alveg sama hvað hefur gengið á. Íslandsbanki hefur reynst okkur systkinunum alveg ótrúlega vel í gegnum árin.“

Eftir fund hjá bankanum sóttu þau um styrk hjá Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka og segir Anna það hafa breytt miklu fyrir fyrirtækið.

Það skipti okkur svo öllu máli að fá styrkinn úr Frumkvöðlasjóði vegna þess að það hafði verið snúið fyrir okkur að fá veitta styrki fyrir tækjunum sem við þurftum í prammann. Styrkurinn frá Íslandsbanka hjálpaði verkefninu gríðarlega af því hann gat farið beint í það sem við vildum að hann færi í. Við þurftum ekki að breyta neinu af því sem við lögðum upp með til þess að uppfylla úthlutunina á þessum styrk og ekki var krafist mótframlags. Styrkurinn nýttist meðal annars í stjórntækin í prammanum þannig að við gátum hafist handa við öflun hráefnisins.

Anna Ólöf Kristjánsdóttir
Framkvæmdastjóri Isea

Nýsköpunarumhverfið á Íslandi styðjandi við ný fyrirtæki


Upplifun Önnu af nýsköpunarumhverfinu á Íslandi er góð en segir ferlið geta tekið á fyrir frumkvöðla og fjölskyldur þeirra.

„Þrátt fyrir að hafa alla tíð fengið mikinn meðbyr með okkur, upplifir maður sig svolítið einan í þessu ferli að reyna sanna gildi hugmyndarinnar. Það er líka ákveðin hindrun hversu mikinn tíma allt tekur og það getur verið mikið álag fyrir alla, bæði okkur sem standa í þessu og fjölskyldur okkar. Það sem er svo jákvætt á Íslandi þó er að styrktarheimurinn er mjög góður og við gátum alls staðar fengið ráð eða hugmyndir um framhaldið í nýsköpunarumhverfinu.“

Anna segir mikilvægast að halda sér við efnið og gefast ekki upp þegar á móti blæs

„Helsta hindrunin er að halda fókus og sjá fyrir endann á verkefninu. Það eru sex ár frá stofnun fyrirtækisins og það hefur ýmislegt gengið á þeim tíma. Það eru ekki margir sem skilja hvað við erum að gera eða þekkja markaðinn í kringum þetta. Við pössum okkur á að missa ekki sjónar á markmiðinu, að Isea verði leiðandi á íslenskum markaði ásamt því að koma Íslandi á kortið sem miðstöð þangs og þörunga í heiminum.“

Viðtal við:

Önnu Ólöfu Kristjánsdóttur
Framkvæmdastjóra ISEA