Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Lakari vöru- og þjónustuviðskipti á fyrri árshelmingi en vænst var

Methalli var á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd á 2. ársfjórðungi þrátt fyrir 25 milljarða afgang af þjónustuviðskiptum. Útlitið varðandi utanríkisviðskipti með vörur og þjónustu á yfirstandandi ári hefur versnað nokkuð. Þau munu hins vegar batna hratt þegar ferðaþjónustan nær vopnum sínum á nýjan leik.


Þrátt fyrir bata í þjónustuviðskiptum við útlönd var samanlagður halli á vöru- og þjónustuviðskiptum á 2. ársfjórðungi sá mesti frá því fyrir fjármálakreppuna haustið 2008. Skýrist það af miklum vöruskiptahalla á fjórðungnum. Alls var tæplega 31 ma.kr. halli á vöru- og þjónustuviðskiptum á fjórðungnum. Afgangur mældist á ný af þjónustuviðskiptum eftir halla í ársbyrjun og nam afgangurinn ríflega 25 mö.kr. Vöruskiptahalli var hins vegar tæplega 56 ma.kr. á tímabilinu og hefur ekki verið meiri í 15 ár. Mikill vöruskiptahalli skýrist að mestu af miklum innflutningi líkt og við fjölluðum um í Korni fyrr í sumar. Vaxandi innflutningur kallast á við aukin umsvif í hagkerfinu með dvínandi faraldri og endurspeglar því að vissu leyti jákvæða þróun þótt sá böggull fylgi skammrifi að vöruskiptahallinn eykst.

Faraldurinn setur strik í útflutningsreikninginn

Útflutningstekjur af ferðaþjónustu hafa borið uppi þjónustuafgang undanfarin ár en COVID-19 faraldurinn hefur vitaskuld sett þar stórt strik í reikninginn. Á móti hafa hins vegar útgjöld vegna ferðalaga Íslendinga erlendis skroppið mikið saman í faraldrinum. Það segir líka fljótt til sín í tölunum þegar rofar aðeins til hjá ferðaþjónustunni. Þannig voru útflutningstekjur vegna farþegaflutninga og ferðalaga ríflega 30 ma.kr. á 2. ársfjórðungi og má leiða að því líkur að stærstur hluti þeirra hafi komið í júnímánuði. Útgjöld vegna utanferða landsmanna voru á sama tíma ríflega 16 ma.kr. og afgangurinn af þjónustuviðskiptum tengt ferðalögum reyndist tæpir 14 ma.kr.

Að ferðaþjónustu slepptri skýrist afgangur á þjónustujöfnuði einna helst af drjúgum útflutningstekjum vegna notkunar hugverka. Samkvæmt Hagstofunni er þar um að ræða tekjur í lyfjaiðnaði sem oft hafa reynst drjúg búbót í þjónustujöfnuði þjóðarbúsins.

Vöruútflutningur sækir í sig veðrið á ný

Samsetning útflutningstekna hefur sem vonlegt er breyst mikið eftir að faraldurinn skall á. Góðu heilli reyndust raskanir á vöruútflutningi tímabundnar að stærstum hluta og hefur slíkur útflutningur haldið ágætlega sjó síðustu fjórðunga. Álútflutningur hefur reyndar gert gott betur en svo síðustu mánuði þar sem álverð hefur hækkað verulega frá áramótum. Verð á sjávarafurðum átti meira undir högg að sækja framan af en heldur rétt úr kútnum síðan.

Lakari horfur fyrir þetta ár en bati í vændum

Á fyrri árshelmingi 2021 voru vöru- og þjónustuviðskipti við útlönd óhagstæð um 59 ma.kr. Það er talsvert lakari niðurstaða en við áætluðum fyrir árið í heild (9 ma.kr. afgangur) í nýjustu þjóðhagsspá okkar frá maí síðastliðnum. Haldi ferðaþjónusta áfram að sækja í sig veðrið mun þjónustuafgangur á seinni helmingi ársins væntanlega aukast verulega frá fyrri árshelmingi. Það eru hins vegar vaxandi blikur á lofti um að vöru- og þjónustujöfnuður í ár verði neikvæður líkt og í fyrra.

Seðlabankinn birtir í næstu viku tölur um viðskiptajöfnuð á 2. fjórðungi þar sem tölur um þáttatekjur og framlög á milli landa bætast við ofangreindar tölur. Verður fróðlegt að sjá hvort afgangur á síðarnefndu liðunum vega gegn hallanum á vöru- og þjónustuviðskiptunum líkt og verið hefur undanfarna fjórðunga og skilaði á endanum viðskiptaafgangi í fyrra. Í lokin er rétt að nefna að þótt tvísýnt sé með afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum í ár er eftir sem áður útlit fyrir talsverðan afgang næstu ár þegar ferðaþjónustan kemst á fullan skrið að nýju.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband