Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Krónan fetar hinn gullna meðalveg

Raungengi krónu virðist um þessar mundir vera á slóðum sem samrýmast jafnvægi í utanríkisviðskiptum og gjaldeyrisflæði. Talsverðar líkur eru á að raungengið haldist nærri núverandi gildum næsta kastið.


Líkt og við fjölluðum um nýlega var nýliðið ár eitt mesta stöðugleikaár hvað krónuna varðar sem um getur frá því hún var látin fljóta snemma á árinu 2001. Er þetta býsna athyglisvert í ljósi þess að töluverðar sviptingar urðu í efnahagslífinu árið 2019, gjaldeyrishöft hafa að mestu verið afnumin og Seðlabankinn skipti sér fremur lítið af gjaldeyrismarkaði á árinu. Við röktum svo líklegar ástæður þessa sem felast í þeirri skoðun okkar að líklega sé núverandi gengi innan þess raungengisbils sem samræmist innra og ytra jafnvægi í hagkerfinu og helstu aðilar á markaði hafi auk heldur trú á að slíkt jafnvægi sé til staðar og muni líklega ríkja enn um sinn.

Raungengið siglir lygnan sjó

En hvernig drögum við framangreinda ályktun um raungengið og hvernig hefur þróun þess verið? Seðlabankinn birti í morgun nýjan útreikning á raungengi krónu til ársloka 2019. Raungengið er mælikvarði á samkeppnishæfni þjóðarbúsins og kaupmátt innlendra aðila á alþjóðavísu.

Eins og það er orðað hjá Seðlabankanum:

Raungengi er skilgreint sem hlutfallsleg þróun verðlags eða launakostnaðar á framleidda einingu í heimalandi annars vegar og viðskipalöndunum hins vegar frá tilteknu grunnári og mælt í sama gjaldmiðli og birt sem vísitala..

Líkt og nafngengið hefur raungengi krónu siglt tiltölulega lygnan sjóð undanfarið ár. Helgast það af því að verðlag og launakostnaður hefur hækkað fremur hóflega hérlendis á tímabilinu. Sú hefur svo sannarlega ekki alltaf verið raunin á fyrri tímabilum stöðugleika í nafngengi krónu.

Allt frá lokafjórðungi ársins 2018 hefur raungengið á grunni hlutfallslegs neysluverðs sveiflast á býsna þröngu bili. Samkvæmt ársfjórðungsgögnum Seðlabankans hefur vísitala þess verið á bilinu 89,7 – 91,1 allan þennan tíma, eða með öðrum orðum haldið sig á 2% bili á tímabilinu.

Þjóðarbúið ræður við hærra raungengi en áður

Eins og sjá má af myndunum er núverandi raungengi nokkuð yfir meðaltali undanfarinna 20 ára og var bilið þar á milli á lokafjórðungi síðasta árs 9%. Það segir þó ekki alla söguna um hvort raungengið sé í jafnvægi nú um stundir. Íslenskt hagkerfi hefur tekið stórfelldum og jákvæðum breytingum undanfarinn áratug hvað varðar innra og ytra jafnvægi. Það hefur óhjákvæmilega áhrif á það raungengi sem samræmist jafnvægi.

Þar skiptir ekki síst máli sú grundvallarbreyting til hins betra sem orðið hefur á hreinni eignastöðu hagkerfisins gagnvart umheiminum. Erlendar eignir umfram skuldir nema um þessar mundir tæpum fjórðungi af vergri landsframleiðslu (VLF). Í upphafi áratugarins voru erlendar skuldir umfram eignir hins vegar samsvarandi ríflega 70% af VLF, þótt undan væru skilin slitabú gömlu bankanna, og á áratuginum áður en útrás gömlu bankanna hófst fyrir alvöru (1995-2004) var erlenda eignastaðan að jafnaði neikvæð um nálega hálfa landsframleiðslu.

Þessi stórbætta staða leiðir að öðru jöfnu til hærra jafnvægisgengis enda ættu hreinar fjármagnstekjur erlendis frá í fyllingu tímans að reynast umtalsverð búbót ef staðan helst á svipuðum nótum eða batnar enn frekar. Lauslegt tölfræðimat okkar bendir til þess að 10 prósentustiga bati á hreinni erlendri stöðu í hlutfalli við VLF geti farið saman við u.þ.b. 0,5 prósentu hagfelldari viðskiptajöfnuð í hlutfalli við VLF ár hvert að öðru jöfnu. Svo vill til að það samband rímar ágætlega við þá einfölduðu langtímaforsendu að arðsemi hreinnar erlendrar eignar ætti að vera í kring um 5%. Hér er vitaskuld um mikla einföldun að ræða og fjölmargir aðrir þættir hafa áhrif á jafnvægisraungengið, en þó hefur þessi þróun að mati okkar umtalsverð áhrif á getuna til að viðhalda hærri lífskjörum hér á landi en ella væri.

Sú uppsveifla sem nú er að baki sker sig úr í hagsögu Íslands hvað það varðar að viðskiptaafgangur hefur verið viðvarandi. Er þar til að mynda mjög ólíku saman að jafna frá síðasta áratug þegar raungengið var hátt og uppgangur í hagkerfinu en viðskiptahalli var mikill og vaxandi á sama tíma. Enn athyglisverðari er sú staðreynd að þrátt fyrir bakslag í útflutningi í fyrra er útlit fyrir að viðskiptaafgangur á árinu í heild hafi verið með meira móti. Það bendir því margt til þess að núverandi gengi geti samrýmst jafnvægi á utanríkisviðskiptum. Að mati okkar er óvissa um gengisþróun komandi fjórðunga nokkurn veginn samhverf og raunar eru talsverðar líkur á að gengið víki ekki langt frá núverandi gildum enn um sinn. Fari raungengið hins vegar að hækka umtalsvert vegna þess að verðlag og launakostnaður vaxi verulega hraðar en gengur og gerist í umheiminum mun nafngengi krónu væntanlega á endanum gefa eftir og toga raungengið aftur nær núverandi stöðu.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband